27.10.2018 | 13:09
Leið íslenska sumarið fyrir köldu hæðina í vestri?
Trausti Jónsson birtir á Hungurdiskum þá niðurstöðu, að hið íslenska sumar, frá fyrsta sumardegi til fyrsta vetrardags, hafi verið með það kaldasta síðan 1995.
Svona lítur línurit Trausta út, en það spannar sumrin frá því um 1870 til 2018.
Samt er svo að sjá, að loftslag haldi áfram að hlýna á jörðinni allri.
Í mestallt sumar var afar hlýtt á meginlandi Evrópu eins og sést hefur á veðurkortunum, sem birt eru í sjónvarpinu.
En þetta hlýja loft hefur ekki komist nema að takmörkuðu leyti að fullu til skila hjá okkur.
Þrálátur svali í vesturátt, oftast í slagtogi með háþrýstingi, hefur sótt á móti hlýjum loftmassanum úr austri og valdið svalara veðri þessa sex sumarmánuði en verið hefur í aldarfjórðung.
Á línuriti hjá Trausta sést, að sé dregin bein lína frá ca 1870 til 2017, hefur loftslag hlýnað í heildina og það sést líka að þetta lýsir sér í því að sveiflubotnarnir hafa smám samam hækkað og sömuleiðis sveiflutopparnir.
Á öllum þeim fjölmörgu línuritum í tölvuspám, sem maður hefur séð síðasta aldarfjórðung, eru áberandi tveir til þrír ljósleitir eða blámalitaðir kuldapollar á jörðinni, og er einn þeirra suðvestur af Íslandi.
Ísland er svo agnarlítill hluti af jörðinni, að hitinn hér segir auðvitað sáralítið um hitann á jörðinni í heild.
Hér á landi eru sumir skriðjöklar þegar horfnir eða við það að hverfa, og sjá má á myndum og frásögnum Ástu Þorleifsdóttur jarðfræðings á facebook frá ferð hennar til háfjalla Asíu, að þar er svipaða sögu að segja.
Það leiðir hugann að því, að í þessu hálendi Karakórum og Himalajafjalla eiga fimm af helstu fljótum Asíu upptök sín og aurframburður úr vorflóðum þessara fljóta stjórnar lífi tveggja milljarða jarðarbúa, allt frá Pakistan til suðaustur Kína.
Ef jöklarnir hverfa eða veiklast mjög munu breytingar á þessu vatnafari hafa gríðarleg áhrif.
Rétt er að minna á að Andri Snær Magnason hefur verið með mjög fræðandi og grípandi dagskrár í Hannesarholti um áhrif loftslagsbreytinga.
Met fyrir veðurnördin féll í nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Einn furðufugl þótti þver,
og þusti á Esju -hálfber-
þó hann vær'ekki kind,
(það sést vel á mynd),
þrykkt'ann ull á hausinn á sér...
http://www.visir.is/g/2018181029038/gengu-ber-ad-ofan-upp-esjuna
Þjóðólfur í Frekjuskarði (IP-tala skráð) 28.10.2018 kl. 10:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.