16.5.2018 | 18:36
Hálft hreindýr út úr vélinni.
Þeir, sem voru á ferð fyrir austan Fagurhólsmýri í Öræfasveit ágústdag einn 1986 hljóta að hafa efast um að þeir hefðu eðlilega sjón ef þeir litu til himins og sáu litla tveggja hreyfla flugvél fljúga í vesturátt fyrir norðan veginn með aftari hluta hreindýrs hangandi út um farangursdyr vélarinnar.
En þetta gerðist nú samt þrátt fyrir að talið væri að búið væri að tryggja það örugglega að hreindýrið væri svo kyrfilega njörvað niður inni í vélinni, að það gæti ekki losað sig.
Einnig átti að vara útilokað að dýrið gæti opnað farangursdyrnar innan frá, auk þess sem þessar dyr voru fremur litlar, undir aftasta glugganum.
En það gerðist samt, og það í 7000 feta hæð yfir sunnanverðum Vatnajökli yfir efri hluta Breiðamerkurjökuls nálægt Mávabyggðum.
Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst hreindýrinu, sem var raunar stálpaður kálfur og hafði verið á 200 ára afmælissýningu Reykjavíkurborgar, að krækja harðri klaufinni á öðrum afturfæti sínum í fals hurðarlæsingarinnar og sparka hurðinni upp, með þeim afleiðingum, að aftari hluti dýrsins sogaðist út svo að fæturnir sprikluðu utan við vélina!
Lent var heilu og höldu á flugvellinum á Fagurhólsmýri og gengið svo tryggilega frá bæði dýri og hurð þar að það haggaðist ekki á leiðinni þaðan austur á flugvöllinn á Djúpavogi.
Hreindýrið var frá Eyjólfsstöðum í Berufirði, og unglingsstúlka frá bænum sat í framsæti fyrir framan dýrið, en þrjú sæti ar aftan við höfðu verið tekin úr vélinni til að rýma fyrir hinum óvenjulega farþega.
Flugmaðurinn hálfur út úr vélinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.