Nýjar kröfur í árekstraprófum breyta miklu.

Það er ekki nýtt að bíll, sem fékk fjórar stjörnur fyrir áratug hjá EuroNCAP, hrapi niður í eina stjórnu við notkun nýrra krafna í öryggisprófun. Jeep Wrangler

Þannig hröpuðu nokkrir bílar, sem voru á Indlandsmarkaði án þess að hafa loftpúða/líknarbelgi, niður í enga eða eina stjörnu í prófun, sem gerð var í fyrra. 

Stærð bíla og útlit getur verið blekkjandi. Þúsundir manna keyptu til dæmis stóra bandaríska pallbíla eða jepplinga og fjölnotabíla (SUV) árum saman vegna þess, að útlitið benti til þess að þeir væru afar öruggir. 

En við árekstraprófun komu þeir margir herfilega út.Renault Twizy 

Ný afbrigði af árekstraprófunum felast meðal annars í því að bílarnir standist árekstur beint framan frá annað framhorn bílsins, svo sem líkt og ekið sé á vegghorn eða á framhorn bíls, og þá kemur í ljós eins og vænta má að vegghornið fer mun lengra inn í bílinn og veldur meira tjóni en ef ekið væri á breiðan og sléttan vegg. 

Til þess að átta sig betur á forsendunum fyrir stjörnugjöfinni, allt upp í fimm stjörnur, er nauðsynlegt að fara nánar yfir útlistun á forsendunum og skoða vel myndbönd af prófununum. Tazzari og Nissan Leaf

Þar er meðal annars hægt að sjá á skýringarmyndum í mismunandi litum hvernig einstakir líkamshlutar koma út, svo sem fætur, búkur, háls og höfuð og mat NCAP á því, hvaða áhrif meiðsl á mismunandi stöðum hefur á líkur á minni háttar meiðslum, alvarlegum meiðslum og banvænum meiðslum. 

Um sum farartæki, svo sem hjól eða fjórhjól verður að skoða einfaldari tölur, svo sem líkur á alvarlegum slysum almennt. 

Áður hefur verið greint frá slíku hér á síðunni, meðal annars því að tvöföld tíðni alvarlegra slysa og banaslysa á vélhjólum, miðað við bíla, stafar fyrst og fremst af tveimur atriðum, sem vélhjólamenn kunna að vanrækja en skiptir langmestu máli fyrir þá: Að vera edrú og vera án lokaðs hlífðarhjálms. 

Ef þessi tvö atriði eru í lagi, minnkar hætta á alvarlegum slysum og banaslysum um helming.  

Litlir og léttir bílar, oftast rafbílar, í tveimur þyngdarflokkum, sem fjalla undir skilgreininguna "yfirbyggð fjórhjól", hafa komið til sögu á síðustu árum, ætlað að geta komið í staðinn fyrir vélhjól ef svo ber undir, einkum sú gerð þeirra sem falla undir léttari flokkinn, má aðeins vera með sjö kw eða 10 hestafla afl og 45 km/klst hámarkshraða.

Og ökumenn þurfa minni réttindi og mega vera yngri.  

Hinn franski örbíll, Renault Twizy, sá svarti hér fyrir ofan, og hinn ítalski Tazzari hafa selst einna best, en einnig kannast Íslendingar, sem hafa farið til Kanaríeyja, líklega við hinn smáa Ligier, sem á sér lengri sögu. 

Til þess að gera þessa nettu bíla hættuminni en venjulega bíla,  eru þyngd, afl og hraði takmörkuð, allt atriði, sem auka líkur á alvarlegum slysum. Þyngri flokkurinn, L7e flokkurinn, "þungt fjórhjól", mega ekki vera þyngri en 450 kíló án rafhlaðna, ekki komast hraðar en 90km/klst og ekki vera aflmeiri en 15 kw eða 20 hestöfl. 

Renault Twizy er með loftpúða fyrir framan ökumann, sem situr fyrir framan farþegann, en er auk þess með fjögurra punkta bílbelti, en það eitt er mikilsvert atriði. 

Þrátt fyrir þetta er hætta allmikil á háls- og fótameiðslum í árekstraprófi NCAP, sem var framkvæmt 2014. 

Í prófuninni slitnaði öryggisbeltið í Tazzari, og skekkti það niðurstöðuna að sjálfsögðu mikið. Hann fékk aðeins eina stjörnu, en af kvikmynd má ætla, að hann hefði fengið tvær ef beltið hefði verið sterkara, sem það var gert eftir prófunina. 

Ligier kom verst út af þessum bílum, enda grunnhönnunin komin til ára sinna.

Fróðlegt verður að sjá gengi rafbílsins Microlino, sem nýbyrjað er að smíða í Tazzari-verksmiðjunni. 

Honum má leggja þversum í stæði, því að hann er aðeins 2,44 metra langur, og gengið er inn og út úr honum beint framan frá. 

Hann er tveggja sæta, nær 90 km hraða með 20 hestafla vél, með raundrægni upp á 100 kílómetra og 300 lítra farangursrými! 

Afar spennandi kostur í þrengslunum í borgarumferð. 

Ekki er að sjá að Microlino hafi farið í árekstrapróf, en það, að setið er bókstaflega í nefi bílsins er augljóslega helsti ókostur hans hvað öryggi varðar, þótt það sé mikill kostur varðandi það að bíllinn taki sem allra minnst pláss í umferðinni og að auðvelt sé að fara inn og út úr honum.    

 

 


mbl.is Fengu slæma útkomu hjá EuroNCAP
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Kemur eitthvað í stað vitsins í ökumanninum?

Halldór Jónsson, 29.12.2018 kl. 17:59

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Vitmenn lenda í færri árekstrum. Fíflin í mun fleirum.

Halldór Jónsson, 29.12.2018 kl. 18:00

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

1. Edrú. 2. Hjálmur. 3. Þriðja breytan í vélhjóladæminu; vélhjólamaðurinn hagar sér eins og hann sé ósýnilegur, - hanna reiknar með að sér enginn sjái hann og því verður hann að vera viðbúinn hvaða vitleysu sem er, sem aðrir en hann gera í umferðinni. 

Ómar Ragnarsson, 29.12.2018 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband