Meitluð negla.

Um það sem Freyja Haraldsdóttir segir um aðförina að henni eiga við upphrópunarorð Bubba Morthens, sem hann sagði ósjálfrátt þegar við horfðum saman á eitthvað það sem var var fullkominn snilld, - það sem kallað er að hitta naglann á höfuðið, - "algjör negla." 

Það verður ekki betur gert, verður ekki betur sagt, verður ekki betur skrifað. 

Á sínum tíma fann ég mig knúinn til að skrifa tvívegis bók með nafni og viðurnefni síðustu konunnar á Íslandi, sem fólk kallaði þá förukonur.  

Hún hét Margrét Sigurðardóttir og var vinnuhjú alla starfsævi sína og síðar það, sem þá var kallað "niðursetningur" á bænum, þar sem ég var í sveit á sumrin. 

Hún var kölluð Manga og fékk ófögur viðurnefni, Manga með svartan vanga, Bláa Manga og einnig ljótasta viðurnefnið, vegna þess að Freyja Haraldsdóttir lýsir bakgrunni slíks viðurnefnis vel. 

Manga lenti sem ungt barn á vergangi uppflosnaðrar fjölskyldu og lýsti fyrir mér löngum stundum þegar ég sat við bóklestur hve illa æsku hún átti á einhverjum köldustu árum Íslandssögunnar. 

Systir hennar týndist á göngu milli Vatnsdals og Víðidals og lá úti, - missti báða fæturna og var eftir það kölluð Steinunn fótalausa. 

"Hún þraukaði hallæri, hungur og fár." 

Í vist á prestsetrum drakk hún í sig fegurstu bókmenntir þess tíma, stórskáldin Hamsun, Björnsson, Einar Ben, Jónas og Steingrím Thorsteinsson og lærði þær utanbókar, svo að það entist út ævina þrátt fyrir hálfblindu og heyrnarleysi á elliárum. 

Hún var skarpgáfuð og gat verið skáldmælt, eins konar kvenkyns fagurbókmenntaheilluð Bjarturí Sumarhúsum í hugsun, dreymdi, eins og flesta af hennar stigum á þeim tíma,  um að eignast eigin bújörð, mann og fjölskyldu. 

Hún nálgaðist drauminn með vinnumanni einum, þegar hún varð barnshafandi, en missti barnið í fæðingu vegna vinnuþrælkunar. 

Eftir það var eitt af viðurnefnum hennar "Gelda Manga." 

Freyja Haraldsdóttir lýsir vel því hugarfari sem er að baki svo sárgrætilega miskunnarlausu heiti. 

Maður hélt að hugsunin að baki því tilheyrði liðinni tíð. En það er nú eitthvað annað.  


mbl.is „Ég er ekki bara fötluð. Ég er kona“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband