Þetta var ekkert hrun. "Þeir, sem áttu ekkert fyrir, héldu mestu af því eftir."

Nú er tíu ára afmælisdagur Hrunsins á enda og þrátt fyrir orð forseta Íslands um einhverjar óuppgerðar eftirhreytur þess er svo að sjá, að afmælið sé notað til þess að sveigja matið á Hruninu, ekki aðeins í formi þess að að kalla það "svokallað Hrun" heldur að fara alla leið og eyða því. 

Sú hugsun er að vísu ekki ný, kom raunar strax fram í svari Björgólfs Thors í heimildamynd um Hrunið við eftirfarandi spurningu:

"Þetta er talið í tugum og hundruðum milljarða. Hvað varð um allt þetta fé?" 

Björgólfur svaraði:  

"Það gufaði upp." 

Punktur.

Nú segir Geir Guð blessi Ísland Haarde um 70 milljarðana sem Seðlabankinn rétti Kaupþingi að ekki sé vitað í hvað þessir peningar fóru.

Málið dautt. Engum virðist meira að segja detta í hug að ástæða sé til þess að reyna að komast að þessu. 

Nei, þetta gufaði allt upp og ef það var eitthvað, var það allt útlendingum að kenna, samkvæmt sérpantaðri skýrslu Hannesar Hólmsteins, talsmanns flokks þeirra, sem nú stjórna landinu og  "vilja græða á daginn og grilla á kvöldin." 

Það varð ekkert hrun úr því að það þurfti ekki greiða "forsendubrest" hjá leigjendum og þeim sem minnst mega sín, heldur fyrst og fremst að greiða þeim forsendubrest sem höfðu farið glannalegast í skuldasöfnun og fengu það bætt, svo að hrunið hyrfi hjá þeim. 

Um leigjendur og vesalinga gilti, sem haft er eftir einum þeirra, að "þeir áttu ekkert fyrir og héldu mestu af því eftir" án þess að það þyrfti að borga þeim neitt vegna forsendubrests í hækkun húsaleigu og 30 prósent snarlegrar kjaraskerðíngar 2009.

Frekar að láta þessa hópa dragast enn meira aftur úr öðrum samfellt til þessa dags. 

Tal forseta Íslands um óbrúað bil og óunnið verk í að ná sátt um hinn tíu ára gamla viðburð og eftirhreytur hans byggist líklega á því að þúsundir og jafnvel tugþúsundir Íslendinga telja sig enn ekki hafa jafnað sig, hvorki efnalega né andlega, eftir hið "svokallaða hrun" sem þó fól í sér hundruð milljarða króna hið minnsta, - en þúsundir milljóna ef allt umfang hins íslenska hluta alþjóðlegu fjármálakreppunnar er reiknað með. 

En miðað við hraða þróun síðustu daga virðist einbeittur vilji til að yppta öxlum og segja: "Þetta gufaði bara upp."  "Það veit enginn hvað var gert við þetta." 

Þetta var þá ekki neitt, eða hvað?

Og táknræn frétt kom síðan á afmælisdegi þess viðburðar 6. október 2008, sem er að strokast út.  

Maðurinn, sem var skipstjóri og á vakt í brúnni þegar mesta bankahrun í nokkru ríki heims átti sér stað, hefur nú fengið upphefð hjá virtasta banka heims, einmitt á afmæli hruns, sem verið er að tala niður í helst ekki neitt. 

Ætlunin var að skrifa þennan afmælispistil um hrun af völdum útlendinga fyrr í dag, en eftir á að hyggja hefði afmælisdagurinn orðið fátæklegri ef íslensku upphefðina í Alþjóðabankanum hefði vantað. 

Þetta eru jú alþjóðleg fjármál. Alþjóðabankinn er viðeigandi vettvangur. Rakið var í blaðagrein í fyrradag að langstærsti hluti fjárhæðarnnar sem fólst í hinu svokallaða hruni, var í formi taps útlendinga. 

Og síðan 2010 hefur fyrirbærið erlendur ferðamaður staðið að næstum einn og óstuddur undir mestu og lengstu uppsveiflu í efnahagsmálum þjóðarinnar. 

Það er í stíl við það að útlendingar hafi valdið búsifjunum, sem áttu 10 ára afmæli í dag, að útlendingarnir vondu hafi tekið mest af þeim á sig sjálfir og síðan staðið undir dæmalausasta vexti gjaldeyristekna okkar í sögunni.

Já. Guð blessi Ísland.  

 


mbl.is Hrunið ól af sér marga flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Auðvitað gufuðu tölurnar upp, þær voru aðeins bókhald.  Þær voru búnar til í kring um einhver verðbréf, sem ekkert stóð á bak við.

Miðbanki heimsins, sem verður alltaf að skrifa frum tölurnar, og þá eiga allt saman, hafði vit á því, að skrifaði nokkur þúsund milljarða dollara, og „bjargaði bönkunum“ öllum nema  þeim sem Ísland kom nálægt.

Það mátti ekki sjást, að smá bændaþorp, gat rekið bankakerfi, með miklum sóma, ósóma, jú Bankakerfin hafa oftast verið svindl kerfi.

Ísland hafði verið að belgja sig upp í alheims pólitíkinni, langaði í Öryggisráðið, og þá þurfti að sleikja slatta af einræðisríkjum.

Nú sleiktum við nokkur einræðisríki, og komumst í eitthvert mannréttinda ráð Sameinuðu Þjóðana, sem er stjórnað af einræðisríkjunum.

Það ráð hefur ekki stutt frelsi Kúrda, ca. 35 miljónir, í Tyrklandi, Sýrlandi og Íran, en alltaf stutt bannfæringar á Ísrael, sem þó er líðræðislegast af Ríkjum  í Mið-Austur löndum.

Við munum að Sameinuðu þjóðirnar, gerðu lítið þegar 860 þúsund Gyðingar, voru reknir frá Arabalöndum eftir stríðið 1948, en þar höfðu þeir búið í þúsundir ára, löngu áður en Islam varð til, Múhamed er talinn hafa fæðst ca. 560

Við munum líka, að Sameinuðu þjóðirnar, settu upp flóttamanna búðir fyrir 760 þúsund Palestínu menn, í stað þess að koma þeim fyrir hjá vinveittum bræðrum sínum, með atvinnu, menntun og húsnæði, eins og Ísrael gerði fyrir Gyðinganna 860 þúsund.

Á að hjálpa landi sem sleikir sig upp vi einræðisríki, og hefur ekki vit á að halda sig til hliðar í baráttu einræðisherrana, hefur einhver trúlega hugsað.

Egilsstaðir, 06.10.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 6.10.2018 kl. 23:59

2 identicon

Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms fékk frítt spil en ekki þorðu þau að samþykkja lyklafrumvarp Lilju né annað sem hefði getað aðstoðað alþýðuna því hugsanlega hefði það styggt gamla kol og stál auðvaldsbandalagið í Brussel sem allt vill eiga og stjórna. 

Grímur (IP-tala skráð) 7.10.2018 kl. 08:24

3 identicon

Rétt hjá Grími, lykilfrumvarið var lykilatriði í viðbrögðum við hruninu, hvað varðaði þá sem áttu þó eitthvað, t.d. skuldir. 

Í raun ættu pólitíkusar frá þessum tíma sem ekki samþykktu lyklafrumvarp Lilju að sjá sóma sinn í að stunda einhver önnur störf en pólitík. 

Í fljótu bragði man ég eftir þeim Bjarna Ben og Illuga sem og Katrínu Jakobs, hugsanlega eitthvað rusl í stjórnarandstöðu líka.  

Katrín hefur reyndar aðeins meira á samviskunni þ.e. að klúðra hinum mikilvægasta póstinum sem var að taka vísitölubindingu skulda úr sambandi strax eftir hrun. 

Merkilegt er að séu vísitölur launa og lána skoðaðar frá því rétt fyrir hrun og þar til nú þá er stökkbreytingin horfin og vel það. Sama gildir um samanburð lánavísitalna við gengisvísitölur. 

Er þá ekki allt í lagi?

Nei því miður og fjarri því. 

Fólk var svipt eigum sínum og borið út, aðrir þurftu og þurfa enn að kljást við vaxtaokur bæði á upphafleg grunnlán sem og stökkbreyttu lánin þannig að þó exelskjöl m.a. rannsakenda hrunsins segi allt orðið gott þá er sagan aðeins önnur t.d. hjá fólki sem er í útlegð í Norgegi nú eða ellilifeyrisþeginn (minn gamli ágæti efnafræðikennari úr Hamrahlíð) sem var plataður upp úr skónum og æfisparnaði breytt í ofurskuld með dyggri aðstoð hæstaréttar. 

Varðandi þá sem ekkert áttu varð auðvitað forsendubrestur líka, það er rétt hjá Ómari, en líklega eitt af því fáa sem hugsanlega væri hægt að hrósa eftirhrunsviðbrögðum þeirra Jóhönnu og Steingríms er þó að eitthvað tókst að hamla áföllum lífeyris og bótaþega sem vissulega hefðu getað orðið verri.  

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.10.2018 kl. 09:27

4 identicon

Heldur þykir mér þessi meðaumkun þín með hinum eignalausu vera hjáróma í ljõsi allra þinna pistla um að sjálfsagt væri að skuldsetja íslenskan almennin, þar með talið þá eignalausu, til að borga icesave.

Þarft þú ekki að gera upp þína fortíð hvað það varðar og biðjast afsökunar?

Bjarni (IP-tala skráð) 7.10.2018 kl. 11:37

5 identicon

Þetta gengur ekki lengur, í alvöru, þetta verður að stöðva. Bjarni Ben og Big Daddy "crossed the line" fyrir löngu. Og ekki aðeins þeir. Ísland er ekki að verða, heldur er þegar orðið samfélag sem er stjórnað af þjófum, en innherjaviðskipti eru þjófnaður. Í réttarríki væru þessir menn á bak við lás og slá, eða með öklaband. Og í dag eru það vesalingarnir í VG sem blása lífi í ófreskjuna.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.10.2018 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband