19.10.2018 | 00:56
Einu sinni gengu mormónar 3000 kílómetra yfir Klettafjöllin.
Eftirminnilegasta stund sem ég hef átt á Íslendingaslóðum í Ameríku, var að standa við gröf íslenskrar konu í kirkjugarði í bænum Spanish fork suður af Salt Lake City, sem var með gylltan skjöld á leiði sínu, þar sem á stóð: "Trúfesti í hverju spori."
Það þýddi að þessi íslenska kona hafði notað fætur sína eingöngu til þess að komast yfir slétturnar og Klettafjöllin, 3000 kílómetra gönguleið, til hins fyrirheitna lands, burt frá kulda, fátækt og skorti föðurlands síns, þar sem askan úr Öskjugosinu 1875 hafði eyðilagt hagana og köldustu ár Íslandssögunnar með hafís og ótíð hrakið þúsundir Íslendinga á flótta yfir Atlantshafið og þver Bandaríkin.
Nú flýr fólk eymd og volæði heimkynna sinna í suðri í átt til sama fyrirheitna landsins og íslenska konan komst til við illan leik.
Munurinn er hins vegar sá, að jafnvel þótt þessi 65 ára gamla kona frá Honduras komist að landamærum hins þráða lands bíður hennar hindrun, sem ekki var til á tímum landnámsins í Utah; - vopnaðar sveitir öflugasta hers veraldar og grimm refsing fyrir "trúfesti í hverju spori."
Já, tímarnir eru breyttir.
Halda ótrauð áfram í von um betra líf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og nú óttast Ómar fátt meira en hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum og bráðnun jökla og aukinn grasvöxt jarðar vegna aukins CO2 í andrúmsloftinu.
Halldór Jónsson, 19.10.2018 kl. 08:20
"Óhjákvæmileg orkuskipti", hagstæð fyrir okkur Íslendinga, ríka af eigin innlendum orkugjöfuum, eru nú reyndar það sem ég hef helst haft áhuga á og fjallað um hér á síðunni, - svipað því sem gerðist varðandi hitaveiturnar hjá okkur fyrir fjórum, fimm áratugum, þegar við lögðum í mikinn kostnað við að losa okkur við kolin og olíuna.
En þetta óttast stór hópur Íslendinga, fylgjendur hins kola- og olíuelskandi Trumps, meira en nokkuð annað.
Ómar Ragnarsson, 19.10.2018 kl. 08:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.