28.12.2018 | 23:13
Ný jarðgöng á höfuðborgarsvæðinu? Já. Veggjöld? Já.
Nú eru rúmir tveir áratugir síðan Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun, en þau tengja norðvesturmörk borgarlands Reykjavíkur við Vesturland.
Síðan þá hefa bráðnauðsynleg göng verið boruð úti á landi, en engin inni á höfuðborgarsvæðinu sjálfu.
Fyrir löngu er kominn tími til að gera það, og fjármagna það með veggjöldum líkt og gert hefur verið víða erlendis.
Og var raunar gert beggja vegna Reykjavíkur á sínum tima, fyrst með lagningu Reykjanesbrautar eða Keflavíkurvegarins eins og hann var kallaður þá.
Í slíkum tilfellum þarf að vera sú forsenda, að hægt sé að aka aðra leið, ef menn vilji.
Þeir borga, sem nota.
Nú er mikið rætt um það óréttlæti að tugmilljarða skattheimta af bílum og samgöngutækjum, sem átti upphaflega að renna beint í að borga samgöngumannvirki skuli renna að stórum hluta til annarra þarfa í ríkisrekstrinum.
Veifa menn því að lausnin á fjármögnunarvanda samgöngumannvirkja náist auðveldlega og einfalt með því láta allt skattfé af samgöngutækjum renna beint til samgöngumála.
Gott og vel, en þetta er aðeins önnur hlið málsins og hálfsögð saga, því að með þessu yrðu bráðnauðsynleg verkefni ríkisins eins og heilbrigðismál, velferðarmál, mennta- og menningarmál o. s. frv. svipt tugum milljarða króna.
Þeir, sem setja fram ofangreindar tillögur, verða að upplýsa, hvaðan eigi að fá þá miklu peninga, - tilgreina, hvaða nýja skattheimtu eigi þá að taka upp.
Jarðgöng í Hafnarfirði á listanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hefði hlutfallið af skatttekjum ríkisins, sem fást af eldsneyti, aðeins verið að einhverjum örfáum prósentum hærra, verið varið til vegamála, væri staðan ekki svona slæm. Þetta er uppsafnaður vandi áratuga kæruleysis, skammsýni og aumingjaskapar hérlendra stjórnmálamanna og kvenna. Fólks sem sér aldrei lengra en fjögur ár fram í tímann, því áskriftin að fríðindunum nær oft ekki lengra. Þeim sem lengur sitja, virðist af einhverjum enn undarlegri ástæðum andskotans sama. Maður veltir því fyrir sér, hvað veldur.
Borðar maður menningu og listir? Ríkið á ekki að koma nálægt menningu og listum! Voru menning og listir niðurgreiddar af "Ríkinu" á öldum áður? Hvað skóp menningu? Alveg örugglega ekki niðurgreiðslur ríkisins. Sjálfbær menning og listir stóðu einu sinni undir sér og skópu söguna, algerlega óháð niðurgreiðslum frá hinu opinbera.
Ef hægt er að bora göng, sem liggja fyrir á skipulagi, einhver vill bora þau og telur sig geta haft að því einhvern ávinning með veggjöldum, hvers vegna ekki? Þarf ríkiskrumlan að hafa hendur á öllu?
Það þarf aðeins að skipuleggja meira en fjögur ár fram í tímann. Eitthvað sem hérlent stjórnmálafólk virðist ekki með nokkru móti geta gert, enda allt of upptekið af eigin hagsmunum, vina og vandamanna.
Góðar stundir höfðingi, með áramótakveðju að sunnan og afsakaðu langlokuna.
Halldór Egill Guðnason, 29.12.2018 kl. 00:15
Lausnin á fjármögnunarvanda samgöngumannvirkja næst auðveldlega og einfaldlega með því láta allt skattfé af samgöngutækjum, sem átti að renna beint til samgöngumála, renna beint til samgöngumála.
Með því yrðu bráðnauðsynleg verkefni ríkisins eins og heilbrigðismál, velferðarmál, mennta- og menningarmál o. s. frv. svipt tugum milljarða króna. Tugum milljarða sem ríkið fengi ekki að sækja aftur í vasa bíleigenda. Tugum milljarða sem ríkið þyrfti þá að afla með almennum sköttum, lækkun bóta, gjöldum á rafmagnsfarartæki o.s.frv.
Ég sel þér umfelgun sem þú borgar en þú færð enga umfelgun. Á ég að geta rukkað þig fyrir umfelgun í hvers sinn sem mér tekst að eyða peningunum án þess að umfelga? Er það þitt að finna og borga peninga í viðbót þar til ég umfelga? Ættu ekki peningarnir sem þú lést mig fá upprunalega fyrir umfelgun að vera næg greiðsla frá þér? Og er peningaleysi og eyðslusemi mín vandamál sem þér ber að leysa?
Þeir fái sem borguðu.
Hábeinn (IP-tala skráð) 29.12.2018 kl. 01:50
Ekki alveg svona einfalt Hábeinn. Vandamálið felst í því að fá á hreint hvað Ríkið á að fjármagna. Á Ríkið að fjármagna hundlélega listamenn og sjálfhverfa menningarsinna, sem aldrei selja neitt og gera ekki annað en veltast um eigið rassgat, eða byggja góða vegi og halda upp lágmarksþjónustu fyrir borgarana, í formi menntamála , heilbrigðiskerfis sem virkar, löggæslu og samgöngumálum?
Það er hægt að byggja margar tvöfaldar brýr, fyrir það fjármagn sem sólundað er í menningarkjaftæði, í alls konar formi. Ef menning ber sig ekki, er hún ekki menning heldur dragbýtur. Það er hægt að rökræða endalaust um hvað er menning og í þeirri umræðu hafa þeir yfirleitt hæst, sem ákkúrat ekkert hafa fram að færa til menningar. Það er svo djöfull gott að liggja á meltunni á annara kostnað.
Halldór Egill Guðnason, 29.12.2018 kl. 02:21
Jú, það er svona einfalt Halldór. En það er hægt reyna að flækja málið með því að blanda samanvið hlutum sem koma skattfé af samgöngutækjum sem átti að renna beint til samgöngumála ekkert við. Hvort það eru listamenn eða kennarar breytir engu, hvorugur hópurinn á rétt á skattfé sem átti að renna beint til samgöngumála. Hvort það er hlaupár eða rigning á sumardaginn fyrsta, skattfé af samgöngutækjum sem átti að renna beint til samgöngumála á að renna beint til samgöngumála. Það getur varla verið einfaldara.
Hábeinn (IP-tala skráð) 29.12.2018 kl. 04:07
Já nú líkar mér aldeilis við þig Ómar. Við höfum nákvæmlega sama skilning á lausn umferðarvandans.
Halldór Jónsson, 29.12.2018 kl. 06:37
Tuðararnir sem alltaf tönnlast á gömlu tuggunum um tekjunar af umferðinni verða að svara þessu:
"Veifa menn því að lausnin á fjármögnunarvanda samgöngumannvirkja náist auðveldlega og einfalt með því láta allt skattfé af samgöngutækjum renna beint til samgöngumála.
Gott og vel, en þetta er aðeins önnur hlið málsins og hálfsögð saga, því að með þessu yrðu bráðnauðsynleg verkefni ríkisins eins og heilbrigðismál, velferðarmál, mennta- og menningarmál o. s. frv. svipt tugum milljarða króna.
Þeir, sem setja fram ofangreindar tillögur, verða að upplýsa, hvaðan eigi að fá þá miklu peninga, - tilgreina, hvaða nýja skattheimtu eigi þá að taka upp. "
Þetta er nefnilega lóðið!
Halldór Jónsson, 29.12.2018 kl. 06:40
þegar menn byggja hús alstaðar þar sem vegur á að vera er efitt að komast hjá gönngum. á þá ekki sveitarsjóður að borga mismuninn þau hafa þegar innheimt veggjöldaf íbúðarbygð þar sem stofnæð átti að standa
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 29.12.2018 kl. 07:37
Fjármögnun ríkissjóðs með tekjum af umferðinni er gerð til þess að hlífa auðmönnum við skattheimtu. Fjármagnstekjur þarf að skatta með sama hætti og aðrar tekjur þannig að sveitarfélög njóti þeirra í útsvari. Auðlindagjöld þarf að festa í sessi í stjórnarskrá. Hækka þarf skatta á ofurtekjur sem valdastéttin hefur skammtað sér. Auðstéttin verður að skila ránsfeng sínum til baka þannig að hægt verði að útrýma örbirgð hér á landi.
Sverrir Hjaltason (IP-tala skráð) 29.12.2018 kl. 08:13
Bókhaldið þarf að vera í lagi. Vegagerðin þarf að telja ógreitt skattfé sem skuld ríkisjóðs við Vegasgerðina og ganga í það að fá samning við fjármála og samgönguráðherra að þessir fjármunir sem sannanlega hafa verið teknir í annað verði greiddir með raðgreiðslum á næstu árum ,t.d. 10-15 árum.
Almenningur ætti að styðja Vegagerðina með mótmælum til að fá þessi mál í gegn. Þessi tvísköttun sem boðuð er, nær ekki nokkurri átt. T.d. að fara nota greidd Hvalfjarðargöng sem mjólkurkú fyrir ríkisjóð.
Af hverju má almenningur ekki njóta þess að aka frítt í gegn um göng sem hann hefur lokið við að greiða og ekið inn í framtíðinni frjálsir og glaðir menn í sitt sumarfrí? Annað væri ríkiskúgun.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 29.12.2018 kl. 08:53
Ég er sammála því, að það er óheiðarlegt að setja á skatt, sem sagt er að eigi að renna óskiptur til einhverra þjóðþrifamála og síðan að láta hann renna í annað.
Það er og verður óheiðarlegt, en þetta gerðu stjórnmálamenn hér fyrir meira en þrjátíu árum og komust þá upp með það, og ekki aðeins það, þeir voru kosnir aftur og aftur af þeim sömu sem nú koma seint og um síðir, eftir einar tíu kosningar og nefna þá patentlausn að snúa þessum sköttum öllum á hvolf með einu pennastriki án þess að nefna nokkkurn skapaðan hlut sem eigi að koma í staðinn til heilbrigðismála og annarra óhjákvæmilegra þjóðþrifamála.
Ómar Ragnarsson, 29.12.2018 kl. 09:10
Bravó Ómar
Halldór Jónsson, 29.12.2018 kl. 09:56
Það er aðeins hluti bensíngjaldsins sem er eyrnamerktur vegagerð og sá tekjustofn hefur runnið óskiptur til vegagerðar árum saman og er held ég meira að segja styrktur í dag af almennu skattfé.
Það væri bara kjánalegt að láta virðiaukaskatt eða vörugjöld af bifreiðum renna til vegamála því þetta eru stærstu tekjustofnar rikisins og alveg laukrétt hjá Ómari að benda á að þá verða þeir sem það vilja að benda á hvernig eigi að bæta upp tekjutapið. Tekjuskattshækkun? Þetta er svona svipað einsog ef vsk af barnafatnaði væri eyramerktur kvenna- og barnadeild LSH, vsk af veiðarfærum eyrnamerktur landhelgisgæslunni osfrv. Bara rugl...
Hitt finnst mér blasa við að stjórnmálamönnum er ekki treystandi fyrir veggjöldunum. Það myndi óhjákvæmilega leiða til þess að veggjöld á höfuðborgarsvæðinu yrði varið til Vaðlaheiðarganga framtíðarinnar undir formerkjunum að "halda landinu öllu í byggð"...sbr. Jón Gunnarsson í Silfri Egils. Það er ekki tilviljun að þeir stjórnmálamenn sem ganga harðast fram eru báðir landsbyggðarþingmenn. Það væri eilíft tog um hvar eigi að rukka...hversu mikið...og hvar eigi svo að verja peningunum.
Besta leiðin finnst mér vera að taka vegagjöldin út úr eldsneytisverðinu en taka upp kílómetragjald sem væri vegið með þyngd farartækis. Allir borga...bensín...dísel...rafmagn..metan...vetni osfrv. Eigendur geta lesið af mæli og sent inn álestra sbr. rafmagn og heitt vatn. Lesið af við eigendaskipti, skoðanir og förgun. Þyngdin tekin inn til að meta slit sem faratæki veldur.
Og peningunum á að verja á grundvelli "cost-benefit" analísu. Það myndi að lokum leiða til þess að ALLIR fá þær vegabætur sem þarf...en þær sem eru hagkvæmastar koma fyrst og fara að skila sínu sem fyrst til hagsbóta fyrir alla...
Magnús (IP-tala skráð) 29.12.2018 kl. 10:31
Ég er hugsi. 12 miljarða jarðgöng undir íbúðarbyggð, aðeins 10 metrum undir húsum syðst, þetta er náttúrulega bilun. Þarna er um að ræða verðmæti um 8- 10 mislægra gatnamóta.
Hefði ekki verið hægt að taka lán til vegaframkvæmda meðan vextir hafa verið í hringum 0% erlendis og jafnvel neikvæðir og eða minnkað afborganir á skuldum ríkissjóðs sem ekki voru á gjalddaga
Það hefði líka mátt taka útfyrir sviga aukninguna sem túristarnir gáfu í bensíngjöldum.
Veggjöld eru jákvæð, ef þú færð vegabætur, en ég yrði nú fúll ef ég ætti að borga gjald fyrir hvern vegspotta sem verður lagfærður á hringveginum
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 29.12.2018 kl. 11:03
Árið 2016 voru tekjur ríkis af ýmsum gjöldum sem lögð voru á umferðina um 44 milljarðar.
Að eiga og reka bíl er oft ill nauðsyn margra íslendinga ekki síst út á landi en líka á höfuðborgarsvæðinu.
Auknar álögur í formi vegjalda bæta þar ekki úr.
Vegagerðin fékk rúma 17 milljarða úr svokölluðum mörkuðum tekjustofnum en að auki rúma 7 milljarða frá ríkinu. Samtals 25 milljarða.
Það má alveg eins kalla það bókhaldsbrellu að nefna sumt af þessu markaða tekjustofna hitt eitthvað annað.
Breytir engu um það að 44 milljarðar eru lagðir á umferð á meðan 25 milljarðar fara í vegamannvirki.
Spurningin um vegtolla snýst í þessu samhengi því um það hvort eigi að leggja enn meiri álögur á umferðina.
Hve mikinn skatt sé eðlilegt eða skynsamlegt að leggja á þá sem nota ökutæki.
Önnur spurning sem fylgir vegtollaumræðu eða ætti að fylgja, er hvernig í ósköpunum eigi að leggja og viðhalda vegum sem ekki borga sig með vegtollum?
Sú spurning er t.d. af sama toga og hvort ekki sé rétt að sinfóníuhljómsveitin sé aðeins rekin innkomu af tónleikahaldi fremur en niðurgreiðslum ríkis.
Viljum við byggðarsjónarmið eða skulu grjóthörð markaðssjónarmið ráða á vegum úti (án þess þó að slá af skattlagningu annarsstaðar)?
Þykja mér nú báðir jafn undarlegir í umræðunni, sósíalistarnir að vilja markaðsvæða umferðina með vegtollum og hægri mennirnir sem fylgja þeirri ofskattlagningu sem þarna stefnir í.
https://www.althingi.is/altext/146/s/1075.html
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 29.12.2018 kl. 11:50
"Fyrir löngu er kominn tími til að gera það, og fjármagna það með veggjöldum líkt og gert hefur verið víða erlendis. "
Allstaðar erlendis eru lægri skattar en hér. Ef skattheimtan nú nægir ekki, þá eru ráðamenn vahæfir.
Ásgrímur Hartmannsson, 29.12.2018 kl. 12:50
FIB segir að 80 milljarðar verði heimtur af umferðinni 2019. 29 fari til baka til samgöngubóta, 50 í annað
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 29.12.2018 kl. 16:05
Hinn rændi á að finna ræningjanum aðra tekjulind. Þeir sem eru ekki að fá það sem þeir borguðu ríkinu fyrir eigi að finna ríkinu aðra tekjulind svo ríkið geti skilað því sem það stal. Og af því að pólitíkusarnir voru kosnir, og margir oftar en einu sinni, þá hljóti allir að vera samþykkir og sáttir við þjófnaðinn. Alveg eins og allir eru sáttir og samþykkir kvótakerfinu og upphæð bóta til aldraðra. Það segir Ómar.
Hábeinn (IP-tala skráð) 29.12.2018 kl. 20:09
Kirkjugarðsgjald er dregið af okkur öllum. Gjald sem ætlað er og eyrnamerkt því einu að koma okkur í moldina. Tekjurnar sem ríkið skilar af þessum skatti, skilar sér ekki í það verkefni. Gott ef þeir voru ekki farnir að brenna fjóra eða fimm í sömu brennslunni í Fossvoginum hér um árið og deila síðan öskunni í jafnmargar krukkur, svona "sirkabát".
Er nema von að almenningur beri nánast enga virðingu fyrir fyrirheitum stjórnmálamanna, þegar svo sárgrætilega lítið er efnt af "loð"orðunum.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 29.12.2018 kl. 22:12
Sæll Ómar.
Það er athyglisvert að þú drepur þessari umræðu á dreif
með hefðbundnum hætti stjórnmálamanna.
Hvers vegna er það svo að ríki og borg eru sem næst
á hausnum og með betlistaf í hendi á öllum strætum mitt í
góðæri sem staðið hefur yfir árum saman?
Á hvorttveggja staðnum er útaustur á peningum í einhvern
þann svelg sem síðan enginn þykist kannast við
þó hann blasi við öllum.
Af hverju spyr enginn í hvað þessir peningar fara?!
Vegtollar í miðju góðæri. Geri aðrir betur!
Húsari. (IP-tala skráð) 29.12.2018 kl. 23:42
Vegtollar eru teknir upp árlega einhvers staðar úti í heimi jafnt í góðæri sem og þegar illa ára.
Fyrsti vegtollurinn á Íslandi, á Keflavíkurveginum, var tekinn upp á miklum uppgangstímum.
"Hinn rændi", eins og Hábeinn kallar íslenska kjósendur, hefur kosið "ræningjana" aftur og aftur í tíu kosningum, og ég ítreka það sem ég sagði hér að ofan, að kerfið í heild er óheiðarlegt og að bæði þeir, sem andmæla vegtollum, og þeir sem vilja taka þá upp, ættu að fara í það verkefni að reyna að snúa ofan af því fyrirbæri, að tekjur af ákveðnum sviðum fari jafnvel að meirihluta til í allt annað en þær eiga að heita að vera "eyrnamerktar."
Ómar Ragnarsson, 31.12.2018 kl. 14:47
"Hinn rændi" hefur vissulega kosið "ræningjana" aftur og aftur. Rétt eins og aldraðir og öryrkjar hafa kosið þá sem ákvörðuðu þeirra bætur og þingmenn sem stutt hafa kvótakerfið voru kosnir. Það setur ekki þá kvöð á "hinn rænda", aldraða og andstæðinga kvótakerfisins að leysa vandamálið þannig að ríkið eða kvótaeigendur verði ekki fyrir óþægindum. Það er eins og að segja þeim sem eru á móti því að farið sé með jarðýtur á landið, háspennumöstur um allar koppagrundir og uppistöðulón í hvern dal að þeir verði þá að koma með eitthvað annað sem skilar sömu tekjum til ríkisins og lífskjarabótum fyrir heimamenn og landsmenn alla eða þegja.
Hábeinn (IP-tala skráð) 31.12.2018 kl. 15:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.