6.8.2018 | 22:28
"Þristur" Þjóðverja.
Tvær farþegaflugvélar gerbreyttu farþegaflugi á fjórða áratug síðsustu aldar.
Þetta voru bandaríska flugvélin Douglas DC-3, "Þristurinn", sem flaug fyrst 1935, og Junkers Ju-52 með gælunafnið "Tante" eða "Frænka", sem kom á sjónarsviðið þremur árum fyrr.
Þristurinn var örlítið stærri og með örlítið meira afl, og gat flogið hraðar, af því að hægt var að taka hjólin upp, en þau voru ekki uppdraganleg á Frænkunni.
Ju-52 var þriggja hreyfla og með talsvert stærri væng en Þristurinn. Hún hentaði því vel fyrir ófullkomna lendingarstaði og stuttar brautir og ef bilun varð í einum hreyfli, voru tveir áfram til taks, sem var talsvert öryggisatriði.
Af því að hreyflarnir voru þrír var Frænka nokkurs konar þristur að því leyti til.
Báðar vélarnar voru rómaðar fyrir það að vera gangvissar og öruggar, og Hitler notaði á tímabili Ju-52 sem einkaflugvél sína.
Í Evrópu varð Ju-52 að hryggjarstykki í farþegaflugflota margra landa og var framleidd í þúsunda tali.
Hún var líka notuð sem herflutningaflugvél og jafnvel sprengjuflugvél í Spænska borgarastríðinu og þegar flest var, voru 5000 Ju-52 í notkun fyrir þýska herinn.
500 Ju-52 voru notaðar í innrásinni á Krít 1941, sem var langstærsta innrás sögunnar úr lofti fram að þeim tíma.
Vélarnar voru líka notaðar við innrás í Noreg 1940, í vel heppnaðri loftbrú til Demyansk á útmánuðum 1942 en misheppnaðri loftbrú til Stalingrad í árslok 1942.
Ju-52 var framleidd áfram á Spáni og í Frakklandi eftir stríð, og hún var, eins og Þristurinn, í notkun allt fram undir 1980.
Flugvél úr seinni heimsstyrjöld brotlenti í ölpunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rannsókn slyssins mun taka margar vikur. En eins og staðan er í dag er talið líklegt að orsökin sé ofris (þ: Strömungsabriss, f: stall). Miklir hitar eru í Sviss sem hafa eðlilega áhrif á afkastagetu mótoranna. Við slíkar aðstæður er talið varasamt að fljúga með fullhlaðna vél í útsýnisflug upp í Alpana.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.8.2018 kl. 04:54
Ómar, getur verið að Agnar Koefoed Hansen hafi flogið svona vél á þeim tíma sem hann var atvinnuflugmaður í Þýskalandi áður en hann fluttist aftur til Íslands?
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 8.8.2018 kl. 10:06
Þorkell (10:06). Held ekki. Hann flaug hinsvegar OY-DIG, sem var Fokker FXII. Ekki ósvipuð Tante Ju. Flaug henni á leiðinni Kaupmannahöfn - Hamborg - Amsterdam.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.8.2018 kl. 12:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.