22.6.2018 | 14:30
Ný vél var löngu orðin tímabær í Jimny.
Suzuki Jimny hefur verið í sérflokki meðal jeppa, allt frá upphafi, þegar hann hét Fox á erlendum mörkuðum, sem breyttist árið 1998.
Langminnsti jeppinn en samt ævinlega með tvær heilar hásingar og með meiri jeppagetu en margir margfalt stærri jeppar, einkum vegna léttleika síns.
Þrjá galla má þó nefna: Lítið innanrými, of valtur og með of gamla og eyðslufreka vél.
Nú sýnist vera reynt að bæta úr þessu á nýja bílum, en persónulega er ég spenntastur fyrir nýju vélinni, því að miðað við stærð og þyngd, hefði vélin getað verið sparneytnari, sem notuð hefur verið.
Þegar konan mín skipti úr Jimny yfir í Alto, var eyðslan 3-4 lítrum minni á hundraðið en áður.
Ég hefði kosið að reynt yrði að hafa loftmótstöðuna minni á nýja bílnum, því að hún sýnist vera meira en 0,50 cx og auka með því eyðsluna.
Raunar óttast ég að um afturför verði að ræða vegna þess hve mun meira kantaðri og kassalaga nýi bíllinn er en núverandi bíll.
Útlitið minnir á Jeep Wrangler, sem er með cx 0,49, og Benz G er með 0,54. Þetta er tvöfalt loftmótstaða en er á mörgum bílum.
En útlitið gefur skýr skilaboð: Þetta verður áfram ekta jeppi og í sérflokki hvað snertir léttleika og stærð.
Jimny 1998 til 2018 var í raun svokallaður kei-bíll, þ. e. 1,48 á breidd og 3,40 á lengd þar í landi.
Fyrir erlendan markað var sett breikkunarplastbelti og hjólskálavíkkun á hliðarnar og stærri stuðarar, svo að bíllinn hefur verið 1,60 x 3,60.
Með því að gera sporvíddina meiri náðist ekki betri stöðugleiki sem skyldi, því að eftir sem áður var fjöðrunin innarlega og það minnkaði stöðugleika bílsins.
Af útliti nýja bílsins má ráða, að hugsanlega sé hann líka gerður á grunni mun mjórri kei-bíls, og væri það ókostur.
En sparneytnari vél með meira afli en samt minni eyðslu yrði mest virði.
Núna er uppgefin meðaleyðsla á Jimny 7,3 lítar á hundraðið á sama tíma og til dæmis Dacia Duster er með 5,3.
Í ítrasta vistakstri á Jimny hef ég aldrei komið honum niður fyrir 8 lítra á þjóðvegi á sama tíma og 5,5 lítrar hafa verið mögulegir á Alto.
Suzuki birtir myndir af nýjum Jimny | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.