Talað fyrir daufum eyrum fyrir rúmum áratug.

Þegar upp úr síðustu aldamótum fór að sjást, að Dacia, dótturfyrirtæki Renault í Rúmeníu, var að gera merkilega hluti. Ævintýrið hófst 2005 þegar salan fór upp í 300 þúsund bíla á ári, og 2007 var settur á markað Dacia Logan, sem var bæði góður bíll en einnig boðinn á verði sem var reyfarakaup. 

Ódýrasti bíllinn á markaðnum í mörgum löndum, og Dacia Logan skutbíll með sæti fyrir sjö, kostaði minna en Toyota Yaris. 

Hann fékk góða dóma í hinum kröfuhörðu þýsku bílablöðum og seldist vel bæði í Þýskalandi og Frakklandi. 

Ég ræddi um þessa bíla við nokkra forráðamenn bílaumboðanna hér á landi en þeir fussuðu og sveiuðu og sögðu, að hér á landi vildi enginn kaupa svona "austantjaldsrusl". 

Reynt hefði verið fyrr á árum að flytja inn Aro jeppa, en það hefði verið algerlega misheppnað.  

Ég benti þeim á að járntjaldið hefði fallið fyrir 18 árum, og að Íslendingar keyptu bæði Skoda frá Tékklandi og Suzuki Swift frá Ungverjalandi. 

Í raun væri Dacia í meginatriðum Renault, með Renault vélum og drifbúnaði. 

En allt kom fyrir ekki. 

Síðan kom hrunið og Logan var einmitt bíllinn fyrir félitlar íslenskar fjölskyldur. 

Ekkert gerðist en framleiðslan í Rúmeníu óx upp í hálfa milljón bíla á ári, þar af 300 þúsund seldir til landa eins og Frakklands og Þýskalands. 

2010 kom síðan Dacia Duster á markað, alveg eins og sniðinn fyrir íslenskar aðstæður. 

Með snilldar dísilvél, einhverri þeirra sparneytnustu og bestu í heimi og með miklu lægri 1. gír en aðrir jepplingar, en slíkt hentar einmitt vel í torfærum og íslensku ánum. 

Loks hlaut þó að koma að því að þessi bíll ryfi fordómamúrinn og nú er tónninn annar en sá, að tala um austantjaldsrusl. 

Eins og flestir aðrir svonefndir sportjeppar mætti Duster vera með aðeins hærri veghæð, en vegna þess hvað bíllinn er ódýr, er hægt fyrir viðráðanlegan kostnað að hækka hann og setja á hann stærri dekk, - þó ekki stærri en hann ræður vel við. 

Þegar slíkt er gert verður lægsti gír oft full hár fyrir erfiðar aðstæður, en hinn óvenjulega lági lægsti gír á Duster kemur þá í góðar þarfir. 

Ef þessi bíll hefði verið fluttur hingað inn á þeim árum, sem mest var þörfin fyrir að spara fé, hefði svipað gerst hér og í öðrum löndum, að hann hefði "sparað eigendum fúlgur fjár." 


mbl.is Dacia sparar eigendum fúlgur fjár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

 Ótrúlega  ítarlegt myndband með Duster jeppanum. Hef löngum undrast hve marga Duster jeppa er að sjá á íslenskum þjóðvegum. Skyldi verðið vera eins og í Englandi. Ein og hálf milljón? Lág laun í Rúmeníu gætu skýrt lágt verð? Franskir bílar hafa aldrei verið sérlega endingagóðir? Díesel mótorar undantekning?

Aðalmálið hlýtur að vera hvort hægt sé að fá varahluti. Alltaf finnst mér öruggast að kaupa þann bíl sem mikið selst af. Undantekning var Dogde Caravan, fjölskyldubíll sem aldrei bilaði í 12 ár. Þá má segja að önnur tegund, Benzinn sé oft ódýrasti bílinn. Sá bíll sem sjaldan eða aldrei kemur á verkstæði.

Sigurður Antonsson, 4.8.2018 kl. 20:37

2 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Það er rétt að halda því til haga að japanski bílarisinn Nissan á þarna ekki minni hlut að máli en Renault enda um samsteypu þessara tveggja risa að ræða og á hún verksmiðjuna í Rúmeníu og lagði allt til sem þurfti fyrir utan stóran hluta af mannaflanum.   

Ég þekki Dacia Duster bílinn nokkuð vel (sem ég ætla ekki að fjölyrða um hér) og tel ég að þessi bíll hafi mun meira frá Nissan heldur en Renault og þar með þarf lítil bilanatíðni ekki að koma á óvart.  Bensínvélin er líka frábær og svo framleiðir verksmiðjan einnig þriðju “eldsneytis“-útgáfu bílsins þar sem Autogas (LPG) eldsneytiskerfi sem er bætt við bensínvélina (Otto-vélina) og aka nú þegar þúsundir Dacia-bíla á þessu gasi á meginlandi Evrópu.  Þar er einfaldlega ýtt á hnapp í stjórnborði og skipt yfir á gas eða benslin eftir hentugleikum og það á fullri ferð ef vill.  Ef einhver heldur að ódýrast sé að aka um á diesel-bílnum þá er það misskilningur því gasið er miklu ódýrara á meginlandi Evrópu en bensín og diesel.  Hér á landi er hvergi hægt að tanka autogas á bila heldur aðeins metaangasi sem Sorpa framleiðir en það er allta annað gas heldur en autogas og ekki hægt að nota á bíla með autogas-kerfi.

Daníel Sigurðsson, 5.8.2018 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband