3.10.2018 | 17:21
Hin hliðin á hreinasta áli í heimi.
Íslenskt ál er auglýst í flenniauglýsingum sem það hreinasta í heimi. Oft er látið fylgja með að 100% íslenskrar orku komi úr hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum.
Ál er til margra hluta nytsamlegt en það er óþarfi að fela þann sannleika, að í besta falli eru 75% íslenskrar orku komin úr hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum, því að orka frá Hellisheiðarvirkjun, Nesjavallavirkjun, Svartsengisvirkjun, Reykjanesvirkjun og Þeystareykjavirkjun er framleidd í gufuaflsvirkjunum og varðandi virkjanirnar fyrir sunnan er um að ræða hreina rányrkju, þar sem orkan af svæðunum verður uppurin þegar líður á þessa öld.
Hvað snertir hreinleikann að öðru leyti í tengslum við hráefnið er íslenska álið alveg jafn óhreint og annað ál á heimsmarkaði.
Ál er unnið úr báxíti, sem breytt er í súrál á þann hátt að eftir sitja einstaklega mengandi og eitruð efni, sem verður að koma fyrir á förgunarstöðum.
Nú hafa Brasilíumenn gefist upp á þessu og framleiðslu á 10% heimsframleiðslunnar verið hætt.
Hve lengi fylgir ekki sögunni.
Síðan er ótalið það sem birtist fyrir nokkrum árum í blaði starfsmanna í Straumsvík og haft var eftir skipstjóra með margra áratuga reynslu af því að sigla með súrál frá Ástralíu yfir þveran hnöttinn með tilheyrandi útblástursmengun frá stórskipinu.
Hann sagði að hvergi í heiminum gæti hann verið eins rólegur gagnvart því að smúla skipið og setja þann úrgang og eitur í sjóinn og hann gerði í Íslandsferðum sínum.
Fyrir slíkt gætu skipstjórar misst réttindin og jafnvel farið í fangelsi ef þeir yrðu staðnir að þessu við strendur annarra landa.
Hætta framleiðslu í súrálsverksmiðju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er engin ástæða fyrir okkar yfirvöld að athuga smúlvenjur þeirra skipa sem hingað koma með súrál?
Halldór Jónsson, 3.10.2018 kl. 18:08
Það hefði ég haldið. Ég bloggaði um þetta og birti mynd af viðtali við skipstjórann, og sagði frá þessu niðri í ráðuneyti, en veit ekki til þess að neitt hafi verið aðhafst.
Ómar Ragnarsson, 3.10.2018 kl. 19:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.