15.10.2018 | 19:03
Óþarfa málalengingar eru í sókn.
Orðið "Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúrslyklakippuhringur" var þegar komið til skjalanna fyrir að minnsta kosti 65 árum, og var þá notað til gamans, enda var þá talað kjarnyrt og gagnyrt mál, rökrétt og skýrt.
Gaman væri að vita um upprunann, en brú yfir Fnjóská var smíðuð 1908 og vegabætur því lengi á dagskrá nyrðra.
Það gleymist oft, að á undan upphafi bílaaldar á Íslandi 1913, hafði verið hér hestvagnaöld í nokkra áratugi.
Á síðari árum hafa óþarfa málalengingar hins vegar heyrst og sést æ oftar, eins og áður hefur verið rakið hér á bloggsíðunni.
"Fólki fjölgar" ekki lengur, en í staðinn er sagt "aukning hefur orðið í magni fjölda fólks."
Í stað þess að segja "lægð myndast" er sagt "það kemur til með að myndast lægð."
Í stað þess að segja "þeir spiluðu vel" er sagt "þeir voru að spila vel."
Núna, rétt í þessu, á meðan pistillinn er skrifaður, var sagt í sjónvarpinu "þetta var ekki að virka" í stað þess að segja einfaldlega "þetta virkaði ekki."
Í stað þess að nota hin ágætu og stuttu orð "svona", "hvernig" og "þannig" er orðalagið "með hvaða hætti", (þrisvar sinnum fleiri orð), á góðri leið með að útrýma þessum einföldu orðum.
Einu sinni afgreiddi þáverandi forsætisráðherra mál með því að segja: "Svona gera menn ekki."
Ó, hvað þetta hefði orðið áhrifaminni setning ef hann hefði sagt: Menn gera þetta ekki með þessum hætti."
Lengsta orð íslenskunnar á ljósmynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.