1.12.2018 | 11:17
Frelsisvor.
Á facebooksíðu síðuhafa þessarar bloggsíðu er sungið eftirfarandi ljóð í tilefni dagsins:
FRELSISVOR.
Frelsisvor! Framtíðarspor!
Frelsisvor! Áræði´og þor!
Það var árið með drepsótt og eldgos og ís,
en sem árið, sem birtist oss frelsisins dís.
Líkt og morgunsól albjört í austrinu rís
hófst nú öld, þar sem lausnin var vís.
Heitur vorblær nú flutti hið ljúfasta ljóð
eftir lamandi vetur með svita og blóð.
Það var draumur um frjálsa og fullvalda þjóð
og hinn fegursta hugsjónaóð.
Eftir aldanna böl var loks birtu að sjá
þegar brustu hér hlekkirnir þjóðinni á.
Máttur fjöldans úr læðingi leystur var þá
svo að ljómaði gleði á brá.
Frelsisvor! Framtíðarspor!
Frelsisvor! Áræði´og þor!
Síðan flogin er glæsileg framfaraöld
þegar færð voru´í landið hin ítrustu völd,
þegar lýðveldi stofnaði fagnandi fjöld
svo að fært var á sögunnar spjöld:
Landið og fólkið, lifandi mál,
ljóðin og sögurnar, þjóðlífsins sál.
Tónar og myndir, formæðra fold,
fóstujörð hjartkær, andi og hold.
Undir fánanum bjarta nú brunar vort fley
inn í brim nýrrar aldar í vonanna þey.
Þó að gefi á bátinn þá æðrumst við ei
heldur eflist hver sveinn og hver mey.
Enn er sungið um vorið hið ljúfasta ljóð
þegar logar á tindunum jöklanna glóð.
Það er söngur um frjálsa og fullvalda þjóð
og hinn fegursta hugsjónaóð.
Frelsisvor! Framtíðarspor!
Frelsisvor! Áræði´og þor!
Minning tveggja forystumanna heiðruð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.