29.11.2018 | 19:50
Ein dapurlegustu ummæli síðari tíma. Einsdæmi á þjóðþingi?
Það sem virtist hafa verið lausmælgi og röfl á bar í morgun hefur á einum degi snúist upp í mál, sem á sér líklega enga hliðstæðu á nokkru þjóðþingi, svo miklu ömurlegri og eru ummæli þingmannanna á Klaustursbarnum, sem höfð hafa verið eftir þeim í dag en það sem fyrir lá í morgun.
Freyja Haraldsdóttir var fulltrúi í stjórnlagaráði, sem við í ráðinu vorum öll afar stolt af.
Hún stóð sig afburða vel, flutti eftirminnlega jómfrúarræðu og starfaði af alúð og dugnaði, sem vakti aðdáun okkar allra.
Afrekskona á alla lund.
Hún var einn þeirra fulltrúa í ráðinu sem var tákn þeirrar fjölbreytni meðal fulltrúa, sem auðgaði og styrkti störf ráðsins.
Þess vegna er ekki aðeins sárara en tárum taki hvers konar lítilsvirðingu hún má þola af höndum manna, sem í raun að niðurlægja sjálfa sig ósegjanlega.
Oft er það svo, að þeir, sem stunda það að níða aðra niður og lítillækka þá, virðast gera það í því skyni að hækka sig sjálfa í leiðinni.
Það er kannski dapurlegast af öllu ef svo er.
Og sennilega er leitun að þjóðþingi, sem hefur lent í hliðstæðum hremmingum og Alþingi Íslendinga hefur gert í dag.
Því að hið sama á að gilda um orðfæri og hegðun þingmanna, sem eru á almannafæri, eins og þeir væru í þinghúsinu.
Segir ummælin vera hatursorðræðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Hversu sælt og ljúfsárt er það ekki að sjá Miðflokkinn
og Flokk fólksins falla í ódýrustu gildru sem mögulegt
var á upplýsinga- og tækniöld; upptöku á drykkjurausi
og karlagrobbi eins og það gerist best, uppfullt af
hundakæti og ruddaskap.
Og fléttan virðist ætla að ganga upp ef marka má
frétt um að stjórn Flokks fólksins hyggist gera
tillögu um að tveir þingmenn þeirra segi af sér,
þar af er annar annálaður sómamaður og drengur góður;
einstakur happafengur þessum flokki.
Vonandi athuga hlutaðeigendur að mestar líkur eru
þá á að þar horfi menn á endalok flokks þessa.
Er ekki hægt að læra eina lexíu af þessu fiflaríi öllu;
að leyfa rykinu að setjast, - og taka sig á, -
fara að dæmi John Cleese og gefa sjálfum sér ærlegt
kjaftshögg fyrir framan spegilinn.
Til hamingju Ísland!
Húsari. (IP-tala skráð) 29.11.2018 kl. 23:04
Er ekki verið að taka nokkuð mikið upp í sig að halda því fram að þetta sé "einsdæmi" á þjóðþingi, og "dapurlegustu ummæli seinni tíma", Ómar? Ég tek nokkuð líklegt að þú vitir vel, sem og við öll, að margt hafi verið sagt bæði hér heima og sérstaklega erlendis sem er miklu verra, bæði á þingum sem utan þeirra.
Fyrir utan að þetta var sagt í hálfkætingi og í einkasamræðu sem var tekin upp án vitneskju mannana. Hvað hefur þú sagt í gegn um tíðina í hálfkætingi og í einkasamræðu á ævinni?
Þó að vissulega skal gagngrýna þessa menn fyrir ummælin, tel ég að sirkusinn í hring um þetta hafi farið út fyrir öll eðlileg mörk. Sumir vilja bara gangast upp í hneykslan sinni, sérstaklega þegar pólitískir andstæðingar eru annars vegar. Og víxlverkun fjölmiðla annars vegar og internetsins og samfélagsmiðlanna sem þar eru eru kjörið umhverfi til að mynda snjóskriðu af einmitt þessu tagi.
Egill Vondi, 29.11.2018 kl. 23:19
Birtist Morgunblaðinu og mbl.18. sept.2003
Varúð, alþingismenn á ferð
"Varúð, börn á leið í skóla."
Tilefni þessara skrifa er sú mikla umræða síðustu daga um afbrot tveggja ungra alþingismanna sem voru í fyrsta skipti kosnir á þing í vor. Það hefur ekki hvað síst ýtt við mér léttúðin og hvernig réttlæting og aðrar úr sér gengnar leiðir eru notaðar í umfjöllun málsins í stað þess að horfast í augu við þær staðreyndir sem blasa við.
Einstaklingur sem kosinn er til alþingisstarfa má ekki hafa það eitt sér til ágætis að vera góður talandi, orðhákur í kappræðum og koma vel fyrir í vönduðum fötum í sjónvarpi. Það er aðeins óverulegt brot af heildinni. Viðkomandi þarf að vera góður og gegn, réttsýnn með ríka ábyrgðarkennd og kunna að setja sig inn í málefni frá ýmsum sjónarhornum. Mannúðin og samkenndin með borgurunum má ekki vera langt undan heldur. Auðvitað er hann sem og hvert okkar hinna fyrirmynd fyrir samfélagið, börnin okkar, holdgervingur trúar að bættum kjörum og skiptir verulegu máli hvernig honum, sem og hverju okkar hinna, til tekst að feta hinn gullna meðalveg.
Því er í engu ofaukið þegar sagt er að vandi fylgi vegsemd hverri.
Þótt ofanritað sé næst því eins og það ætti að vera að mínu mati skal ég þó fúslega viðurkenna að sú markaðssetning ímyndar persónu, aðgengi hennar að fjölmiðlum, fjálglegt fas sem fjas og yfirborðs kurteisi er oftar en ekki látið vega þyngra í stjórnmálum fyrir menn í framboði og ég því velt fyrir mér hvort almenn blinda eða skjálgur forystunnar sé ástæðan fyrir því hversu litlu ráði mannkostir eins og mildi, kærleikur og frekjulaus óframhleypni hinna sem eftir sitja. Glans eða gjörvileiki mætti kalla þetta val sem stjórnmálaöflin standa frammi fyrir.
Umræðan í ljósvakamiðlum um þessa ungu alþingismenn sem eru án efa ágætis drengir er alls ekki málefnaleg. Einn viðmælandi vitnar í ömurlega áhöfn, svo mjög að fámennt yrði ef skammlausir réðu, máli sínu til stuðnings á meðan annar vitnar um ungmenni á dráttarvél sem dæmi um borgaralega óhlýðni. Í báðum tilfellum virðist afbrot eiga að fá þann sess að vera léttvægara ef finna má annað jafn slæmt því til samanburðar.
Þessi ævaforna íþrótt mannsins að finna réttlætingu fyrir öllum sköpuðum hlutum þykir mér lágkúruleg leið til að nálgast skoðanaskipti frá vitrænu sjónarhorni og oftar en ekki merki um rökþrot eða barnalegt viðhorf viðmælanda. Þessi gamla íþrótt var stunduð í það minnsta 500 árum fyrir Krist og gengu spekingar þá um götur og torg, fullyrtu að finna mætti réttlætingu fyrir öllu mögulegu milli himins og jarðar. Vogarskálarnar sem hétu fyrst rétt og rangt hjá þegnunum og samfélagsheildinni fóru að fyllast af setningum eins og: "Þetta þarf ekki að vera svo rangt ef til þess er litið..."
Svo leiknir voru þeir í hugarleikfimi sinni að senda þurfti þá bestu í heimspeki og stærðfræði sem völ var á til þess að hafa roð við þeim. Þennan algenga ljóta sið mætti leggja af með öllu mín vegna.
Fyrir margt löngu las ég í bók um kenningu sálfræðings sem hélt því fram að heilbrigður ábyrgur maður þyrfti ekkert að kunna fyrir sér í lögum því munurinn á réttu og röngu væri innbyggður í sálu hans og aðeins þyrfti að gefa þessum vísdómi sem oft er kölluð samviska tíma til að greina þar á milli. Um þetta atriði getum við líka lesið í fornsögum. Til eru þess dæmi þegar fyrir dyrum var ákvörðunartaka í máli var skriðið undir feld og þessi undirvitund látin hjálpa til við úrlausn mála. Mér finnst þetta mjög athyglisverð kenning. Í lögum er sagt frá vægi trúverðuleika t.d. hjá vitni. Þá skiptir miklu að viðkomandi sé maður dyggða og heiðarleika í gjörðum sínum og er þá vitnisburður hans metinn í því samræmi. Þá kröfu á líka að gera til manna í ábyrgðarstöðu.
Í ofangreindum skrifum er ég ekki að fullyrða að hverju okkar geti ekki orðið á. Þvert á móti. Það er hluti af lífinu, reynslunni sem skerpir muninn á réttu og röngu og færir okkur nær skilningnum á vægi góðra gilda í mannlegum samskiptum. Ég er að vekja athygli á hversu vandmeðfarin er hin mikla ábyrgð sem fylgir því að fara með stjórn þessa lands. Við verðum að vera þess umkomin hvort sem ábyrgð okkar er mikil eða lítil að getað horfst í augu við ófullkomleika tilverunnar, okkar sjálfra, tekið á málum eins og þau koma fyrir án þess að grípa til réttlætingar, léttúðar eða annarra óheppilegra leiða til þess að mýkja eða hylja sporin.
Eftir Baldvin Nielsen (P.S.Nóvember 2018 án áfengis í 22 ár!)
B.N. (IP-tala skráð) 29.11.2018 kl. 23:52
Sæll Ómar, ummæli þigmanna á Klausturbarnum í garð Freyju og samstarfsþingmanna eru hörmuleg. Mér kæmi ekki á óvart að konur eigi eftir að mæta á Austurvöll með potta og pönnur á næstu dögum til að mótmæta setu téðra þingmanna á Alþingi.
Í ár höldum við upp á 100 ára fullveldisafmæli. Aðaldagurinn er 1. desember. Núna á laugardaginn. Við verðum virkilega að herða upp hugann til að halda þennan dag hátíðlegan, þrátt fyrir ljótan kjafthátt og niðrandi ummæli þingmanna, sem eru á launum hjá okkur ríkisborgurunum.
Það yrði ömurlegt ef ný búsáhaldabylting hæfist á fullveldisdaginn.
Ingibjörg Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2018 kl. 00:21
Góðan dag! Sú var tíðin að við vorum svo vönd að virðingu okkar,að "við" bönnuðum hljómplötu Ómars Ragnarssonar um líf gamlingja á elliheimili. Ómar er skemmtikraftur og við tengdamóðir mín,sem dvaldi á Hrafnistu hlógum dátt að texta hans; "Mærin var svo kölkuð að hún hélt ég væri hann" svo -yfirhitaði hún sig og dó þá sömu nótt!! Mega Alþingismenn vera strákar þegar alvörunni sleppir.
Í fréttum sem ég horfði á heyrði ég ekkert niðurlægjandi um Freyju Haralds en ég sá Kastljós og langa yfirheyrslu yfir Gunnari Braga í anddyri Alþingis.
Helga Kristjánsdóttir, 30.11.2018 kl. 04:29
Ummælin um Freyju voru höfð eftir í sjónvarpi í gærkvöldi, en ég ætla ekki að falla í þá gildru að hafa þau eftir hér.
Það er rétt að öll höfum við oft látið ógætileg orð falla um menn og málefni eins og ég lýsi í rímuðum texta í bloggpistli á undan þessum.
En við búum einfaldlega í nýjum veruleika netheima og upptökutækni snjallsíma, sem getur tekið á sig hastarlegar myndir.
Enginn vegur er að fara að þeirri kröfu, sem gerð er hér á blogginu um að eigendur opinberra staða eins og veitingahúsa og vínveitingabara komi í veg fyrir slíkar upptökur.
Til þess þyrfti líkamsleit á hverri manneskju allan tímann, sem þessir staðir eru opnir.
Ómar Ragnarsson, 30.11.2018 kl. 08:19
Vil bara bæta við því sem ég sagði annars staðar á blogginu: ég hafði einungis séð lítinn hluta þess sem sagt var og áttaði mig ekki á umfangi heildarinar. Þess vegna get ég varla sagt lengur að margir hafa gengið svo langt, þó vissulega sé rétt að menn hafa flestir hafa látið ýmislegt upp úr sér, sérstaklega í einrúmi.
Egill Vondi, 30.11.2018 kl. 19:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.