8.5.2018 | 21:40
Hátónasamkeppni og "má ég líka vera með á myndinni?"
Þeir voru ansi margir, háu tónarnir sem Ari Ólafsson þurfti að keppa við í kvöld og þótt frammistaða hans væri mjög góð má enginn við margnum.
Vonir mínar um að hann fengi að vera einn í lokin í nógu löngu og þröngu myndskeiði og láta útgeislun sína "taka salinn" rættust ekki.
Í staðinn þustu allir bakraddasöngvararnir að honum svo að helst líktist "má ég líka vera á myndinni"-heilkenninu.
Því miður rættust síðustu setningarnar í laginu "Júróvisionstuðpartí" sem ég gamnaði mér við að setja á facebook um helgina og er þar enn, en þær eru svona eins og þeir geta heyrt, sem skoða það myndband:
"...congratulation and celebration,
þótt við verðum meðal neðstu einu sinni enn,
ahahaha!"...
...og ég ætla í Júróvisionpartíi að sleppa mér! Skál!"
Og það eru tvö, - já eða minnsta kosti eitt júróvision lokapartí eftir.
Til gamans set ég hér inn mynd af myndupptökuhljóðverinu í eldhúskróknum að Fróðengi 7, þar sem útlenda formúlan KISS - Keep It Simple Stupid, réði ríkjum.
Eina statistanum var stillt upp við vegg í orðsins hreinustu merkingu, og til þess að myndavélin gæti staðið kyrr í réttri hæð í staðinn fyrir eina manninn á staðnum, flytjandi höfundur, myndatökumaður, hljóðupptökumaður, upptökustjóri og leikstjóri, voru tiltækir hlutir svo sem bækur, taska, koddar, straubretti o.þ.h. notuð.
Bjalla af reiðhjóli, sem er jafnan þarna rétt hjá, var notuð í upphafi lagsins og eftir á túlkaði Jónas Þórir Þórisson ímyndaðan undirleik, sem júróvisionpartígesturinn tali sig heyra, og Gunnar Árnason tók upp og hljóðblandaði síðan. Friðþjófur Helgason setti síðan upphafsskilti og enda á þetta þurtfi hið eina samfellda kyrra myndskeið að vera 2:56, svo að tónlistarmyndbandið stæðis Júróvisionkröfur um 3:00 lengd. Kærar þakkir til Jónasar, Gunnars og Friðþjófs auk Gunnars Baldurssonar, sem vissi af ónýtri gínu í hvarfi uppi við rjáfur í geymslu í Útvarpshúsinu og hætti lífi sínu til að klifra upp eftir löngum, mjóum og lausum stiga til að sækja hana og lána mér í þetta verkefni.
Hún setur deiluna um Nínu í nýtt ljós. Hingað til hefur verið deilt um hvort hún sé lifandi eða dauð en nú kemur upp þriðju möguleikinn: Hún er gína?
Ísland komst ekki áfram í Eurovision | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Sitt sýnist hverjum eins og oft vill verða
og má vera að ég hafi fallið í þá gryfju
sem auðveldast var en mér fannst framlag Íslands
bera af öllu öðru í kvöld.
Hvort einhver beljaði hærra öðrum gat ég með engu móti séð
að hafi verið markmið nokkurs keppanda sérílagi.
Ástæða til að fagna þessu framlagi Íslands þó ekki hafi það fengið
náð fyrir augum annarra þjóða enda mun þar ráða annað en hvort
keppendur belja, öskra, falla í yfirlið, er ekið inn í hjólastól,
þeir lappalausir eða jafnvel hauslausir enda sameiginleg kafbátasigling
hinna útvöldu, - elítunnar!
Húsari. (IP-tala skráð) 8.5.2018 kl. 23:46
Ég var ekki að tala um neitt öskur, hvorki hjá Ara né öðrum, heldur háa tóna, eins og voru til dæmis mjög flottir hjá einni söngkonunni, sem virtist vera með alla burði til að gera það gott á óperusviðinu.
Ómar Ragnarsson, 9.5.2018 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.