Það verða að vera reglur.

"Ordnung muss sein", "það verða að vera reglur," segja Þjóðverjar og hafa stundum þótt ganga full langt í því. "Við látum engan yfir okkur ráða" hefur hins vegar lengi verið sungið í vinsælu íslensku lagi um Þorskastríðið fyrsta. 

Stundum hefur verið sagt um Svía og Norðmenn, að í Svíþjóð sé allt bannað, nema það sé leyft, en í Noregi sé allt leyft, nema það sé bannað. 

Sennilega ætti þetta frekar við Norðmenn annars vegar og Íslendinga hins vegar. 

Þegar utanvegaakstur hefur verið til umræðu á samfélagsmiðlum, hefur það sjónarmið furðu oft verið viðrað að vegna þess hve mikið sé af ósnortnum söndum og öðru víðerni á Íslandi, sé bara allt í lagi að allir fái að aka hvar sem þeim sýnist. 

"Þetta eru bara sandar" er oft sagt. 

Þetta er ákaflega íslensk sjónarmið þegar það er borið saman við þær reglur sem gilda á hliðstæðum svæðum erlendis. 

Í frægasta jeppaþjóðgarði Bandaríkjanna, Giljalöndum (Canyonlands) sem liggur skammt frá bænum Moab, Mekka jeppakarla þar í landi, er net jeppaslóða sem eru alls 1600 kílómetra langir. 

Það þætti ekki mikið á okkar landi, þar sem talið er að slóðarnir séu meira en 20 þúsund kílómetra langir alls. 

En í "landi frelsisins" ("..land of the free.." í þjóðsöng Banda´rikjamanna) er strangt bann við akstri utan slóðanna í Giljalöndum. 

Og þetta gildir í öllum bandarísku þjóðgörðunum. 

Og engum manni dettur í hug að óhlýðnast. Ég gerði það að gamni mínu, þegar við Helga vorum þarna um síðustu aldamót að spyrja, af hverju ekki mætti aka á landi, sem sýndist bara vera sandauðn og gróðurlítið land. 

Undrunarsvipur kom á starfsmanninn þegar hann svaraði: "Ef allir þjóðgarðsgestir, 730 þúsund á hverju ári, fá alltaf að aka hvar sem þeim sýnist, verður allt útsparkað alls staðar, upplífunin af sérstæðri náttúru svæðisins og hinu ósnortna víðerni þar með eyðilögð og víða verða unnin óbætanleg spjöll."

Hann sagði þetta í þannig tóni, að ég varð skömmustulegur, en lét mig hafa það að spyrja svona eins og kjáni, af því að

"þar sem enginn þekkir mann /

þar er gott að vera /

því að allan andskotann /

er þar hægt að gera."


mbl.is „Þetta er bara ömurlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sandauðnir eins og eru á Íslandi eru Evrópubúum algerlega framandi. Þeir þekkja hinsvegar fjörusand við strandlengjur þar sem hjólför skipta engu máli því þeim er skolað burt með næsta flóði. Sennilega líta þeir íslensku sandana sömu augum.

Emil Hannes Valgeirsson, 20.8.2018 kl. 23:58

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, gæti útskýrt sum tilfellin. 

Ómar Ragnarsson, 21.8.2018 kl. 00:52

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Við skulum ekkert hafa reglur um allt, annars verður þetta eins og hjá Kafka:
"Við höfum tekið þennan mann fastan af handahófi, hann hefur örugglega gert eitthvað af sér, við þurfum bara að komast að hvað."

Ásgrímur Hartmannsson, 21.8.2018 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband