Á misjöfnu þrífast börnin best. "Júlísveinninn" á undan samtíð sinni?

Tvennt kemur upp í hugann, þegar nú er verið að upplýsa um svokallaðan "óhefðbundinn mat" fyrir ungbörn og gildi þess að ríghalda ekki í afar fábrotinn "viðurkenndan" ungbarnamat. 

Annars vegar gamla góða máltækið "á misjöfnu þrífast börnin best", sem fjallað er um í tengdri frétt á mbl.is. 

Líklega hefði ekki þurft rannsókn til að varpa ljósi á að í gegnum árþúsundin hafi ungbörn ekki ævinlega borðað eingöngu sérvalda fæðu, heldur af og til komist í fæði af fjölbreyttari gerð; kannski ekki í miklum mæli, en þó nægu til þess að þróa með því fjölbreyttan matarsmekki. 

Kannski var konan mín á undan samtíð sinni þegar hún gaukaði að afkomendum okkar ýmsu smálegu fyrir utan hina ósveigjanlegu forskrift. 

Annað og gerólíkt kemur upp í hugann við að lesa þessa frétt um mataræði ungbarna. 

Um svipað leyti og ofangreindar mataræðistilraunir voru gerðar datt mér það í hug í sambandi við skemmtidagskrá Sumargleðinnar að setja "jólavesen" landsmanna í skondið ljós, með því að Magnús Ólafsson, sem á þeim árum gaukaði við hlutverk jólasveins um jólin, færi í jólasveinabúning og kæmi blaðskellandi inn í salinn sem nokkurs konar "júlísveinn". 

Hugmyndin var ansi hrá, því að óljóst var hvað júlísveinninn ætti að gera. 

"Dreifðu bara karamellum á krakkana og fólkið" stakk Raggi Bjarna upp á. 

Skemmst er frá því að segja að júlísveinsatriðið kolféll, nema aðeins á einum stað, í Skagafirði. 

Á þeim stað var júlísveinninn spurður um það hvort henn héti Ketkrókur vegna mataræðis síns, en á þessum tíma var Magnús Ólafsson engin smásmíði í vaxtarlagi. 

"Nei", svaraði júlísveinninn, "ég heiti Sauðárkrókur". 

Ætlaði þá allt um koll að keyra í salnum. 

En eftir fyrstu tvær helgarnar var ákveðið að slá júlísveinsatriðið af. 

En nú má sjá í fréttum, að jóla-hvað? heilkennið er komið á fullt um miðsumar á Amazon. 

Þar eru boðnar sérstakar "jólaklósett-skreytingar." 

Og virðist bara svínvirka, þótt jólahaldið byrji kannski með þessu á öfugum enda, ef svo má segja. 

Kannski var Sumargleðin með júlísveininn Sauðárkrókur langt á undan sinni samtíð og verið að innleiða sérstaka jólastemningu með "jólaklósett-skreytingum" samanber vísuna: 

Jólaklósett komið er 

að kæta menn um jólin. 

Hve gleðilegt og gott er hér 

að gefa skít í jólin.


mbl.is Óhefðbundinn matur fyrir ungbarnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband