21.12.2018 | 08:59
Besti spítali Evrópu reis næstum þegjandi og hljóðalaust.
Það er ekkert náttúrulögmál, sem nú er að gerast á Landsspítalalóðinni og verður þannig áfram næstu árin, þótt fyrir áratugum hafði verið tekin ákvörðun um að fara sömu leið og sumir Norðmenn nefndu hiklaust "víti til varnaðar", bútasaumurinn við spítalann í Þrándheimi.
Það voru menn en ekki náttúruöfl, sem tóku þessa ákvörðun og fylgdu henni eftir með blekkingaleik, sem áður hefur verið lýst hér á síðunni og í sérstakri blaðagrein á grundvelli sérstakar ferðar síðuhafa til Oslóar og Þrándheims 2005.
Blekkingarnar fólust meðal annars í því, að ráðamenn í þessu máli kölluðu aðeins til erlenda sérfræðinga til að greina í fjölmiðlum og á ráðstefnum frá byggingu spítala, sem þeir höfðu sjálfir hannað með aðferðinni, sem kallað var "vítið til varnaðar í Þrándheimi."
Þjóðin fékk aldrei að heyra sjónarmið þeirra, sem fóru þá leið sem farin var í Osló nema óbeint, örstutt, í umfjöllun minni um málið.
Í stuttu máli ákváðu Norðmenn, að þjóðarspítali þeirra skyldi rísa á auðri lóð þar sem hægt var að hanna allan þennan spítala á þann veg, að hann yrði byggður í heilu lagi á samfelldan hátt og flutt inn í hann fullbúinn, sem besta spítala Evrópu að margra dómi eftir að hann hafði risið næstum þegjandi og hljóðalaust.
Hagræði þessa, þegar upp var staðið, fólst í einu og öllu í þessu höfuðatriði um hreina nýsmíði.
Úr því sem komið er, lítur hins vegar út fyrir að fyrirsjáanlegar, sársaukafullar byggingar-skurðaðgerðir árum saman, verði hlutskipti þeirra sjúklinga og starfsfólks, sem þurfa að búa við ástand líkt því sem lýst er í tengdri frétt á mbl.is.
Er vonandi að menn beri gæfu til þess, úr því sem komið er, að draga þetta stríð ekki óhæfilega á langinn í stíl við hið langvinna stríð við að setja upp jáeindaskannann.
Það hefur verið farið mikinn á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum um vandræðaganginn hjá fjórum þingmönnum Miðflokksins í Klaustursmálinu. Flokkurinn má þó eiga það, að í Landsspítalamálinu hefur hann barist fyrir nauðsynlegri stefnubreytingu í spítalamálum, en árangurslaust.
Sú barátta hófst, því miður, of seint.
Íhuga flutninga vegna sprenginga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar, þakka þér fyrir þessa þörfu grein þína.
Því miður hafa stjórnvöld, sama hvaða flokkar hafa ráðið för, skellt skollaeyrum við viðvörunum sem þessum. Stjórnarherrarnir ætla seint að læra og ég óttast að þetta verði eitt stórt allsherjar klúður á borð við margumræddan bragga og náðhús vestur í bæ.
Góðar stundir og GLEÐILEG JÓL.
Tómas Ibsen Halldórsson, 21.12.2018 kl. 09:54
Sama saga átti sér stað á Akureyri laust fyrir miðja síðustu öld.
Hafist var handa við að byggja við gamla sjúkrahúsið í miðjum Spítalaveginum. Fljótlega áttuðu menn sig á því að ekkert vit var í að stunda þennan bútasaum í brattlendi og þrengslum og hófu þess í stað byggingu á nýju sjúkrahúsi uppi á óbyggðum hjallanum sunnan við Lysatigarðinn.
Þar hefur Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri verið byggt upp 3 megin áföngum og enn er rými til stækkunar.
Gamla sjúkrahúsbyggingin hefur nú þjónað sem skíðaskáli í Hlíðarfjalli í 60 ár og enginn grætur þá framsýni að hverfa frá bútasaumi í miklum þrengslum þar sem bílaaðgengi er slæmt.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 21.12.2018 kl. 13:11
Það eru ekki byggingar sem gera norskt heilbrigðiskerfi betra en það íslenska heldur eru norsk sjúkrahús miklu betur mönnuð (fleira starfsfólk á hvern sjúkling) og gæti ég nefnt dæmi um það.
Annars á íslenskt heilbrigðisstarfsfólk heiður skilinn fyrir að ná að halda þessu úti stórslysalaust. Sem verður kannski ekki til allrar frambúðar.
Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 21.12.2018 kl. 19:52
Og samt kemst þessi þjóðarspítali Norðmanna ekki á lista yfir 10 bestu í Evrópu, 20 bestu, 30 bestu, en er neðstur á listanum yfir 50 bestu. Sahlgrenska og Karolinska eru bæði ofar á listanum. Sömuleiðis Norrbottens Lans Landsting og Rigshospitalet í Danmörku. Og flestir hinna eru í nýjum og gömlum byggingum - bútasaumur. Sá í efsta sæti er í nærri 40 byggingum.
Sumir Íslendingar segja hiklaust að rétt sé að byggja eins og fyrirhugað er. Og að margra dómi er það besti kosturinn.
Hábeinn (IP-tala skráð) 22.12.2018 kl. 03:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.