18.10.2018 | 01:25
Hvílík eldflaug upp á íþróttahimininn!
Hver konan á fætur annarri skýst þessi misserin svo snögglega og hátt upp á íþróttahimininn hjá okkur, að þær verða á allra vörum aðeins örfáum dögum eftir að fólk vissi almennt ekki að þær væru til.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er einstaklega mikið hlauparaefni aðeins sextán ára gömul en vegna æsku sinnar getur hún auðvitað þurft langan tíma og þurft að hafa mikla þolinmæði til að ná á tindinn.
Á Ólympíuleikunum 1948 vann Robert Mathias gullið í tugþraut aðeins 17 ára gamall, og var það að vonum ótrúlegt og einstakt afrek.
Hann varði titilinn síðan 1952 en hætti eftir það, svipað og Örn Clausen gerði líka á aldri, þar sem tugþrautarmenn eiga yfirleitt fimm ár eða fleiri eftir til þess að ná á hátind getu sinnar.
En auðvitað eru aðrir tímar nú en þá með margfalt meiri breidd og samkeppni, og því engin leið að spá um það með vissu hvernig Guðbjörgu Jónu muni farnast.
Afrek hennar snertir mig talsvert, því að á sínum tíma auðnaðist mér að þefa örlítið af velgengni á þessu sviði á Drengjameistaramóti Íslands 1958 í 100, 200 og 4x100 metra hlaupum, en slasaðist illa á ökkla skömmu síðar, fór á fullt í skemmtikrafta-, tónlistar- og leikhúsbransann og í það fór allur tíminn næstu ár.
Ekki skemmir fyrir ánægju minni að þetta unga stórstirni skuli keppa fyrir ÍR, mitt gamla frjálsíþróttafélag og sú skemmtilega tilviljunm, að tíminn skuli vera sá sami hjá henni og ég fékk skástan í 200 metrunum.
Það sýnir vel hve gríðarlegar framfarir hafa orðið á öllum sviðum í íþróttum, - tækni, skóm, brautum, mataræði, þjálfun o.s.frv.
En þetta var svo gaman, þann stutta tíma sem það stóð, - lokametrarnir í boðhlaupinu urðu eitt eftirminnilegasta augnablik ævinnar, - og mikið innilega óska ég Guðbjörgu Jónu til hamingju og bið þess að hún njóti þeirra stunda sem best þegar vel gengur.
Hún getur farið eins langt og hún vill | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stórkostlegt ár hjá Guðbjörgu Jónu og það hefði þurft að segja mér það tvisvar á mínum sokkabandsárum að 16 ára stelpa myndi seinna meir slá Íslandsmet "Rauðu ljónynjunnar".
Það er svo ákveðið umhugsunarefni að við Íslendingar höfum mun oftar náð afburða árangri í íþróttum unglinga en fullorðinna. En sökum fólksfæðar ætti það frekar að vera á hinn veginn. Við erum svo fá, að það ætti að vera sjaldgæft að fram komi heimsklassa íþróttaefni. En það ætti að vera auðvelt að halda utan um þá fáu sem skara framúr og koma þeim í fremstu röð.
Stefán (IP-tala skráð) 19.10.2018 kl. 20:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.