Tók meira en áratug að vinna bug á fordómunum.

Fyrstu ár rallaksturs á Íslandi voru erfið vegna magnaðra fordóma og fáfræði um íþróttina. 

Íþróttina?  Já, meira að segja skilgreiningin varð til þess að margir sögðu: "Hvað ætli þetta sé einhver íþrótt, að sitja á rassgatinu í sæti og stýra bíl?" 

Ein leiðin til að fá þessa spekinga til að íhuga orð sín, var að sýna þeim hanskana, sem maður varð á nota í löngu röllunum. 

Fyrst hnussaði enn meira í þeim við að sjá hanskana. "Hvaða kerlingadund er nú þetta silkihanskafyrirbæri?"

Þegar útskýringin kom, tók langan tíma að fá þessa sjálfvita (besservisser) til að trúa hinu sanna: Ef maður var ekki með hanska í lengri keppnunum, nudduðust lófarnir svo hressilega við stýrið í átökunum við það, svo  beintengt, sem þaö varð að vera, (og án vökvahjálpar)) að stýrið át sig í gegnum húðina til blóðs. 

Í mörgum röllunum sat maður fyrir áður en röllin áttu að hefjast í rökræðum við lögreglumenn og fulltrúa sýslumanna fram á morgun til að fá leyfi til að fara af stað á hinum lokuðum leiðum. 

Tímamót urðu loks í Borgarfjarðarralli. Selfosslögreglan hafði áður stöðvað okkur alla fyrir of hraðan akstur á lokaðri og vaktaðri sérleið við Votmúla, skammt frá Selfossi.

Allir voru á meira en 70 km hraða, sem var hámarkshraði á þjóðvegunum þá. !

Í fyrrnefndu Borgarfjarðarralli var gefið út af hálfu lögreglunnar, að radarmælingar yrðu á sérleið ofan úr Hítardal,sem var að sjálfsögðu oll malarvegur. 

Þegar komið var yfir eina blindhæðina í beygju, sást löggan að störfum á beina kaflanum, sem tók við af beygjunni, og hafði hún valið staðinn þannig að aksturinn liti sem svakalegast út. 

Þannig mældi hún okkur og bílinn, sem kom á eftir, en síðan gerðist það undarlega, að ekkert fréttist meira af lögregluaðgerðunum. 

Lauk síðan rallinu og eftir verðlaunaafhendingu um kvöldið kom skýringin þegar ég spurði lögregluþjón um niðurstöðu mælinganna:  "Þú komst fyrst yfir blindhæðina og flaugst í gegnum beygjuna á 162ja kílómetra hraða. En síðan kom Eggert Sveinbjörnsson á eftir þér með sprungið á öðru dekkinu að aftan og mældist á 134 km hraða! 

Þá litum við á hvor annan, sem vorum að mæla, og sögðum: "Þetta er eitthvað allt annað en sá akstur sem við erum að mæla daglega. Og hættum þar með mælingunum og gerðum ekki meira í málinu." 

 


mbl.is Lafhræddur í rallýbíl - myndband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Maður hefði haldið að NÁTTÚRUVERNDARSINNI eins og þú ert Ómar

ættu að vera hörðustu andstæðingar alls sem tengdist motorsporti.

Einhverntíma hefur rally þótt flott en eru ekki tímar aukinnar umhverfissjónarmiða runnin upp?

Jón Þórhallsson, 1.6.2018 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband