Misskilinn kóngur um sumt og einnig þjóð hans.

Dagbækur síðasta kóngsins yfir Íslandi geta gefið breytta mynd af honum í augum margra, og þá um flest betri mynd en við höfðum haft af honum áður. 

Jónas frá Hriflu, líklega stjórnmálamaður 20. aldarinnar á Íslandi, gaf með Íslandssögu sinni býsna einhliða mynd af Dönum og samskiptum þeirra og konunganna í Kaupmannahöfn við Íslendinga. 

Á þeim öldum sem smáþjóðir Evrópu voru að mestu undir yfirráðum stórvelda og nýlenduvelda, sést af samanburði á milli þessara smáþjóða, að úr því að Íslendingar urðu á annað borð að vera undir erlendum yfirráðum, voru Danir þeir skástu. 

Líklega er íslenska sjálfstæðisbaráttan sú eina, sem ekki kostaði neitt mannslíf og heldur ekki að menn væru fangelsaðir. Hvað þá, að helsti leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar væri á launum hjá herraþjóðinni. 

Jónas frá Hriflu talaði ekki vel um Kristján tíunda og af dagbókum konungs sést, að Kristján tíundi var tilfinninganæmur maður sem átti oft erfitt að skilja íslenska stjórnmálamenn, og lái honum það enginn. 

Hugleiðingar hans í þá veru í kjölfar afdrifa Uppkastsins svonefnda, að senda herskip til Íslands til þess að taka í lurginn á þessum óstýrilátu og hviklyndu íslensku þingmönnum og þjóð þeirra, hafa kannski ekki rist djúpt, heldur fannst hinum tilfinninganæma krónprinsi, sem Kristján var þá, að faðir hans, sennilega mesti Íslandsvinur allra konunganna, hefði ekki átt það skilið að svona færi. 

Af dagbókunum má sjá, að fljótlega gerði Kristján sér grein fyrir því, að fyrr eða síðar myndu Íslendingar verða frjáls og fullvalda þjóð og eftir þvi sem á leið, sá hann að stofnun lýðveldis yrði langlíkasti möguleikinn. 

Þetta samband hans við Íslendinga minnti svolítið á samband föður við baldinn son sinn, sem hann veit að muni fara að heiman og verða sjálfstæður. 

Í augum konungs Íslendinga voru Íslendingar þjóð hans hvað þessi samskipti snerti, og faðir hans, Friðrik áttundi, hafði einmitt talað um þjóðirnar sínar tvær í frægri ræðu, sem hann hélt við Kolviðarhól í Íslandsferð sinni 1907. 

Kristján kveðst í dagbók sinni 1917 vera orðinn þreyttur á því hviklyndi Íslendinga, að þegar Danir væru búnir að gefa eftir í einhverju deilumáli, væri það segin saga að Íslendingar byrjuðu aftur á sama kvabbinu með endurnýjuðum kröfum. 

Í staðinn fyrir þetta endalausa þras væri kominn tími til að safna þessum ágreiningsmálum saman í einar endanlegar samningaviðræður um samband Danmerkur og Íslands.  

Kristján var eðlilega tregur til að samþykkja hina óvenjulegu málsgrein sem þýddi að Íslendingar slitið sambandinu að fullu eftir 25 ár, en hlustaði þó á þá Dani, sem töldu að Íslendingar myndu einfaldlega koksa á slíku vegna þess að þeir hefðu ekki efni á því. 

En ályktanir Alþingis 1928 og 1937 sýndu eindreginn vilja Íslendinga og með stríðsgróðanum frá og með 1940 auk raunverulegra valdaskipta með stofnun embættis ríkisstjóra var leiðin til lýðveldis með blessun Breta og Bandaríkjamanna greið. 

Síðuhafa fannst athyglisvert í vinnu vegna bókar um hugsanlegt hernám Þjóðverja í októberbyrjun 1940, hve mikið var gert úr því í Reykjavík, þegar konungurinn átti stórafmæli rétt fyrir hugsanlega þýska innrás.  

Og síðuhafa er enn í barnsminni þegar fánar blöktu hvarvetna haustið 1943 og hann spurði afa sinn: "Af hverju eru alls staðar svona fánar?" 

Og afi Ebbi svaraði: "Það er verið að flagga fyrir kónginum." Og í kjölfarið kom fróðleikur um sonardóttur hans, sem væri líka þriggja ára, og ævintýrin um son karls og kerlingar í koti sem hreppti kóngsdótturina fengu á sig dýpri blæ í huga drengsins. 

Dagskrá var í útvarpinu og í Dómkirkjunni var messa helguð konunginum. 

Bæði við innrás Rússa í Finnland 1939 og hernám Danmerkur og Noregs í apríl 1940 sýndu Íslendingar hinum norrænu vinaþjóðum mikla samúð.  

 


mbl.is Afhenti Guðna merka minnispunkta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að 25 ára klausan hafi aldrei upphátt og varla heldur í hljóði verið túlkuð svo að Íslendingar ætluðu að afskaffa Dani og stofna lýðveldi.  Það er svo varla fyrr en með hernámi Danmerkur að einhverjum dettur þetta í hug í fullri alvöru.  Má til dæmis lesa um þetta hér: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=399344&pageId=7012655&lang=is&q=Stofnun%20l%FD%F0veldis

Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 2.12.2018 kl. 20:32

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta rímar hvorki við það sem konungur sjálfur fékk á tilfinninguna, samkvæmt dagbókunum, einkum í kringum Alþingishátíðina 1930, né heldur ákveðnar yfirlýsingar Alþingis 1928 og 1937. 

Skömmu fyrir stríð kom Stauning til Íslands, og þá var kreppan hvað dýpst vegna Spánarstríðsins og Hambros bandi átti nánast Ísland. Þá voru komnar vomur á einhverja Íslendinga, en 1940 gerbreyttist það allt. 

Ómar Ragnarsson, 2.12.2018 kl. 21:16

3 Smámynd: Már Elíson

Frábært hjá þér Ómar ! - Hafðu þakkir fyrir vel skrifaðann og útfærðann pistil.

Már Elíson, 2.12.2018 kl. 21:37

4 identicon

Já. Hvar getur maður annars séð þesar dagbækur kóngsa? Hafa þær komið almenningi fyrir sjónir?

Hitt er þó dagljóst að það þurfti ótrúlegar lögfræðilegar æfingar til að sannfærast um að uppsögn sambandslagasamningsins, skv. ákvæðum hans sjálfs, þýddi stofnun lýðveldis og spark í kónginn. Því gerir Svanur grein fyrir í grein sinni í Skírni sem ég vitnaði til hér að ofan.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband