15.12.2018 | 12:19
Klassadæmi um mátt auðs og valda.
M'al hreinlætisframleiðandans, sem leynir tilvisit krabbameinsvaldandi efnis í hreinlætisvöru sinni, er klassadæmi um mátt auðs og valda.
Þetta tvennt, auður og völd, er nefnt í einu, því að auður og peningar veita handhöfunum völd.
Margfalt stórfelldara dæmi er vísvitandi blekkingaleikur bandarískra tóbaksvöruframleiðenda, sem blygðunarlaust létu þjáningar og dauða milljóna manna sem vind um eyru þjóta og hertu meira að segja á gerð rándýrra auglýsinga, sem áttu að efla þá trú, að reykingar væru tákn hreysti, hollustu og útiveru.
Þeir komu fyrir þingnefndir Bandaríkjaþings eins og sakleysið uppmálað og þverneituðu öllum efasemdum um ágæti reykinganna.
Eitt af nýjustu dæmunum eru læknarnir, sem urðu svo ríkir á framleiðslu "skaðlausra" verkjalyfja, að framleiðslan og gróðinn hjá þeim nemur tvöföldum þjóðartekjum Íslendinga.
Áróðursherferð þeirra var svo víðtæk og útsmogin, að hrollvekjandi er. Hún hófst með "vönduðum vísindalegum rannsóknum" þeirra á gerð nýrra og skaðlausra verkjalyfja, sem færði þeim viðurkenningar og verðlaun.
Þeir voru lagnir við að veita háskólum, heilbrigðisstofnunum og læknum styrki og gjafir, sem gerðu þessar stofnanir og lækna vanhæfa til þess að fjalla um myrkraverk þeirra ofan í kjölinn.
Um síðir fóru afleiðingarnar að koma í ljós í einhverjum skæðasta faraldri, sem læknavísindin kunna frá að greina, ópíuóðaplágunni, sem nú leggur að velli meira en 50 þúsund Bandaríkjamenn á ári, eða fleiri en samanlögð umferðarslýs.
Í hrollvekjandi umfjöllun 60 mínútna sjónvarpsþáttarins um málið kom fram, að með mútum og lobbíisma af hæstu gráðu fengu hinir siðblindu læknar þingmenn þess ríkis, þar sem var miðstöð svikamyllu þeirra, til þess að lauma í gegnum bandaríska þingið löggjöf, sem rústaði lyfjaeftirliti Bandaríkjanna.
Það var auðveld leið til að heilla þá, sem telja eftirlit af öllu tagi óæskilegt.
Einnig auðvelt að beina sjónum að slæmumm innflytjendum, sem hefðu dreifingu þessara lyfja innifalda í dreifingu annarra fíkniefna í glæpaheimum.
Nánari óháðar rannsóknir hafa leitt í ljós, að fullyrðingar læknanna siðlausu um það að þeir hefðu búið til verkjalyf, sem væri ekki ávanabindandi, voru kolrangar, - þeir höfðu einmitt gert hið gagnstæða.
Dæmin eru óteljandi á mörgum sviðum og er Volkswagen-hneykslið, rangar upplýsingar um útblástur, magnað dæmi um það, sem og tilraunir fleiri bílaframleiðenda til blekkinga af svipuðu tagi.
Vissu vel af asbesti í barnapúðrinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.