24.9.2018 | 21:35
Yndislegt á hjólum og miklar framfarir síðan um aldamót.
Skömmu fyrir aldamótin síðustu fékk ég mér reiðhjól og prófaði að nota það um skeið.
Ég gafst upp á því af tveimur ástæðum: Aðstæður til að hjóla utan akbrauta voru ömurlegar, en hitt réði úrslitum, að vegna klemmdra afltauga út frá neðstu hryggjarliðum, þoldi bak mitt ekki nema takmarkaða langvarandi áreynslu í hjólreiðum.
Fyrir fjórum árum skolaði til mín spánnýju rafreiðhjóli í bílaviðskiptum, þar sem ég skipti á hjólinu og illseljanlegan bíl, og ætlaði að selja hjólið strax.
En í ljós komu vankantar, sem ollu því að ég "sat uppi með hjólið" sem annars hefði verið selt.
"Sat uppi" er hér sett í gæsalappir, því að í ljós kom að þessi tegund rafreiðhjóls, sem ég nefni Náttfara, og aðeins voru til örfá eintök af hér á landi, var eins og sérsniðið fyrir mig og sérþarfir mínar, uppfyllti skilyrði um hámarks hraða, en var með handinngjöf sem gerði kleyft að stilla álagi á fæturnar eftir ástandi lélegra hnjáa og baks.
Annað kom líka í ljós og hefur haldið áfram að koma í ljós síðan: Aðstæður til ferðalaga á hjólum hafa tekið gríðarlegum framförum með stórbættu og auknu hjólstígakerfi og gera það enn.
Í sem skemmstu máli: Allir áunnu gömlu fordómarnir gegn notkun hjóla þokuðu fyrir nýjum, heilsusamlegum, ódýrum og umhverfisvænum lífsstíl.
Með því að geta stillt notkun nnjánna í hóf, eru hin uppslitnu hné nú í besta ástandi í 14 ár og bakinu er haldið í skefjum.
Til að fullkomna hjóla-lífsstílinn er ég, eins og ég hef oft lýst áður hér á síðunni, líka með vespuvélhjólið Létti (Honda PCX 125cc) af þeirri stærð, sem getur farið um þjóðvegina um allt land á fullum leyfilegum hraða, en eyðir samt aðeins þriðjungi af eyðslu sparneytustu bíla.
Lítið dæmi um fjölþætt notagildi þessara hjóla: Á morgun þarf ég að flytja lítinn fornbíl frá austasta hluta Grafarvogshverfis niður í Vogahverfi og þarf til þess bíl frá Vöku.
Til þess að komast heim til baka ætla ég að sjálfsögðu að nota annað þessara hjóla í ferðina, en aðeins vespuvélhjólið er nógu hraðskreitt til þess að ég geti verið jafn fljótur og Vökubíllinn þegar ég fylgi honum niðureftir.
Þetta er samt ekki svo mikill hraðamunur. Á Náttfara yrði ég aðeins sjö mínútum lengur en á Létti.
Og ef það yrði spáð meira en 20 m/sek hviðum á morgun, fullkomnar minnsti og ódýrasti rafbíll landsins (RAF; tveggja sæta Tazzari Zero) atlöguna gegn kolefnisfótsporinu.
Yndislegt að hjóla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Áttunda nóvember næstkomadi eru nákvæmlega 10 ár síðan ég keyrðu útaf í Víkurskarðinu og eyðileagði Grand Cherokee jappa. Þá voru 10 ár liðin frá því ég hætti að fljúga, eftir 12.000 flugtíma og 10 flug yfir hafið á milli Íslands og Evrópu. Og síðan hef ég verið hjólandi í þremur löndum. Á Íslandi, í Sviss og Grikklandi. Tek undir það sem Valgerður og Ómar segja; það er yndislegt að hjóla.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 24.9.2018 kl. 22:14
Ekki ætla ég að draga í efa sæluna við það að hjóla. Að hjóla er dásamlegt. Góð hreyfing, hreint loft og örlítið meira svigrúm til að skoða það sem fyrir augu ber.
Ræflinum mér finnst hinsvegar ennþá betra og skemmtilegra að ferðast með einhverjum og því nota ég bílinn.
Hjólið nota ég í "skutl" á milli staða og líkar bara vel, ef ekki þarf um of langan veg að fara, eða mishæðir.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 25.9.2018 kl. 01:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.