24.7.2018 | 00:14
Bæði stjórnandi og farþegi með hlífðarhjálm!
Ég hef ánægju af því að sjá unglinga á nýju 50cc vélhjólunum sínum með hlífðarhjálma á höfði njóta ánægjunnar sem þessi nýja upplifun veitir jafnframt því gagni, sem gripurinn gefur.
Því sorgmæddari verð ég við að sjá þá reiða vini sína fyrir aftan sig á hjólinu, - hjálmlausa. Jafnvel tvo fyrir aftan sig, - og báða hjálmlausa.
Ég tala af eigin reynslu varðandi gagn hlífðarhjálmanna. Lenti fyrir þremur árum á rafreiðhjóli í hörðum árekstri við bíl, sem sýndi fram á það, hve þeir eru lífsnauðsynlegir.
Þetta voru augnabliks mistök bílstjórans, og við getum öll gert mistök. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir alla sem nota hjól, að búast við hvers kyns mistökum hjá öllum sem eru í kring um okkur í umferðinni.
Ég var að fara á rafreiðhjólinu yfir frárein Grensásvegar sem liggur í boga inn á Miklubraut. Bílstjórinn hafði hægt á sér og ég hélt að hann myndi stoppa.
En hann leit snöggt til hliðar í áttina frá mér og sá, að það var glufa í umferðinni eftir Miklubraut og að hann gæti komist inn í hana með því að gefa í og drífa sig áfram.
Þegar hann leit fram, blindaði lág kvöldsól hann, svo að hann sá ekki, að ég beint fyrir framan hann.
Ég var kominn það langt, að ég sá bílinn ekki lengur, en bíllinn lenti af fullu afli aftast á hjólinu, svo að það kastaðist með mig upp á þak bílsins og síðan í stórum sveig fram fyrir bílinn og skall loks með mig á götunni eftir flugið ofan af þakbrúninni.
Það segir sína sögu að ég braut framrúðu bílsins með höfðinu og þarf ekki að orðlengja, að frá því sleppur maður varla berhöfðaður. Og því síður frá því að lenda harkalega á malbikinu eftir langt flug ofan af þakbrún bíls.
Ég ökklabrotnaði og fékk álíka mikla áverka á hinum ökklanum, báðum hnjánum, olnboga og öxl.
Tveir mánuðir áður en gips var tekið af. Verð aldrei samur í öxlinni.
Meira en helmingur banaslysa og alvarlegra slysa verða af þessum fjórum ástæðum:
1. Hjólamaðurinn ölvaður eða undir áhrifum fíkniefna.
2. Ekki með lokaðan hlífðarhjálm. (Farþegi ekki með hlífðarhjálm)
3. Ekki með sérstakan vara á því að aðrir sjái hann ekki.
4. Ekki með ökklahlífar (vélhjólastígvél).
Stjórnandi hjólsins ber ábyrgð á þessum atriðum. Líka á því að farþegi sé með hlífðarhjálm.
Ef ekki lokaðan hjálm, þá samt hjálm. Léttur hjálmur er miklu skárri kostur en enginn hjálmur.
Sjálfur nota ég aðeins lokaða hjálminn bæði á rafreiðhjólinu og 125cc létt-"vespuvélhjólinu".
Maður heyrir sagt að það sé svo mikill munur á því að vera á reiðhjóli eða á fullstóru vélhjóli að það þurfi ekki hjálm á reiðhjólinu.
Jæja? Ef það ekur stór bíll á fullri ferð á þig á gangbraut eða annars staðar, skiptir ekki máli hvort þú ert gangandi, eða hjólandi á reiðhjóli eða vélhjóli. Þú ert berskjaldaður og höggið verður það sama, sem og afleiðingarnar.
Það skiptir líka litlu máli hvort þú flýgur af reiðhjóli eða vélhjóli og stingst beint á hausinn á malbikið.
Jack lenti hjálmlaus í reiðhjólaslysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.