Margþætt lausn.

Fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu um 70 þúsund til ársins 2040 mun skapa þörf fyrir minnst 50 þúsund aukabíla ef ekki 70 þúsund ef engu verður breytt. 

Dæmið gengur ekki upp við að koma 50-70 þúsund viðbótarbílum af núverandi meðalstærð fyrir í gatnakerfinu, sem þegar þekur helming hins byggða svæðis.

Það verður að leita margþættra leiða til þess að leysa vandann. Að einblína á eitt atriði er ekki nóg. 

Til dæmis er óvissan um það hve miklu Borgarlína fær áorkað of mikil til þess að aðeins sé einblínt á hana. 

Það var fyrir tilviljun sem ég sat uppi með rafreiðhjól fyrir þremur árum, sem ég gat ekki selt og varð að nota sjálfur. 

Þá sögðu sumir við mig: "Þú ert hræsnari, vilt ekkert leggja af mörkum sjálfur." Sem var að vísu ekki alveg rétt, því að ég reyndi eftir fremsta megni að nota eins litla og sparneytna bíla og unnt var. 

En gagnrýnendurnir sögðu að ég ætti að leggja af mörkum við kolefnisjöfnuð í gegnum skógrækt og landgræðslu og styðja Borgarlínuna. 

Bæði atriðin byggjast á því að leggja fram krafta og fé í aðgerðir, sem ekki fara að verða að gagni fyrr en eftir mörg ár eða jafnvel áratugi. 

Og skógrækt og landgræðsla, svo þarft sem slíkt má teljast, leysa ekki umferðarvandann í Reykjavík. 

Ég sagðist á opinberri ráðstefnu ætla að leita að "rafbíl litla mannsins" og sökkti mér því niður í alla fáanlega þekkingu um önnur samgöngutæki en bílana, sem höfðu verið eitt af mínum nördasviðum í næstum 70 ár. 

250 þúsund króna rafreiðhjólið var fínt, en vegna búset minnar austast í Grafarvogshverfi nýttist það ekki alltaf til ferðalaga í borginni og alls ekki í ferðum út á land þótt ég færi nokkrar slíkar. 

Þar með varð lausning sú að við bættist 450 þúsund króna létt"vespuhjól", sem hægt var að fara á á þjóðvegahraða um allt land fyrir brot af þeirri eyðslu, mengun og kostnaði sem bíll veldur. 

Þess utan losnar eitt rými fyrir bíl í umferðinni fyrir hvert slíkt lítið en þó hraðskreitt hjól, bæði á götunum og á bílastæðum. 

Í þessi tvö ár hefur aldrei komið vika svo að ekki hafi verið hægt að ferðast á hjóli vegna veðurs, og farnar ferðir á vélhjólinu út á land.

En engu að síður blasti við að í einstaka tilfellum kynni þó að þurfa meira skjól og rými en litla vespuhjólið veitir. 

Fyrir tilviljun rakst ég á bílasölu á minnsta, ódýrasta og umhverfismildasta rafbíl landsins, tveggja sæta en þó með 100 km drægi og 90 km hámarkshraða, og það er viðráðanlegt fyrir lífeyrisþega eða láglaunamann að borga 20 þúsund krónur mánaðarlega til að eignast slíkan bíl en að borga 53 þúsund krónur á mánuði fyrir rafbíl af þeirri gerð sem nú seljast mest. Þegar bensínsparnaður er dreginn frá verður mánaðarleg afborgun í raun 10 þúsund á litla rafbílnum en 43 þúsund á stærri rafbílnum. 

Þessi rafbíll er tveimur metrum styttri en meðalbíll og sparar því bæði rými og er meðfærilegri í gatnakerfinu en meðalbíll. 

Með þessu þrennu hefur persónulegt kolefnisspor mitt minnkað um 85%, - og það sem meira er, nú þegar, en ekki eftir einhverja áratugi. 

Í ljósi þessa má setja upp eftirfarandi hugmyndir: 

1. Betri nýting einkabíla, með ívilnunum til handa þeim, sem minnst rými taka. (Aðeins eins metra stytting meðalbíls losar um 100 kílómetra af malbiki daglega á Miklubrautinni, sem nú er þakið einkabílum. Það þarf ekki 1500 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti (meðalfjöldi í bíl er 1,1)) Japanir hafa tekið til þessa bragðs og það hefur gefist vel. 

2. Nútímalegt tölvuvætt kerfi á innsigluðum mælum, sem menn geti fengið að setja um borð í farartæki sín til að sýna fram á ekna vegalengd sem sé það lítil, að þeir fái ívilnanir í gjöldum í samræmi við litinn akstur. Þetta getur auðveldað eign á bíl númer 2 á heimilinu til ferða utanbæjar eða með fleiri um borð en tvo. Þótt svona kerfi kosti fé, er geysimikill ávinningur fólginn í því að minnka þörfina á einum stórum bíl til allra ferða á heimilinu. 

3. Ívilnanir gagnvart vélhjólum með 125cc vélar eða minni og einnig á rafhjólum stærri og aflmeiri en 25km/klst 250 vatta hjólin, sem nú sjást eingöngu á götunum á sama tíma sem hraðar framfarir eru í gerð stærri og öflugri rafhjóla. 

4. Lagfæringar á helstu flöskuhálsum umferðarinnar, og þar koma auk mislægra gatnamóta eða jarðganga bæði til greina opnir stokkar og breikkun með viðráðanlegum uppkaupum á húsum. (T.d. á Miklubraut við gatnamótum við Rauðárárstíg, Nóatún og Háaleitisbraut. 

5. Ókeypis í strætó og bætt hjólastígakerfi. 

6. Borgarlína í áföngum með nógu örri tíðni vagna og metinn árangur hvers áfanga jafnóðum áður en lagt er í lengingu. 

7. Sjálfkeyrandi bílar og deilibílakerfi sem hluta af lausninni, en ekki má ofmeta þessi atriði. 

Fleira mætti nefna auk nánari rökstuðnings fyrir hverju atriði. 

 

 


mbl.is Stokkar greiði fyrir umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ómar, þú bendir á hversu umfangsminni smábílar eru í umferðinni, sem er hárrétt.   Sjaldan heyri ég þó nefnda þá staðreynd að á helstu umferðargötum borgarinnar fer orðið mest fyrir aukinni umferð stóru ökutækjanna; rútubílum, vörubílum með hlass á pallinum og stórum vöruflutningabílum.  Fjölgun fólksbíla utan vinnutímaálags gæti svo stafað af þúsundum bilaleigubíla ferðamanna.  Ég get vel ímyndað mér að foreldrar kjósi ekki smábíla til þess að flytja börnin sín í því umhverfi, öryggisins vegna.

Kolbrún Hilmars, 20.5.2018 kl. 15:43

2 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Verður þörf fyrir meirihluta vinnandi manna að fara af heimili sínu til vinnu árið 2040 ?

Verðum við ekki að vona að vinnustaðir flytjist nær miðju höfuðborgarsvæðisins í framtíðinni

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 20.5.2018 kl. 17:02

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Betra væri ef allir sem eiga bíla flyttu af "Höfuðborgarsvæðinu" og þeir sem eftir eru borguðu það sem til þarf til að borgin geti með sóma hreinast af öllum tekjum.

Þeir sem þá eiga minnstu reiðhjólin fái að taka meiri þátt í gjaldþrotinu en þeir sem eiga stærri hjól - sem þá eru hætt að snúast. Öndunarmælar verði svo settir á alla og þeir sem blása mest út, borgi mest.

Gunnar Rögnvaldsson, 21.5.2018 kl. 00:36

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er ekki að spyrja að bölbænunum yfir því "gjaldþroti" sem fylgja myndi því að allir væru ekki lengur á næstum fimm metra löngum tveggja tonna bílum með að meðatali 1,1 mann innanborðs til þess að verja sig gegn stóru bílunum. 

Merkilegt að Japan skuli ekki vera orðið gjaldþrota. 

Ómar Ragnarsson, 21.5.2018 kl. 02:06

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það skiptir engu máli hvort þú ert á fimm stjörnu Volksvagen Up eða á fimm stjörnu Benz S ef þú lendir í árekstri við 20 tonna flutningabíl. Eina leiðin til að ná jafnræði væri að vera á 20 tonna fólksbíl. 

Ómar Ragnarsson, 21.5.2018 kl. 02:15

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já endilega að lögleiða bíla úr eggjabökkum, þar sem spjót stingst upp úr stýrinu inn í ökumann þegar farið er yfir 20 km hraða og börnin eru höfð í stól úti á stuðaranum að framan, og ef einhver gerist svo ósvífinn að eiga tvö börn, þá líka að aftan.

Þetta er svo hægt að leggja af stað með í hættuför um borgina, sem þolir hvorki mýs né menn og allra síst neinn sem borgar fyrir neitt. Þessu hefðir þú getað komin fyrir í nýrri svifryks-stjórnarskrá fyrir borgríki vesalings Reykjavíkur Ómar. Vandamálaveldis Íslands. Hmpf!

Þetta er farið að nálgast hreina geggjun, þetta vesalingabæli. Fari það norður og niður!

Gunnar Rögnvaldsson, 21.5.2018 kl. 03:03

7 identicon

reyndar er Japan tæknilega gjaldþrota. skuldunautarnir sjá sér hag í að halda því á lífi. en hvað um það ef til er þessi smábíll sem ómar talar um sem festist ekki í fyrst snjóum . er það bara gott mál. því það er bara sóun að vera með stóran bíl fyrir 1.1 mann í bíl. en hefur ómar skoða edanólbireðar þá er hægt að nota mengun úr jarðvarmaveitum til að gnýja áfram núverandi bílvélar með litlum breitíngarkosnaði  

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 21.5.2018 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband