6.5.2018 | 23:13
Ódrepandi öldungur.
Í marga áratugi hefur það verið ætlun Bandaríkjamanna að hanna hraðfleygari, öflugri og stærri sprengiþotu en B-52 H Stratofortress, sem hefur verið burðarás bandaríska sprengjuþotna í flugher þeirra.
Hún kom til sögunnar 1952 og allar tilraunir til þess að láta öflugri flugvélar leysa hana af hólmi hafa mistekist.
Núna er gert ráð fyrir að hún haldi sessi sínum að mestu til 2045!
Ástæðan fyrir þessu mikla langlífi er ekki, að hún hafi verið svona rosalega fullkomin.
Nei, hún er knúin sex sinnum aflminni þotuhreyflum en breiðþotur nútímans, og þess vegna verða þeir að vera átta.
Hámarkshraðinn er hægagangur miðað við minni sprengjuþotur.
Hún flýgur undir hljóðhraða á næstum þrefalt minni hraða.
Ástæðan er sú, að allt frá 1942 hafa tilraunir til að framleiða burðarmiklar og langfleygjar sprengjuflugvélar, sem flygju svo hratt að þær gætu varið sig sjálfar, runnið út í sandinn.
Ævinlega hafa komið jafnharðan fram orrustuvélar sem hafa flogið hraðar og þvi getað skotið sprengjuflugvélarnar niður.
Bandamenn hefðu til dæmis átt erfitt með að halda úti jafn miklum loftárásum á alla hluta Þýskalands, ef þeir hefðu ekki þróað langdræga orrustuflugvél, P-51 Mustang, sem gat fylgt sprengjuflugvélunum allt til Berlínar og varið þær fyrir árásum.
Á undanförnum 50 árum hafa þær þotur, sem áttu að leysa B-52 af hólmi, verið alltof flóknar og dýrar.
Ódýrara hefur reynst að framleiða nógu margar orrustuflugvélar til þess að verja gömlu B-52 öldungana.
Á svipaðan hátt er helsta sprengjuflugvél Rússa, Tupolev Tu-195, næstum eins gömul og B-52 og meira að segja knúin "úreltum" skrúfuþotuhreyflum.
Að vísu langstærstu skrúfþotuhreyflum í heimi, 15 þúsund hestöfl hverjum, og hver hreyfill með tvær skrúfur, sem snúast í gagnstæðar áttir.
Stærstu skrúfuþotuhreyflar vesturveldanna voru þrefalt aflminni, 5700 hestöfl á "Monsanum" Loftleiða, Canadair CL-44.
En "Björninn", eins og Tupolev TU-195 er kölluð, er samt jafn langfleyg og næstum því eins hraðfleyg og B-52, og ef Sukhoi Su 35 eða Su 37 orrustuþotur eru nálægt henni sjá þær um að verja skrímslið.
Þjóðverjar gáfust upp á því í stríðinu að framleiða Tiger stórskriðdrekana, sem gátu hver og einn ráðið við allt að tíu óvinaskriðdreka, af því að ofurskriðdrekinn þýski var svo dýr í framleiðslu og dýr og erfiður í viðhaldi, að það voru ekki framleidd nema nokkur þúsund stykki.
Á sama hátt entist Messershcmitt Me 109 Þjóðverjum allt stríðið sem megin orrustuvél þeirra, af því að það var hagkvæmara að framleiða hana en aðrar vélar og fjöldinn skipti mestu máli, þótt vélar á borð við Focke-Vulf 190 væru öflugri.
Á sama tíma framleiddur Rússar 84 þúsund T-34 skriðdreka, sem voru ekki bara bestu skriðdrekar stríðsins vegna vel heppnaðrar hönnunar og flotgetu við erfið skilyrði, heldur svo ódýrir í framleiðslu og viðhaldi, að nýting þeirra gerði þá að yfirburðastríðstóli.
Hliðstæður má víða finna. Lada Taiga/Niva (Lada sport á Íslandi) hefur verið framleiddur í 41 ár, þótt það ætti að hætta því fyrir aldarfjórðungi og Mercedes Benz G-wagen er líka ódrepandi.
Hátækni í skrokki öldungs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.