9.9.2018 | 14:57
Af hverju bílarnir? Af því að það er fljótlegast og virkar best.
Lítum á algeng andmæli gegn því að taka upp innlenda orkugjafa til landssamgangna:
1. Það væri nær að taka til hendi í fluginu.
Svar: Bílarnir í heiminum eru að nálgast 900 milljónir. Flugvélarnar eru þúsund sinnum færri og því miður ekki hægt að rafvæða þær, sem aftur á móti er vel hægt varðandi bílana.
2. Brýnast er að auka álvinnslu hér á landi, því að álver á Íslandi koma í staðinn fyrir kolaver í Kína.
Svar: Ef fórna á einstæðum náttúruverðmætum á Íslandi á óafturkræfan hátt fyrst fyrir virkjanir, hjálpa Bandaríkjamönnum við að vernda Yellowstone og virkja síðar í öðrum löndum, er verið að byrja á öfugum enda, með því að fórna fyrst mestu náttúruverðmætunum, sem eru hér á landi. Óvirkjað vatnsafl og gufuafl er víða um heim þar sem slíkar fórnir þarf ekki að færa. Kínverjar eru með sjálfstæða orkustefnu og fjöldi orkuvera á Íslandi hefur ekki áhrif á stefnumótun þeirra.
3. Almenningur hefur ekki efni á að kaupa dýra rafbíla.
Svar: Þetta hefur afsannast í tilraunum mínum undanfarin þrjú ár, eins og ég hef greint frá hér á síðunni.
4. Það verður að nota eldsneytisbíla eingöngu á ferðum út á landi.
Svar: Þetta hefur líka afsannast í tilraunum mínum undanfarin þrjú ár. Auk þess ætti að vera hægt að taka upp kerfi, sem miðar opinber útgjöld til farartækja við ekna kílómetra til þess að auðvelda fólki að eiga aukalega bíl í þau fáu þjóðvegaferðalög sem þorri fólks fer. Þar að auki fer drægni rafbíla hratt vaxandi og kerfið í kringum þá batnandi.
5. Í stað óðagots í rafbílamálum er hægt að ná miklu meiri árangri í skógrækt, landgræðslu og þurrkun votlendis.
Svar: Eitt á ekki að útiloka annað. Árangurinn með ofangreindum aðgerðum er að vísu mikill og ber að stefna ötullega í þær, en árangurinn kemur seint fram, einmitt þegar þörf er á aðgerðum sem virka strax. Tilraun mín leiddi í ljós möguleika á 85 prósent minnkun kolefnisfótspors í persónulegum ferðum mínum STRAX NÚNA.
6. Nútíma hagkerfi er byggt í kringum eldsneytisnotkun og hrynur, nema vexti hennar og þar með nauðsynlegum hagvexti sé við haldið.
Svar: Ekkert getur komið í veg fyrir að æ dýrara og erfiðara verði að vinna olíu og þess vegna er einmitt verra að reyna ekkert til þess að auðvelda óhjákvæmileg skipti á orkugjöfum.
P.S. Ég vitna í dagbækur mínar í svari við athugasemd og sýni eina dæmigerða opnu frá síðasta sumri.
P.S. 2. Hábeinn vænir mig um að skálda upp að hann hafi skrifað langhunda um hinn gríðaralega útblástur af akstri mínum bæði erlendis og innanlands, sem færi fram úr akstri Ásmundar Friðrikssonar og heimtar sönnun þess að hann hafi skrifað þetta.
Ég hef hvorki tíma né pláss til að fara að endurbirta þetta allt, en hér er lítið brot frá 2. febrúar 2018.
Víðtækar breytingar í loftslagsmálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Varðandi andmæli 2. má bæta því við að Kínverjar gætu bætt afkastagetu kolu-orkuvera um 100%, sem sagt tvöfaldað orkuframleiðsluna, án þess að stækka þau, með betri tækni. Og þetta eru þeir að gera. Einnig má alltaf minna á það að virksamasta ráðið til að minnka mengun er sparnaður, án þess að fórn lífsgæðum.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.9.2018 kl. 15:31
Ég ákvað að flokka ekki skutl með aðra, ferðir til og frá vinnu og allt tengt utanlandsferðum sem persónulegar ferðir og minnkaði við það kolefnisfótspor mitt um nærri 95%. Þegar maður fær að velja og hafna hvað telst með þá verður maður mjög umhverfisvænn. Og ef ég væri gamlingi sem ferðaðist einn, þyrfti ekki að hugsa um hvað hver klukkutími frá vinnu kostar og gæti leift mér að eyða dögum í ferðir sem smá mengun styttir í nokkra klukkutíma og fengi rafbíl lánaðan í innanbæjarsnattið færi ég langt yfir hundrað prósentin.
Ómar gæti gerst súper umhverfisvænn með því að hætta alveg að nota farartæki sem menga eða kosta mengun í framleiðslu og förgun. Versla aðeins vörur úr heimabyggð, helst án umbúða. Notað aðeins föt úr náttúrulegum efnum framleiddum með umhverfisvænum aðferðum til að örplast mengun frá honum verði í lágmarki. Og ef hann hættir að nota heitt vatn ætti minna að vera af eiturefnum frá virkjunum hitaveitunnar.
Hábeinn (IP-tala skráð) 9.9.2018 kl. 17:57
Hábeinn er iðinn við að flækja einfalt mál, skrifaði marga pistla um að ég hefði fimmfaldað kolefnisfótsporið frá því sem áður var, af því að ég gæti ekki afsannað að ég hefði ferðast allt árið eins og jójó til útlanda og ekið tugþúsundir kílómetra í útlöndum.
Með sömu röksemdafærslu getur Hábeinn sakað mig um nánast hvað sem er, vitandi það að ég á til dæmis enga möguleika eða tíma til að fá upplýsingar um það frá öllum flugfélögunum sem fljúga til og frá landinu og fljúga um aðrar heimsálfur um að ég hafi EKKI flogið með þeim þetta eða hitt.
Ég hef að vísu áratugum saman haldið einstakt dagbókarbókhald um allar ferðir mínar á eigin farartækjum upp á kílómetra og um öll kaup á orku síðari árin, (sjá mynd af dæmigerðri opnu úr bókinni í ár þar sem Léttir er vespan og Tazzari er rafbíllinn og lítill tími eða peningar til að vera á þeysiflugi um Evrópu), en auðvitað mun Hábeinn/Hilmar segja það allt vera lygi og rangfærslur.
Nú er komið langt fram á þetta ár og ég hef farið eina fjögurra daga ferð til útlanda, sem er minna en var árin áður en átak mitt byrjaði.
Málið er einstaklega einfalt, en Hábeinn eyðir mikilli orku árum saman í að ata það auri.
Ég ók engum bíl eða farartæki í þessari ferð en fór í rútu til og frá flugvelli og í skoðunarferð um Granadaborg í sérstakri léttlest.
Stanslaus og einstæð óvildarherferð Hábeins/Hilmars hér á síðunni ár og síð er honum kannski fró og athyglisvert fyrirbæri fyrir aðra lesendur að horfa á, en ég held að margir aðrir síðuhafar og lesendur hefðu verið búnir að fá sig fullsadda fyrir löngu.
En H/H hefur áður lýst því yfir, að allar tilraunir síðuhafa til að hafa áhrif á ritstjórn síðna sinna séu ritskoðun og ofbeldi, og hann hefur sýnt það, að ef síðuhafi og ritstjóri dirfist að hrófla við neinu, verður óhroðinn settur inn aftur og aftur, jafnvel heilu næturnar.
Ómar Ragnarsson, 9.9.2018 kl. 19:42
Rafbílar, eru það miklu dýrari að þeir borga sig engan veginn ... eins og er. Þrátt fyrir "snilli" Musks í þeim málum að betrumbæta batteríin. Vetni er og verður alltaf, betri kostur ... fyrst og fremst, vegna þess að auðvelt er að "fylla á". En orð "Musk" um að "vatnið" sem kemur út, verður að ís í frosti ... er skemmtilegur brandari. En engu að síður, þá er "rafmagn" augljós kostur fyrir Íslendinga, svo lengi sem Íslendingum verður gert mögulegt að hlaða bílinn heima. Þetta er alveg ljóst. En ef það er "krafa" að bílarnir séu hlaðnir á "helðslustöðvum" þar sem ESB mun hafa hendur í máli um verðlag á rafmagni, spái ég því að "kosturinn" súrni ljótt.
Örn Einar Hansen, 9.9.2018 kl. 20:57
Þyngd rafhlaðnanna er stærsti ókosturinn og rétt eins og það tók tíma og kostaði mikið að koma upp núverandi dreifikerfi fyrir olíu, er mikið óunnið í hliðstæðu verkefni fyrir rafbílana.
Í fróðlegum fyrirlestrum um hleðsluna hefur líka komið fram, að sátt um fyrirkomulag hleðslu í stórum og smáum fjölbýlishúsum er víða erfitt viðfangsefni.
Ómar Ragnarsson, 9.9.2018 kl. 21:49
Það væri upplýsandi ef Ómar, eða Steini eins og hann kallar sig stundum, gæti komið með eina setningu úr öllum þessum mörgu pistlum þar sem ég segi hann hafa fimmfaldað kolefnisfótspor sitt. Eða er sú fullyrðing Ómars/Steina haldin sömu göllum og svo margar aðrar sem hann setur fram?
Hábeinn (IP-tala skráð) 10.9.2018 kl. 08:57
Ekki hefur sést orð frá Steina síðan í apríl hér í athugasemdum, í bráðum hálft ár.
En meðal þeirra daga sem Hábeinn fór hamförum fyrr á árinu var 2. febrúar þar sem hann hélt áfram fabúleringum um gríðarlega notkun mína á bílum innanlands og utan, sem samsvaraði fimm stórum fólksbílum og færi fram úr Ásmundi Friðrikssyni.
Set brot af þessum skrifum í p.s. á pistlinum sjálfum.
Ómar Ragnarsson, 10.9.2018 kl. 22:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.