Þægileg vegalengd.

Þegar bílaöldin gekk í garð hér á landi fyrir 105 árum, voru engir "innviðir" í landinu fyrir hana, hvorki vegir né orkukerfi til þess að bílarnir hefðu eldsneyti í ferðum sínum. 

Það liðu næstum tuttugu ár þar til fært var landveg milli Akureyrar og Reykjavíkur og hringvegur um landið kom ekki fyrr en 60 árum eftir að bílaöldin hófst. 

Þegar litið er á allt dreifingarkerfið, hundruð bensínstöðva og þúsundir kílómetra af vegum sem varð verkefni fátækustu þjóðar í Evrópu 1914 að reisa fyrir breytta tíma, sætir þessi gríðarlega fjárfesting undrun. 

1913 blasti svonefnd olíuöld við, en þegar litið er á feril mannkynsins í orkumálum, er umfang orkuvinnslu hennar á línuriti eins og risahár spjótsoddur, sem nú er við hámark, en getur ekki annað en hnigið á þessari öld vegna þess að búið er að finna allar ábatasömustu olíulindirnar og æ dýrara og erfiðara verður að finna nýjar. 

Olían er einfaldlega ekki endurnýjanleg orkulind og því síður hrein. 

Íslendingar eru hins vegar betur í stakk búnir til að framkvæma orkuskiptin en nokkur önnur þjóð. 

Allt tal um orkuskort er út í bláinn á meðan stóriðjan nýtur enn forgangs í kaupverði á orku og því að 80 prósent innlendrar orku fer til hennar og vilji hefur verið til að auka þennan hluta upp í 90 prósent. Tazzari á hleðslustöð

Aðal viðfangsefnið varðandi rafbíla er sá galli þeirra, að orkugeymdin krefst allt að átta sinnum meiri þyngdar í rafhlöðum heldur en í bensíngeymum. 

Hleðslustöðvakerfið verður því aðal viðfangsefnið. Höfuðborgarsvæðið sem atvinnusvæði nær upp í Borgarnes, austur í Flóa og suður á Suðurnes. 

Þetta er vegalengd sem jafnvel ódýrustu rafbílarnir hér á landi, Volkswagen e-Up!, Mitsubishi Mi-EV og Tazzari Zero, ráða við. Tazzari á hleðslustöð, nærmynd

Síðan eru að koma á markaðinn rafhjól, sem ráða yfir getu til að komast á þjóðvegahraða og að hafa mun meiri drægni en hingað til hefur verið möguleg. 

Aðal kostur þeirra er þó sá, gagnstætt því sem er um bensín og olíu, að orkuna í þau er hægt að fá í hverju einasta húsi, ef því er að skipta, því að þau eru með útskiptanlegum rafhlöðum, sem bæði er hægt að hlaða heima hjá sér, á vinnustað, eða á sérstökum umhleðslustöðvum í kerfi líku því sem er á höfuðborgarsvæði ´Tapei á Tævan, kenndu við Gogoro rafhjól.

Þar tekur um það bil eina mínútu að skipta rafhlöðunum út í sérstökum skiptistöðvum. Gogoro. Skiptistöð

Síðastliðinn föstudag fór ég erinda minna austur í Ölfus á Tazzari rafbílnum mínum og þurfti að hafa aðeins fyrir því að finna möguleika á að tengja hann við rafmagn, vegna þess að hluti af því hvað hann er ódýr, felst í því að aðeins er hægt að hlaða hann rólega á venjulegu rafmagni. 

Ég fann staðinn, sem nauðsynlegur var, hjá ON við Shellskálann í Hveragerði. 

Staðurinn er afar mikilvægur, því að hvorki á Tazzari-bílnum né á venjulegum rafreiðhjólum, er hægt að nota hraðhleðslustöðvar. 

Að vísu er hleðslustöð með möguleika á hraðhleðslu rétt hjá, við Bónus, á vegum Orkusölunnar, en þar var þriggja fasa hleðslan ekki passleg fyrir þá þriggja fasa hleðslumöguleika, sem fylgja litla bílnum mínum og ekki aðstaða til að nota venjulegt tveggja fasa rafmagn. 

Ferðin fram og til baka gekk að óskum. Ég lauk erindi mínu og þurfti aðeins klukkstundar hleðslu við Shellskálann til að vera öruggur um að komast til baka til Reykjavíkur, settist við borð í skálanum, nærðist og vann að verkefnum á tölvunni minni. 

Þess ber að geta, að í Litlu kaffistofunni fékk ég þau svör, að hægt væri að slaka út rafmagnssnúru með venjulegu rafmagni frá húsinu fyrir fólk á rafreiðhjólum. 

Að sjálfsögðu á ein ríkasta þjóð veraldar möguleika á að búa til innviðakerfi fyrir rafbíla eins og henni tókst að búa til innviðakerfi fyrir bensínbíla fyrir hundrað árum. 

Og víðast hvar geta vegalengdirnar á milli orkuhleðslustaða verið þægilegar fyrir fjölbreyttan flota rafmagnsfarartækja. 

 


mbl.is Ellefu hleðslustöðvar við flugvöllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar. Getur þú sagt mér hvenær varð fært á bíl milli Akureyrar og Egilsstaða? Ég fór þetta fyrst í lítilli rútu árið 1961. Mig minnir að vegurinn hafi verið sæmilegur frá Ak. til Mývatns, en vegurinn þaðan og austur á Hérað var VONDUR. Aumingja bílinn hristist sundur og saman. Reyndar voru vegirnir á Héraði slæmir líka.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 26.9.2018 kl. 13:09

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum vestan við Grímsstaði vsr gerð 1946 en áður en hún kom lá leiðin um Húsavík og Reykjaheiði yfir í Kelduhverfi, yfir brú í Öxarfirði og síðan suður Hólssand, og um Möðrudal og Möðrudalsfjallgarða austur á Jökuldalsheiði og áfram. 

Brú yfir Jökulsá á Brú kom hjá Klausturseli straz árið 1905.  

Ég fór frá Reykjavík til að skemmta austur í Hallormsstaðaskóg 1960 á minnsta bíl landsins, NSU-Prinz 30, við vorum fjögur í bílnum og ferðin gekk  vel. 

Ómar Ragnarsson, 26.9.2018 kl. 14:53

3 identicon

Sæll aftur og takk f. svarið. Ég komst í Íslandskort með bílvegum frá 1939. Þar er aðeins merktur reiðvegur til og frá brúnni við Klaustursel, en bílvegurinn og brúin yfir Jökulsá eru á sama stað og núna.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 26.9.2018 kl. 19:09

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það hefur farist fyrir að mestu leyti að fræða og upplýsa um ákveðna öld í íslenskum samgöngum, en var þó aðeins brot úr öld. 

Það er hestvagnaöldin, sem hér var frá um 1880 til 1920.  

Á þessum árum eru gerðir vegir og reistar brýr, og þegar uppgangur byrjar um 1890, miðaðist flest við vaxandi við flutninga á hestvögnum og gististaðir á borð við Kolviðarhól áttu blómaskeið. 

Gott dæmi um leið sem virðist hafa veirð miðaður við hestvagna er vegurinn yfir Kattarhrygg í Norðurárdal.  

Ómar Ragnarsson, 26.9.2018 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband