Aftur fyrir fyrrum umhverfissóða kommúnistaríkjanna á ný?

Þegar kommúnisminn féll með Berlínarmúrnum kom í ljós það, sem menn hafði lengi grunað, að undir því þjóðskipulagi hafði viðgengist mesti umhverfissóðaskapur í Evrópu. 

Austantjaldsþjóðirnar urðu hins vegar að taka sig á þegar þær tóku upp vestrænt lýðræði og meðal annars að taka upp lög í samræmi við svonefndan Árósasáttmála, sem tryggir vandaða meðferð í umhverfismálum og lögaðild allra þeirra, sem eiga hagsmuna að gæta, ekki aðeins landeigenda af ýmsu tagi, heldur einnig samtaka útivistarfólks og annarra sem bera umhverfismál og náttúruvernd fyrir brjósti. 

Fljótlega fór það þannig, að öll lönd Evrópu höfðu tekið upp svona löggjöf, nema Ísland, sem gerði það 15 til 25 árum síðar, og þá aðeins með því að orðalag væri "mildað" á mikilvægum stöðum. 

Þetta kom vel fram í Gálgahraunsmálinu. Þar áttu eigendur vannýttrar eyðijarðar fullan lögvarinn rétt, en hundruð útivistarfólks í náttúruverndarfélögum, sem voru með þúsundir félagsmanna, engan rétt. 

Vegna þess að úrskurðarnefnd lögum samkvæmt var ekki komin til skjalanna, tapaðist baráttan að stórum hluta, en þó var hætt við enn meira umrót í hrauninu og aðalskipulag með 20 þúsund manna byggð. 

Gálgahraunsmálið og deilur um lagningu tveggja risaháspennulína yfir vatnsból allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sýnir að sú fullyrðing Kristins H. Gunnarssonar í viðtali á Hringbraut stenst ekki, að náttúruverndarsamtökin reyni allt sem þau geta til að ráðast á hagsmuni landsbyggðarinnar en líti hins vegar með velþóknun á meira umhverfisrask á höfuðborgarsvæðisins, meira að segja í hraununum. 

Úrskurðarnefndin úrskurðaði að Landsnet skyldi fara að lögum þess efnis að láta athuga fleiri kosti en aðeins einn varðandi lagningu háspennulínanna. 

Fram að því hafði Landsnet árum saman hummað þessa skyldu fram af sér og borið á tímabili fyrir sig dýra erlenda skýrslu, sem sagt var að sýndi að það væri margfalt dýrara að leggja línurnar í jörð en að hafa þær á möstrum. 

Þegar, lögum samkvæmt, Landsneti var gert skylt að birta þessa skýrslu í heild, brá svo við að þetta rándýra plagg fannst ekki hjá fyrirtækinu! Það var týnt og verður að eilífu týnt!

Í sögu íslenskra náttúruverndarsamtaka hefur aðeins einu sinni farið fram handtaka og fangelsun stórs hóps fólks úr samtökunum, nánar tiltekið 25 manns í Gálgahrauni 21. október fyrir fimm árum. 

Og Landsnet verður nú að hlíta lögum varðandi lagningu risaháspennulína meðfram byggðinni á höfuðborgarsvæðinu vegna löglegrar kæru frá náttúruverndarsamtökunum. 

Gálgahraun er með byggðir höfuðborgarsvæðisins fyrir vestan sig, norðan, austan og sunnan. 

Fróðlegt væri að sjá hvernig fjöldahandtakan og fangelsunin 2013, sú eina í sögunni, og úrskurðurinn sem þessir "óvinir landsbyggðarinnar" knúðu fram varðandi línurnar meðfram höfuðborgarsvæðinu, samræmist ásökuninni um velþóknun hinna handteknu á óafturkræfum umhverfisspjöllum á höfuðborgarsvæðinu en andóf  þeirra við sams konar umhverfisspjöll á landsbyggðinni. 

Ef nú á að fara inn á þá braut að afnema í raun hlutverk úrskurðarnefndarinnar eða jafnvel að afnema hana sjálfa, förum við Íslendingar rakleiðis aftur fyrir umhverfissóðana í fyrrum kommúnistaríkjum fyrir aldarfjórðungi.  

Vonandi fer það ekki þannig, heldur verði tryggt að við eigum samleið með öðrum þjóðum í þessum efnum. 


mbl.is „Lögfræðilegt stórslys“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband