Hvað um "ástands" stúlkurnar íslensku?

Allar þjóðir, líka Norðurlandaþjóðirnar, búa við það, að óþægileg mál úr sögu þeirra eru blettir á heiðri þeirra. 

Á ljóma Víkingaaldarinnar falla margir ljótir blettir af hreinni villimennsku, allt frá grimmdar- og glæpaverkum víkinganna í Lindesfarne. 

Á ferð minni til rússneska bæjarins Demyansk 2006 sagði sjötug kona mér frá villimennsku finnskra hermanna í alþjóðlegu innrásarliði í herförinni Barbarossa, og varð það mér mikið umhugsunarefni. 

Þekkt er sú grimmd sem þýskir hermenn í innrásarliðinu voru hvattir til að beita frá æðstu stöðum, og því dapurlegt að heyra, að Finnarnir hefðu verið margir hverjir miklu verri, og skelfilegt, hvernig hefndarhugurinn vegna grimmdar Rússa í innrás þeirra í Finnland tveimur árum fyrr gat fyllt hermenn einnar af Norðurlandaþjóðunum svo hræðilegri heift.  

Meðferð Dana á "þýsku börnunum", börnum sem danskar konur áttu með þýskum hermönnum, var hræðileg og ótrúlegt þegar upplýst var um slíkt atferli hjá frændþjóð okkar. 

Nú hafa norsk stjórnvöld beðist afsökunar á skammarlegri meðferð sem norskar konur urðu fyrir í hefndarskyni fyrir sambönd þeirra við þýska hermenn á meðan á hernámi Þjóðverja stóð í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Hernám Íslands, sem hófst aðeins mánuði á eftir hernámi Noregs, stóð álíka lengi, og hér á landi urðu íslenskar konur fyrir svipaðri skammarlegri meðferð og nú hefur verið beðist afsökunar á í Noregi og ekki seinna vænna áður en allar þessar konur eru komnar undir græna torfu. 

Það vekur spurningu um það, hvernig hinum íslensku "ástands"málum sé háttað. 

Okkar forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, baðst nýlega afsökunar á þeirri meðferð, sem sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum hafa mátt þola. 

Er kannski kominn tími á "stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum" og aðrar íslenskar konur, sem komið var skammarlega fram við vegna sambanda þeirra við erlenda hermenn, verði beðnar afsökunar á sama hátt, áður en það er orðið of seint?

Afsökunarbeiðni hefur raunar líka gildi fyrir afkomendur og ættmenni þeirra, sem hafa mátt búa við það, að hlutur þeirra, sem brotið var gegn, hafi ekki verið réttur. 


mbl.is „Þýsku stúlkurnar“ beðnar afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel mælt Ómar, vel mælt.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.10.2018 kl. 14:25

2 identicon

Þess má geta að Ann-Frid úr Abba hefði orðið norsk hefði móðir hennar ekki hrakist til Svíþjóðar vegna þess að faðirinn var nasisti
https://www.theguardian.com/world/2002/jun/30/kateconnolly.theobserver

Ari (IP-tala skráð) 18.10.2018 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband