26.9.2018 | 00:36
Hvað gerir eitt svona hjól?
Í allri umfjöllun um minnkun kolefnisfótspors umferðarinnar gleymast gatnakerfið sjálft og samsetning farartækjaflotans næstum því alveg.
Því að margra kílómetra langar umferðarteppur auka mjög á orkueyðslu og útblástur.
Í umfjölluninni hafa létt vélhjól af vélarstærðinni 110-155 cc alveg verið fyrir borð borin að undanförnu.
En af hverju að vera halda fram gildi farartækja eins og þeirra, sem brenna jarðefnaeldsneyti?
Af því að létt vélhjól af þessari stærð eru einstaklega sparneytin, ódýr og einföld, og njóta sín best í innanbæjarumferð þar sem sparneytnin er mest, þveröfugt við bílana, þar sem eyðslan er minnst á ekinn kílómetra í utanbæjarakstri.
Skoðum eftirfarandi og höfum sem dæmi algengustu stærð vélhjólanna, svokallaðan 125 cc flokk:
1. Svona hjól er það lipurt og lítið, að ef það er notað í staðinn fyrir bíl til að flytja algengasta farminn, einn mann (geta verið tveir), losar það í raun rými fyrir heilan bíl í staðinn í umferðinni. Þetta sést vel þegar skoðuð er umferðin í erlendum borgum. Í mörgum borgum, eins og til dæmis í Brussel, er sérstakt afmarkað svæði fremst við umferðarljós, ætlað vélhjólum.
2. Uppgefin eyðsla á Létti (Honda PCX 125cc) sem þessi mynd er af, er 2,1 lítri á hundraðið. Ég hef aldrei átt farartæki á sextíu ára ferli í umferðinni, sem eyðir í raun nokkurn veginn jafn miklu og gefið er upp, - allra síst í borgarumferð.
Ég hef haldið nákvæmt bókhald þá tæpu 12 þúsund kílómetra sem þessu hjóli hefur verið ekið, 6000 utanbæjar og 6000 innanbæjar, og eyðslan hefur verið 2,2-2,4 innanbæjar allan tíma, sumar og vetur. Það er þriðjungur af því sem smærri bílar eyða.
3. Þetta hjól setur 40 grömm af co2 út í loftið á kílómetra, tvöfalt til þrefalt minna en nýir smábílar. Það er með stopp-start búnaði, sem slekkur sjálfkrafa á vélinni, ef hjólið er stöðvað. Enginn startari er eftir að drepst á hjólinu, heldur fer hjólið sjálfkrafa í gang í gegnum búnað í generatornum um leið og eldsneytisgjöfin er hreyfð.
4. Verð á nýju svona hjóli er fjórum sinnum lægra en á ódýrustu bílum og kolefnisfótsporið vegna vinnu til að afla fjár til fjármögnunar, reksturs og afskrifta því margfalt minni en á bíl.
5. Svona hjól er sjö sinnum ódýrara í innkaupi en ódýrar gerðir rafbíla og tólf sinnum léttara en rafbíll. Þrátt fyrir að brenna eldsneyti, er hugsanlegt að samanlagt kolefnisfótspor af framleiðslu, viðhaldi, förgun og orkueyðlsu svona hjóls sé jafnvel minna en á rafbíl. Á fyrsta ári sínu fellur nýr bíll jafnmikið í verði og sem svarar öllu kaupverði svona hjóls.
6. Svona hjól er ekki með þann galla rafreiðhjóla að hafa litla drægni og fara hægt yfir, heldur kemst um allt land á þjóðvegahraða og er oftast mun fljótara og handhægara í ferðum inanbæjar en bíll. Miklu fljótara innanbæjar þegar umferðin gengur hvað hægast.
Vegna þess að hámarkshraði svona hjóla er á bilinu 90-110 km/klst, þau eru öll með sjálfskiptingu og afar meðfærileg og auðveld í akstri, er í flestum löndum Evrópu leyfilegt fyrir 16 ára unglinga að aka þeim, eftir að hafa farið á stutt námskeið.
Það sýnir vel eðli þeirra sem farartækja og jafnfram hvað Íslendingar draga alltaf lappirnar í að fylgjast með þróuninni.
Ókostir:
1. Jú, það þarf að klæða sig eftir aðstæðum, en mikil þægindi eru fólgin í því, að hjólin eru þannig hönnuð, að fæturnir eru alltaf í skjóli fyrir úrkomu. Töf við að fara í réttan fatnað og setja á sig lokaðan hjálm, klossa og hanska, meira en vinnst upp við að þurfa yfirleitt ekki að leita að stað til að leggja hjólinu.
2. Ófærð og hálka, of mikill vindur. Jú, en ekki nándar nærri eins slæmt og ætla mætti. Meðan hviður fara ekki yfir 20m/sek er fært. Enn sem komið er, hef ég aldrei skrikað á hjólinu og í þau rúmlega tvö ár sem ég hef átt það hefur aldrei fallið vika úr í notkun, hvorki sumar né vetur. Dekkin negld á veturna og hjólið það létt og dekk og naglar svo nett, að þessir naglar valda aðeins broti af því sliti sem bíldekk valda en gera sama gagn.
3. Tvöfalt fleiri alvarleg slys og banaslys en á bíl. Já, en meira en helmingur slysanna á hjólunum er vegna þess að ökumaður hjólsins var ekki edrú, sem er þrefalt hærra hlutfall en á bíl. Þegar tveimur næstu orsökum er bætt við, að ekki var notaður hjálmur né klossar, eru bíll og hjól á pari.
Hönnun umferðarmannvirkja ábótavant | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.