29.5.2018 | 13:38
Smábarnamál í fjölmiðlum hjá háskólamenntuðu fólki?
Það færist í vöxt hjá íslenskum blaðamönnum að tala eins og lítil börn, sem eru að læra móðurmál sitt en eru komin skammt á veg.
Þetta málfar er oft ekki aðeins frumstætt, heldur beinlínis órökrétt svo að úr getur orðið tómt rugl.
Ágætt dæmi um þetta er tengd frétt á mbl.is um það að óður maður, vopnaður hnífi, réðst á tvo lögreglumenn í borginni Liege í Belgíu, náði af þeim skotvopnum þeirra og skaut þá síðan.
Í upphafi er raunar talað um lögreglukonur sem samt talað um þær í karlkyni.
Hingað til hafa aðeins börn notað eftirfarandi orðbragð, sem lesa má í þessari frétt:
"...réðst á lögreglu vopnaður hnífi, náði af þeim byssunum og skaut þá með þeirra eigin vopni."
Hér er í það minnsta þrefalt rugl á ferðinni.
Orðið lögregla er aðeins til í kvenkyni eintölu, en samt er talað í fréttinni um lögreglu í fleirtölu og karlkyni í orðunum "þeim" og "þá", en ekki er samt fyrr búið að slá því föstu að fleirtala skuli notuð en að talað er um þeirra eigið vopn í eintölu.
Jafnvel þótt notaður hefði verið greinir í orðinu lögreglu og sagt: "...réðst á lögreglurnar.." gengur dæmið ekki upp þegar búið er að tala um "lögreglurnar" í fleirtölu, því að sagt er að óði maðurinn hafi náð af þeim þeirra eigin "vopni", sem er eintala.
Um aldir hafa heiti fyrirbæra iðulega verið í öðru hvoru kyninu á Íslandi, þótt bæði hafi verið um kvenkyn eða karlkyn að ræða.
Þannig er heitið kennari í karlkyni, þótt 80 prósent kennara séu konur.
Konur eru nefnilega líka menn.
Heitið lögregla er samheiti í kvenkyni eintölu, enda segir enginn: "Hann er lögregla", eða "hún er lögregla" eða þaðan af síður "..þau / þeir / þær eru lögreglur."
En kornung börn eiga það til að tala svona.
Nú eru tímar háskólamenntaðs fólks og því skyldi maður ætla að háskólamenntað fólk skrifi fréttir, þar sem eina verkfærið er íslensk tunga.
En kannski er skammt þangað til sjá megi svona frétt í fjölmiðli:
"Fimm vopnaðar lögreglur voru sendar til að fást við hinn óða mann, en þegar lögreglurnar komu á vettvang, hræddi maðurinn þá með hnífi og náði vopninu af þeim."
Skaut lögreglu með þeirra eigin vopni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er búið að laga þetta núna - en þetta er hlutur sem gerir íslenskt mál, hvað skal segja? Áhugavert? Þetta flakk með "kynjuð" orð.
Þetta kemur með reynzlu - en mig grunar líka að MBL sé að spara sér stórfé með því að ráða unglinga.
Þú getur prófað að spyrjast fyrir. Ég þori að veðja að þeir eru flestir yngri en 25.
Ásgrímur Hartmannsson, 29.5.2018 kl. 15:54
Sæll Ómar,
Þakka þér fyrir þarfa áminningu um meðferð móðurmáls okkar. Eg vildi bæta við athugasemd þ.e. að stjórnmálaframboð kallar sig sjóræningja þýtt yfir á ensku í fleirtölu (Pirates). Ég tók eftir að ekkert sjóræningjaframboð kom fram æi
í Vestmannaeyjum. Sennilega lifir enn í minningu eyjamanna heimsókn sjóræningja
1627.Ennfremur sá ég í fréttum nýlega að leigðir voru byssumenn til að verja kínverks smíðaða togara á leið um Indlandshaf .
Ég tel það ekki við hæfi að nefna stjórnmálaframboð útlensku nafni.
Með bestu kveðju
Sæmundur Reimar Gunnarsson, eldri borgari
Sæmundur R. Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.5.2018 kl. 16:15
Þörf áminning Ómar. Leikskólamál veður uppi á netmiðlunum og morgunþáttunum, öllum með tölu. Stjórnendafliss, slettur og skelfilega takmarkaður orðaforði að ekki sé talað um aulaþýðingar úr ensku. Við hverju er svosem að búast þegar þáttastjórnendur eru bara þekktar fígúrur sem hafa sáralitla þekkingu á fjölmiðlastörfum. Oft þrátt fyrir langa "reynslu" (í að japla á sömu tuggunum árum saman).
jon (IP-tala skráð) 29.5.2018 kl. 16:35
Það er gott að meginmál fréttarinnar var skrifað upp á nýtt.
En eftir stendur fyrirsögnin: "Skaut lögreglu með þeirra eigin vopni."
"...þeirra..."? Orðið lögregla er eintöluorð, ekki satt?
Ómar Ragnarsson, 29.5.2018 kl. 21:21
Legg til eftirfarandi leiðréttingu: "Réðst á lögreglurnar vopnaður hnífi, náði af þeim byssunum og skaut á þær með þeirra eigin vopni". (Þá er gert ráð fyrir að þessar "lögreglur" hafi deilt með sér rifflinum svona eins og sovéskir hermenn í seinna stríðinu eða þá að byssurnar hafi verið sameign "lögreglnanna".)
En, jæja...
Þorsteinn Siglaugsson, 29.5.2018 kl. 21:49
Atli Steinn er knár blaðamaður sem veit hvað hann syngur. Honum yrði ekki skotaskuld að skrifa umrædda frétt á sómasamlegan hátt. Og hefði auðvitað átt að gera það.
jon (IP-tala skráð) 29.5.2018 kl. 23:31
Afar mikilvægt að vekja máls á svona vitleysu. Þetta eru skemmd frétt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.5.2018 kl. 23:37
"...skotaskuld ÚR ÞVÍ að..." átti að standa þarna.
jon (IP-tala skráð) 29.5.2018 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.