Hömluleysi, firring og tryllingur.

Þessi þrjú lýsingarorð koma helst upp í hugann eftir að síðuhafi kom til bæjarins Avon í Kolorado fyrir 16 árum, skömmu eftir að krónprins Sádi-Arabíu hafði lokið af skíðaferð sinni þar í bænum. 

Fram að því hafði þessi valdamaður í öflugasta olíuríki heims farið í skíðaferðir sínar til Alpanna, en bæjarbúar í Avon með Gerald Ford, fyrrverandi forseta í fararbroddi, höfðu getað lokkað hinn auðuga krónprins þangað með því að yfirbjóða skíðabæinn Aspen. 

Þetta var árangur af markvissu starfi við að bjóða upp á lúxus, sem enginn annar gæti boðið upp á. 

Meðal þess var skíðalyfta, þar sem skíðafólkið fór upp inni í jarðgöngum til þess að þurfa ekki að láta sér verða kalt á uppleiðinni! 

Á flottasta brautasvæðinu var skíðað niður í endamark efst í bænum, en þar gat skíðafólkið farið áfram niðureftir eftir ílöngum golfvelli sem tók við af skíðabrautinni!  

Krónprinsinn leigði heilt 100 herbergja hótel eins og það lagði sig. 

Glás af limósínum og þyrlur fylgdu herlegheitunum og bruðlið var þvílíkt að bæjarbúar náðu ekki upp í nefið á sér af hneykslun. 

Þó ók lunginn af þeim á stórum lúxusbílum og bensínhákum, sem eyddu bensíninu, sem hið fjarlæga olíuríki skaffaði til að viðhalda ameríska draumnum, og ríkasti hluti bæjarbúa bjó í sérstöku hverfi af lúxusvillum sem var innan víggirðingar sem var gætt vandlega og þurfti aðgangskort að varðhliðunum. 

Um allan bæinn úði og grúði af dýrindis höggmyndum og styttum til að undirstrika velsæld og munað, sem væri í sérflokki. 

Okkur var sagt að firring og hömlulaust bruðl hinna tignu gesta væri það yfirgengilegasta sem sést hefði og þurfti þó talsvert til í landi margra auðugustu manna heims. 

Krónprins sem þekkir ekkert annað en endanlausan auð, spillingu og takmarkalaus völd verður auðvitað firrtur og til alls vís. 

Þegar sagt er að hann sé "brjálaður" ma hafa til hliðsjónar hið fornkveðna, að það þarf sterk bein til að þola góða daga. 

En meðan staða Sádi-Arabíu er eins og hún er, telja flestar þjóðir heims sér ekki annað fært en að skríða fyrir hinum ósnertanlegu handhöfum hins mikla olíuvalds. 


mbl.is „Brjálaður“ krónprins tengdur við morðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband