12.4.2018 | 09:29
Hringlandi og upphlaup. Það, sem þjóðir heims þurfa síst.
Stórfelldustu ásakanir Donalds Trumps á hendur leiðtogum Bandaríkjanna á þessar öld fólust í því að stimpla Hillary Clinton og Barack Obama sem "stofnenda ISIS", hvorki meira né minna.
Þau hefðu í raun stofnað ISIS með því að styðja uppreisnarmenn í Sýrlandi í svonefndu Arabísku vori til að steypa Assad Sýrlandsforseta.
Út á þetta aflaði Trump sér atkvæða meðal óánægðra kjósenda og bætti því jafnvel við, að þau Hillary og Obama hefðu líka látið sér vel líka herför George W. Bush á hendur Saddam Hussein í Írak 2003 á grundvelli meintra yfirráða hans yfir "gereyðingarvopnum" á borð við eiturefni.
Með því að sóa bandarískum skattpeningum í ómæld hernaðarútgjöld vegna gereyðingavopna, sem ekki voru til, heldur tilbúningur frá rótum, hefði verið búinn til jarðvegur fyrir ISIS og skelfilega borgarastyrjöld í Sýrlandi, sem skæki þjóðfélögin í kring og raunar norður um alla Evrópu vegna flóttamannastraums.
Trump lofaði að draga Bandaríkjamenn út úr vitleysunni í Sýrlandi og spara með því hernaðarútgjöld.
Trump var varla fyrr kominn í Hvíta húsið en hann byrjaði að éta þetta ofan í sig með því að stórauka útgjöld til hernaðarmála og láta gera loftárás á herstöðvar Assads vegna notkunar hans á efnavopnum.
Nú var vitað, að bæði Assad og Saddam Hussein höfðu á löngum ferli sínu notað efnavopn gegn eigin þegnum.
Listi alþjóðasamtaka varðandi notkun efnavopna í Sýrlandi er ljótur.
En Saddam gerði sína stærstu árás ´meðan hann var studdur af Bandaríkjamönnum í stríði við Írani.
Og það tókst meira að segja að fá Assad til að eyða lunganum af efnavopnum sínum, en það gerðist ekki með tafarlausum látum og fyrirgangi, heldur með blöndu af lagni og ákveðni, sem byggðist á pottþéttum sönnunargögnum.
Nú reynist hins vegar ekki auðvelt að sanna notkun efnavopna í Douma. Samt hefur Trump ráðið til sín "sérfræðing" í slíku, þann sama og blekkti George W. Bush með því að skálda upp eign Saddams Husseins á "gereyðingarvopnum."
Sjálfur sagði Saddam við yfirheyrslur eftir að hann var handtekinn að hann hefði ekki trúað því fyrirfram að Bandaríkjamenn og Bretar myndu í alvöru ráðast á Írak því að CIA vissi vel, að engin gereyðingarvopn væru í þar í landi. Tregða hans við að samþykkja lúsarleit um allt Írak að slíkum vopnum hefði stafað af af eðliegu stolti sem forystumanns sjálfstæðrar þjóðar.
Efnavopnaárás núna á Douma af hálfu Assads hefði verið frekar heimskuleg, - hann sýnist hvort eð er vera á leið með að ná þessu síðasta vígi uppreisnarmanna á vald sitt og því aðeins tapa á því að gefa Bandaríkjamönnum höggstað á sér. Nema hann sé að þreifa fyrir sér um það hve langt hann geti komist í kjölfar þess að í öðru orðinu gortar Trump af því að vera að draga her sinn út úr Sýrlandi, þótt hann rjúki núna allt í einu upp með látum.
Enginn forseti Bandaríkjanna hefur frá upphafi vega djöflast jafn linnulítið við að gefa stórkarlalegar og vægast sagt oft fljótfærnislegar yfirlýsingar út og suður og láta stanslaust illum látum.
Ekki minnast menn heldur Bandaríkjaforseta sem helst verr á samstarfsfólki, sem ýmist gefst upp á því að reyna að þjóna þessum flautaþyrli, eða er rekið úr starfi algerlega fyrirvaralaust og fréttir af því á samfélagsmiðli.
Bandaríkin eru enn öflugasta risaveldi heims hernaðarlega og ríki í slíkri stöðu þarf síst á forystumanni að halda sem oft virðist varla vita sitt rjúkandi ráð, heldur efna til hringlanda og upphlaupa í tíma og ótíma.
Slíkt er áhyggjuefni fyrir aðrar þjóðir heims, ekki síst bandalagsþjóðir Bandaríkjanna, sem engjast oft af óvissunni vegna hættunnar sem misráðnar ákvarðanir valdamesta manns heims geta valdið.
Í fréttum hefur verið frá því greint að Teresa May vilji fá betri sannanir fyrir fyrir því að efnavopn hafi verið notuð í Douma.
Á það er að líta, að íbúar Douma standa örvæntingarfullir frammi fyrir því að hinn illi Assad hertaki borgina með skelfilegum afleiðingu, og gætu þess vegna reynt með öllum ráðum að fá Trump til að skerast í leikinn, sem virðist jafnvel vera möguleiki, þrátt fyrir að með því gæti hann verið að éta endanlega ofan í sig öll stóryrðin í kosningabaráttunni.
Bandaríkin hafa ekki ákveðið næstu skref | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar þau Hillary og Óbama settu vopnin í hendur vafa samra manna.
Valdimar Samúelsson, 12.4.2018 kl. 10:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.