Minnir á afdrif byggðar á Hornströndum.

Ástandið í Árneshreppi minnir um margt á örlög byggðar á Hornströndum á árunum eftir Seinni heimsstyrjöldina fyrir um 75 árum. 

Á stríðsárunum hafði ógrybni fjár komið inn í efnahagslíf þjóðarinnar í gegnum fiskútflutning til Bretlands og uppgrip í vinnu fyrir hernámslið Breta og Bandaríkjamann. 

Fólkið í hreppunum norðan Djúps hafði því miklar væntingar til þess að hægt yrði að byggja upp blómlega byggð í hinum fögru en harðbýlu byggðum nyrst á Vestfjörðum. 

Það var byrjað að myndast smá þéttbýli á tveimur stöðum, á Látrum við Aðalvík og á Hesteyri við Hesteyrarfjörð. 

En skipakostur Hornstrendinga var úr sér genginn og algerlega úreltur. Vonir heimamanna um að fá aðstoð við skipakaup, rafvæðingu, smíði frystihúsa og lagningu vega hrundu, þegar gjaldeyrisforðinn varð uppurinn í árslok 1947 án þess að neit hefði farið norður fyrir Ísafjarðardjúp. 

Við tóku skömmtunarár vegna mikils efnahagssamdráttar í Evrópu og enda þótt Bandaríkjamenn reistu ratsjárstöð á Straumnesfjalli, legðu veg þangað upp og litla flugbraut vestast í Aðalvík, voru það ekki framkvæmdir sem gögnuðust neitt. 

Það hafði forgang á landsvísu að byggja upp togararflotann og bæta ömurlega lélegt vegakerfi annars staðar á landinu, og líta má til þess að í stríðslok endaði þjóðvegurinn að sunnan við norðanverðan Gilsfjörð og einu vegirnir á Vestfjörðum voru milli Patreksfjarðar og Rauðasands og yfir Gemlufallsheiði milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. 

Allt annað var eftir og hafði forgang fram yfir Hornstrandir, sem voru alveg einstaklega illa fallnar til vegagerðar. 


mbl.is Enginn forgangur fyrir Árneshrepp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var lán að ekki var farið í mikla innviðauppbyggingu á Hornströndum. Hornstrandir eru einfaldlega of afskektar og harðbýlar fyrir nútíma búsetu. Íbúarnir átti einfaldlega kost á betra lífi annarsstaðar. Auðvitað var erfitt að fara frá jörðum og byggingum bótalaust en til lengri tíma litið var það eina vitið.
Það á ekki að horfa með eftirsjá til byggðar á Hornströndum. Frekar að fagna því að tímarnir breyttust og betri lífskjör buðust annarsstaðar.

Það kostar milljarða að koma samgöngum í Árneshreppi á svipað ról og öðrum byggðarlögum. Þetta er einfaldlega ekki réttlætanlegt fyrir örfáa íbúa þar sem fjárfestingví vegum nemur tugum milljóna pr íbúa. Auk þess verður mjög þungt fyrir fæti með snjómokstur.
Mun ódýrara að niðurgreiða flugið myndarlega yfir vetrartímann í þessi ár sem núverandi íbúar geta fjármagnað tekjulausan fjárbúskap. 

Bjóða svo íbúunum veglegan styrk ef allir sameinast um að hætta þarna heilsársbúsetu.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 14.12.2018 kl. 18:58

2 Smámynd: Andrei Melnikov

Á hinn bóginn gæti ferðaþjónusta á austanverðum Vestfjörðum verið mun öflugri í dag hefði byggð á Hornströndum ekki lagst af.

Andrei Melnikov, 14.12.2018 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband