Trygginga- og ábyrgðarkerfið þarfnast betri mælinga.

Í eldgosunum í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011 kom glögglega í ljós hvað trygginga- og ábyrgðakerfið í fluginu hefur mikil áhrif á afdrifaríkar ákvarðanir sem valdið geta tugmilljarða óþarfa tjóni í fluginu. 

Hvað eftir annað kom í ljós, að vegna gallaðra niðurstaðna úr tölvu í London, lögðu bæði flugmálayfirvöld og flugrekendur ekki í að taka sjálfstæðar ákvarðanir, jafnvel um augljós atriði, ef það var á skjön við það sem kom fram í bresku tölvunni.

Enginn þorði að taka ákvarðanir nema að hafa jafnvel niðurstöður tölvu í meira en 2000 kílómetra fjarlægð á hreinu. 

Hvað tryggingafélögin varðaði voru gífurlegar fjárhæðir í húfi varðandi það að enginn minnsti vafi léki á því að flogið væri af fyllsta öryggi. 

Dæmi um augljósa galla á kerfinu var algert flugbann fyrir vestan Eyjafjallajökul 1. maí 2010 þótt mælingar Veðurstofunnar sýndu, að í öllum hæðum á þessu svæði stóð 30 hnúta vindur beint úr vestri í átt að eldstöðinni og bar þangað hreint loft.   

Enda var loftið tandurhreint þarna þennan dag. 

Í Grímsvatnagosinu var flugvöllunum í Reykjavík og Keflavík ekki lokað daginn, sem mest öskufall var, en hins vegar lokað aðra tvo daga, þegar lítil aska var í lofti. 

Tölvan í London vildi loka völlunum aftur í rúman sólarhring þegar öskumistrið náði ekki lengra í vestur en að Selvogi og heiðríkt var yfir Faxaflóa, svo að Snæfellsnesið með jökli sínum blasti við.  

Þá bjargaði málum að hægt var að fljúga með einfalt íslenskt mælitæki Jónasar Elíassonar prófessors í lítilli einshreyfils vél um Reykjanesskagann og sýna á pappírsstrimli, að ekki var svo mikið sem korn af ösku í lofti. 

Í anda texta Laxness í Íslandsklukkunni: "Hefurðu pappír upp á það?"

Einnig fannst það út í fluginu með þetta tæki frá Selfossi í upphafi mælingaflugs, að meira að segja öskumagnið í Flóanum var réttu megin við þau mörk sem alþjóða flugmálayfirvöld settu sem þolmörk þotuhreyfla.  

Þau samsvörðuðu 5 kílómetra skyggni. 

Flugatvik yfir Indónesíu um síðustu aldamót, þegar Boeing þota varð alveg afllaus vegna eldfjallaöskuk, varð upphaf hinna miklu varúðarráðstafana 2010 sem fóru langt yfir strikið. 


mbl.is Ný myndavél meti eldfjallaösku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alar mælingar á magni og hraða öskukorna úr gosmekki eru vissulega vel þegnar, en verða seint "decisive", ótvíræðar fyrir flugtak. Frekar að bíða þar til hættan er yfirstaðin. Áður en það er tilfellið: "no go." Varla liggur það mikið á. Í gær fórst flugvél í Indonesíu með 189 manns um borð.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.10.2018 kl. 16:13

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hún fórst ekki vegna ösku í lofti. Fjölbreyttari og betri mælingar geta einmitt hjálpað til að menn geti flogið af meira öryggi en þegar aðeins er um eina uppsprettu upplýsinga að ræða. 

Ómar Ragnarsson, 30.10.2018 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband