Fyrir 100 árum hófst fyrsta heila árið hjá fullvalda og frjálsu Íslandi.

18. júlí 1918 náðist samkomulag um Sambandssamning Íslendinga og Dana. Mikilvægust var grein hans þess efnis, að 25 árum síðar gæti hvor þjóðin um sig sagt samningnum upp og Íslendingar stofnað lýðveldi með forseta sem þjóðhöfðingja, ef þjóðin æskti þess. 

1. desember það ár tók samningurinn gildi, þannig að 1. janúar fyrir réttum hundrað árum hófst fyrsta heila ár hins frjálsa og fullvalda lands með eigin þjóðfána og stjórn allra sinna mála. 

Árin 1917 og 1918 höfðu verið afar erfið, 1917 varð versta kreppuár 20. aldarinnar og bæði Kötlugos og síðasta stóra drepsóttin höfðu herjað á landsmenn. 

Það varð til bjargar, að landsmenn gátu leitað í vesturveg um að útvega helstu nauðsynjar þessi ár og lagt þar með grunninn að þróun í varnar- og viðskiptamálum, sem varð að leiðarstefi eftir 10. maí 1940. 

En raunar að umdeilanlegu leiðarstefi út öldina. 

Á facebook ætlar síðuhafi að heilsa árinu 2019 með laginu Frelsisvori, sem var frumflutt í sjónvarpi og útvarpi 1. desember síðastliðinn, en ljóðið við það er að finna í ljósmyndasöngljóðabókinni "Hjarta landsins" og flutninginn er að finna á Spotify með söng Heru Bjarkar Þórhallsdóttur og Gissurar Páls Gissurarsonar við hljóðfæraleik og útsetningu Vilhjálms Guðjónssonar. 

Gleðilegt nýtt ár!.  

 

FRELSISVOR. 

 

Frelsisvor! Framtíðarspor!

Frelsisvor! Áræði´og þor! 

 

Það var árið með drepsótt og eldgos og ís, 

en samt árið, sem birtist oss frelsisins dís. 

Líkt og morgunsól albjört í austrinu rís

hófst nú öld, þar sem lausnin var vís. 

 

Heitur vorblær nú flutti hið ljúfasta ljóð

eftir lamandi vetur með svita og blóð. 

Það var söngur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

 

Eftir aldanna böl var loks birtu að sjá

þegar brustu hér hlekkirnir þjóðinni á. 

Máttur fjöldans úr læðingi leystur var þá, 

svo að ljómaði gleði á brá. 

 

Frelsisvor! Framtíðarspor! 

Frelsisvor! Áræði og þor! 

 

Síðan flogin er glæsileg framfara öld 

þegar færð voru´í landið hin ítrustu völd. 

Þegar lýðveldi stofnaði fagnandi fjöld

svo að fært var á sögunnar spjöld. 

 

Landið og fólkið, lifandi mál, 

ljóðin og sögurnnar, þjóðlífsins sál, 

tónar ag myndir, formæðra fold, 

fósturjörð hjartkær, andi og hold. 

 

Undir fánanum bjarta nú brunar vort fley

inn í brim nýrrar aldar í vonanna þey. 

Þó að gefi á bátin þá æðrumst við ei

heldur eflist hver sveinn og hver mey. 

 

Enn er sungið um vorið hið ljúfasta ljóð

þegar logar á tindunum jöklanna glóð. 

Það er söngur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð.  

 

Frelsisvor! Framtíðarspor! 

Frelsisvor! Áræði´og þor! 

 

 


mbl.is Gleðilegt nýtt ár 2019!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Mér sýnist að höfundur ljóðsins sé ekki mikill stuðningsmaður inngöngu í ESB

Halldór Jónsson, 1.1.2019 kl. 17:51

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mitt er að yrkja, ykkar að skilja, sagði víst eitt skáldið. 

Ómar Ragnarsson, 1.1.2019 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband