25.12.2018 | 02:07
Dómar kveðnir upp þegar í stað í "Lúkasarmálum."
Það vantaði ekki að dómstóll götunnar og síðar lögreglunnar þyrfti ekki mikinn tíma að kveða upp sektardóm í drónamálinu á Gatwickflugvelli.
"Talið að umhverfisfólk sé að ræða", kom fyrst, - og í kjölfarið var handtekið par, birt nöfn beggja og farið um heimili þeirra með látum.
Eitt af einkennum byltingarinnar í samfélagsmiðlum er hve undraskamman tíma tekur að finna sakborninga og sakfella þá helst endanlega í leiðinni.
Gatwick-málið er ágætis dæmi um það þegar það meginatriði vestræns réttarfars er fótum troðið, að hver maður skuli talinn sýkn saka í sakamálum, nema sekt hans sé endanlega sönnuð.
Dæmum um að þetta sé ekki virt hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum vegna gríðarlegs vaxtar samfélagsmiðla þar sem dómstóll götunnar og síðar jafnvel lögreglan sjálf er á undraskömmum tíma búin að finna sökudólga og hafa jafnvel af þeim æruna.
Þetta á við um öll lönd, lika litla Ísland.
Sem dæmi má nefna að um daginn tók ekki langan tíma á samfélagsmiðlum að finna hinn raunverulega mest seka í Klausturmálinu, nafngreindan Pírata, sem væri vitorðsmaður og jafnvel aðalmaðurinn í því máli.
Enn er í fersku minni fárið vegna meintra svívirðilegra pyntinga og dráps á hundinum Lúkasi á Akureyri og jafnvel nafngreindir sökudólgar. Síðan kom Lúkas fram og allt málið varð jafndautt og hundurinn átti að hafa verið.
Dómar af þessu tagi felast stundum í því að hinn ákærði þarf að afsanna það sem borið er á hann og með þeirri aðferð er oft hægt að saka hvern sem er um næstum hvað sem er.
Á þessari bloggsíðu var til dæmis í upphafi fjallað talsvert um umhverfismál, og þegar sókn rafbíla hófst inn á markaðinn, var ákveðið að fjalla ekki aðeins um það mál úr fjarlægð, heldur skyldi síðuhafi kynna sér málin sem allra best persónulega niður í kjölinn.
Þegar niðurstaða þriggja ára prófana varð sú, að síðuhafi hefði getað minnkað kolefnisfótspor sitt í persónulegum ferðum og snatti sínum á farartækjum sínum hér á landi um 80 prósent, birtist strax pistill í athugasemd óvildarmanns, þar sem fullyrt var að þarna væri um tuttuguogfimmfalda lygi að ræða, fótsporið hefði verið fimmfaldað frá því sem var í stað þess að minnka það niður í fimmtung þess, sem það var áður en rafknúin farartæki og létt vespuhjól voru tekin í notkun í stað bensín/dísilknúinna bíla eingöngu.
Þegar spurt var á móti, hvaða gögn væru um þessa svakalegu lygi, setti hælbíturinn það sett fram þá fullyrðingu sem sönnun, að ég hefði flogið margsinnis á árinu milli Íslands og Evrópu og ekið tugþúsundir kílómetra um Evrópu í bílum, knúnum jarðefnaeldsneyti.
Þegar spurt var áfram hvað hann hefði fyrir sér í þessum ásökununum var svar ófrægingarmannsins einfalt: Þetta væru staðreyndir, nema það yrði afsannað.
Sem þýðir að allir geta verið sekir um næstum hvað sem er.
Ákærandinn færðist í aukana og endurtók ávirðingarnar þegar reynt var að svara honum, jafnvel þótt svo vel vildi til að ég held einstætt bókhald um allar mínar ferðir, hvaða farartæki voru notuð og ekið hvert, með kílómetratölum og eldnsneytiskostnaði, og hef gert það í tugi ára í minnisbókum mínu, sem tugir fólks hafa séð allan þennan tíma og geta vitnað um.
Á síðu minni birti ég ljósmynd af opnu sem sýnishorn og samkvæmt þessu samfellda bókhaldi hafði ég aldrei haft tíma til að liggja í ferðalögum yfir hafið og um Evrópu.
En það var eins og að skvetta vatni á gæs á þennan launsátursmann sem í krafti dulnefnis síns hafði árum saman stöðugt haldið fast við það að allt, sem síðuhafi birti á þessari síðu væru lygar og rangfærslur.
Þar með taldar margra áratuga færslur í minnisbókum mínum.
Í öngum sínum vegna handtökunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst þetta svolítið skrítin túlkun á þessu máli, þar sem í viðtengdri mbl frétt kemur ekki fram að handtaka þessa pars hafi komið til vegna samfélagsmiðla og ég hef hvergi séð það í fréttum. Lögreglan virðist hafa tekið þetta fólk í misgripum og fjölmiðlarnir (ekki samfélagsmiðlar) birtu nöfn og myndir. Þau þakka fyrir stuðning víðs vegar að í heiminum, sem líklega hefur komið fram í samfélagsmiðlunum. Það mætti segja að þú snúir málinu alveg á hvolf í þinni umfjöllun. Lögregla og fjölmiðlar gerðu mistökin en parið þakkar samfélagsmiðlunum.
Auðvitað er margt skrítið sem kemur upp í samfélagsmiðlunum, en það jákvæða er að nú hefur fólkið fengið rödd og getur komið skoðun sinni á framfæri. Ég hefði lokað á þennan mann sem var að ónáða með tómri vitleysu, ég loka stundum á menn og við sem erum að blogga höfum fullan rétt til þess á okkar síðum.
Eitt sinn kom maður á bloggið hjá mér og skrifaði í athugasemd með nokkru þjósti að mér fannst, að ég væri að fari í manninn en ekki boltann í mínum skrifum. Ég tók þetta mjög alvarlega og ákvað að forðast framvegis að nefna nöfn manna, sérstaklega ef þeir eru ekki í pólitík. Nokkru síðar kom sami maður og skrifaði í athugasemd hjá mér að ég væri með dylgjur í málinu, vegna þess að ég skrifaði ekki nöfn þeirra sem hlut áttu að máli. Það getur verið vandasamt að gera hlutina þannig að öðrum þóknist. Mér finnst stundum að nánast allt sem ég skrifa sé túlkað á rangan hátt. Sumir lesa bara fyrirsögnina og fara strax að skrifa athugasemd. Maður veit ekki hvernig þetta á allt saman að vera svo best gangi fyrir alla.
Sveinn R. Pálsson, 25.12.2018 kl. 15:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.