18.8.2018 | 23:19
Alþekkt við þéttbýli víða um heim.
Stóraukin og hraðari umferð um vega- og gatnakerfi hefur víða gert gamalt skipulag úrelt.
Oftast byggðust borgir upp við brýr, hafnarsvæði eða á krossgötum og voru því elstu götur og byggingar oft í þrengslum, sem hömluðu fljótlega nægilegu flæði og orsökuðu umferðartafir eða umferðarteppur.
Í öllum nágrannalöndum okkar má sjá dæmi um það að með tilkomu hraðbrauta voru þær ekki lagðar inn í eða um gamla miðbæjarkjarna, heldur framhjá þeim.
Dæmi um þéttbýli við brýr hér á landi eru Borgarnes, Blönduós, Egilsstaðir, Kirkjubæjarklaustur, Hvolsvöllur (á krossgötum nálægt brú), Hella og Selfoss.
Á Kirkjubæjarklaustri og Hvolsvelli hefur ekki orðið þörf á að breyta vegstæðinu, en Hella er hins vegar gott dæmi um þorp, þar sem svo mikil þrengsli og umferðartafir voru við brúna, sem þorpið byggðist við, að nauðsynlegt var að byggja betri brú á nýum stað á auðu svæði skammt fyrir sunnan þorpið.
Um þetta risu deilur, því að margir óttuðust, að ef hægt væri að bruna hratt yfir nýju brúna myndu viðskipti minnka.
Það væri, með öðrum orðum, nauðsynlegt að haga málum þannig, að vegfarendur neyddust til að aka í gegnum miðju þorpsins.
Ingólfur á Hellu var samgönguráðherra á þessum árum ef ég man rétt og lagði sig fram um að finna lausn, sem auðveldaði Hellubúum að komast sem best í gegnum þetta breytingatímabil.
Fljótlega kom í ljós, að með nýju brúnni og nýjum þjónustumannvirkjum nálægt henni, jukust viðskiptin en minnkuðu ekki.
Á Blönduósi lá þjóðleiðin upphaflega í beygju í gegnum þorpið, en með byggingu nýrrar brúar var ákveðið að láta þjóðveg nr.1 liggja framhjá þorpinu og beint að brúnni sunnanverðri.
Ný og stórbætt samgöngumannvirki skópu vaxandi byggð beggja vegna árinnar.
Með tímanum hefur það blasað æ betur við að með því að gera nýja brú á Blöndu við Fagranes í miðjum Langadal, er hægt að stytta þjóðveg nr.1 um 14 kílómetra í hagkvæmustu vegagerð á landinu.
Fyrr á árum hefði þetta fært þjónustufyrirtæki sem hefðu risið við þessa brú, líkt og Staðarskáli hefur gert við nýja brú í Hrútafirði, lent utan Blönduóshrepps.
En eftir að Blönduósbær stækkaði svo mikið, að nýtt brúarstæði yrði innan sveitarfélagsins, að ekki sé nú talað um ef öll sveitarfélögin á svæðinu sameinast, á þetta ekki lengur við.
Á Egilsstöðum skorti kjark til að stytta leiðina frá Seyðisfirði með því að fara með nýjan veg rétt norðan núverandi byggðar yfir á nýja brú á Lagarfljót, og því eru allir, sem koma með Norrænu neyddir til að taka á sig krók um miðbæ Egilsstaða ef þeir ætla að aka til Norðausturlands.
Allt frá því að hugmyndir vöknuðu um nýja Ölfusárbrú ofan við gömlu brúna hefur mátt heyra svipaðar raddir og voru á Hellu á sínum um nauðsyn þess að viðhalda öllum gegnumstreymi umferðar í gegnum núverandi miðbæ.
Þetta eru gamaldags rök og reyndust röng á Hellu, enda er Selfoss langstærsti byggðakjarni Suðurlands, og ef einhverjir eru að leita að þjónustu, fara þeir einfaldlega og finna hana þar.
Hins vegar er bæði óhagkvæmt og óþarft að þvinga alla, sem aka þjóðveg 1, til að þvælast í gegnum umferðarteppu í núverandi miðbæ.
Mikill meirihluti með breytingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.