21.10.2018 | 00:38
Enn meira GAGA / MAD en nokkru sinni fyrr?
Maður hélt að ástandið í vopnabúnaði risaveldanna í kjarnorkuvopnabúnaði gæti ekki orðið öllu verra en það sem felst í MAD (Mutual Assured Destruction) kenningunni, skammstafað GAGA á íslensku (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra).
Sú kenning hefur líka verið nefnd ógnarjafnvægið og felst í því að Bandaríkin og Rússland verði að vera viðbúin því að geta gereytt hvort öðru (og lífinu á jörðinni) minnst fimm sinnum, en helst oftar.
GAGA-kenningin er einnig með þá fáránlegu forsendu að hvor aðilinn um sig geti trúað hinum til þess að hefja allsherjar gereyðingarárás og sömu leiðis geta treyst því að hinn aðilinn muni svara með eigin gereyðingarárás!
Ronald Reagan og þó einkum Mikael Gorbatsjof tókst að hægja aðeins á þessu brjálæði með afvopnunarsamningum, sem grundvallaðir voru í raun á Reykjavíkurfundinum í Höfða.
Nú eru hins vegar við völd í þessum ríkjum tveir GAGA leiðtogar, sem báðir eru veikir fyrir hefnigirni og stórmennskubrjálæði, þeim tveimur eiginleikum sem hafa leitt mestu hörmungar stríðsátaka í mannkynssöngunni yfir jarðarbúa í formi tveggja heimsstyrjalda.
Donald Trump hikar ekki við að setja fram þá stefnu að stofna sérstakan geimher Bandaríkjanna til þess að "make America great again" á þann hátt að Kaninn ráði yfir geimnum, hvorki meira né minna.
Ýmsir hafa bent á það, að Vladimir Putin hafi augljóslega svarið þess dýran eið að ná fram hefndum, þegar Rússland varð fyrir niðurlægingu á níunda áratugnum við fall Sovétríkjanna, gríðarlegri spillingu heima fyrir, hruni þjóðarframleiðslu og sókn NATO og ESB í átt að Rússlandi, þvert ofan í loforð George Bush eldri og utanríkisráðherra hans.
Þegar svo virtist, sem meira að segja Krímskagi, sem Rússar fórnuðu lífi 54 þúsund hermanna fyrir í Krímstríðinu og milljónum í Seinni heimsstyrjöldinni, kæmist undir ESB, greip Pútín til harkalegra aðgerða og sagði meira að segja, að ef það kostaði notkun kjarnorkuvopna að Krím væri undir rússneskri stjórn, myndi hann ekki útiloka þann möguleika.
Rússland er ennþá veikt efnahagslega, en getur þó bætt sér það upp með því að nýta sér það að vera risaveldi á sviði kjarnorkuvopna og í sókn Pútíns eftir því að gera Rússland mikilfenglegt á ný sjáum við rússneskan Trump þar lifandi kominn.
Með því að Trump segi upp afvopnunarsamningum Reagans og Gorbatsjofs er komið ástand, þar sem tveir leiðtogar, hálfsturlaðir af mikilmennskubrjálæði, ætla að leika sér að þeim vítiseldi sem kjarnorkuvopnakapphlaupið GAGA/MAD byggist á.
Ætlar að rifta afvopnunarsamningi við Rússa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.