12.1.2019 | 23:25
Fjöldi fólks er í raun ígildi blindra ökumanna á degi hverjum.
Erlenda fréttin á mbl.is, sem þessi pistill er tengdur við, á sér hliðstæðu hér á landi, ef að er gætt, og dæmin eru mýmörg.
Til dæmis þetta:
Fyrir fjórum árum stöðvaði frænka mín bíl sinn þegar hún kom á honum að gatnamótum þar sem grænt ljós hafði breyst í gult og síðar í rautt.
Var þá bíl ekið aftan á bíl hennar á fullri ferð svo úr varð harkalegur árekstur.
Hún lemstraðist og beinbrotnaði svo illa að hún þurfti að vera í læknis- og sjúkrameðferð í meira en ár og líða þjáningar.
Ökumaðurinn sem ók aftan á frænku mína var í raun ígildi blinds manns þær sekúndur sem hann ók á ca 20 metra hraða á sekúndu (70 km/klst) hinn örlagaríka síðasta spöl og var önnum kafinn við samskipti á snjallsímanum sínum.
Hliðstæðum slysum og óhöppum hefur fjölgað mikið á síðustu árum - augljóslega af þeirri einföldu ástæðu, að þessi og svipuð notkun snjallsíma og mæla hefur farið í vöxt.
Auk bílslysa af þessum orsökum hafa nú bæst við hjólaslys og og beinbrotnir gangandi vegfarendur þar sem meira að segja hjólandi og gangandi fólk hefur gert sjálft sig blint og jafnvel heyrnarlaust líka á örlagaríkum augnablikum.
Myndin hér fyrir ofan reynir á athyglisgáfuna og var vettvangur áreksturs tveggja rafreiðhjóla 2. janúar, sem skullu harkalega saman af því að þau komu úr gagnstæðum áttumm en aðeins annað þeirra var á réttum stígshelmingi.
Annar hjólreiðamaðurinn lenti harkalegar en hinn þegar hjólin féllu til jarðar og meiddist á hné, olnboga og öxl, - sýnu verst á öxlinni þar sem upphandleggsbein brotnaði upp við liðkúluna.
Hvernig mátti slíkt verða?
Hvaða atriði á myndinni gætu hafa átt þátt í slysinu?
Ökumaðurinn með bundið fyrir augun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Merkingaleysi, þ.e.a.s. það er ekkert sem beinir umferð í rétta átt. Þetta eru bara tveir aðskildir, ómerktir stígar? Hvor er hvað og eru þetta stígar sem eingöngu eru ætlaðir hjólreiðamönnum? Þó svo þeir væru merktir er ég hræddur um að sá sem fer eftir merkingum, eigi ávallt á hættu að rekast á bjálfa sem engu eira á ferðalögum sínum og ferðast jafnvel vitlausu megin, því það hentar þeim svo vel þá stundina.
(Er það rétt sem ég hef heyrt að þú hafir brotið á þér öxlina í þessu samstuði?Ef svo er, óska ég þér góðs bata. Sé þetta rógburður, óska ég þér engu að síður alls hins besta)
Góðar stundir snillingur, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 13.1.2019 kl. 02:16
Takk, Halldór, jú, eftir tæplega þriggja ára áfallalausar ferðir á tveimur ólíkum vélknúnum hjólum um land allt, frá apríl 2016, alls rúmlega 14 þúsund kílómetra, gerðist þetta lærdómsríka atvik, sem hefur verið rannsóknarefni mitt síðustu tíu daga á þeim afkastahraða snigilsins sem fylgir því að vera kastað frá ofurhraða beggja handa löngu áunninnar ósjálfráðrar fingrasetningar við vélritun, alla aftur á nokkurs konar steinöld í byrjendavélritun við að leita að hverjum einasta staf eða merki með því að fikra sig áfram á lyklaborðinu.
Upp kom forgangsröð í því sem ég myndi gera næstu vikur og mánuði - að viðhalda meðal annars færslu þessarar bloggsíðu og faebook í mýfluguformi í eins konar tvitterstíl, þótt jafnvel smátíst tæki jafnvel meira en klukkustund í stað þriggja mínútna.
Nú þegar blasa við atriði í skoðun á hjólaferlinum, sem gætu orðið nytsamleg við að bæta umferðina hjá okkur.
Ómar Ragnarsson, 13.1.2019 kl. 07:33
Í fáum orðum: Hjólreiðamaður sem fór inn á stíginn til hægri í rökkri fór að reyna að lesa niður fyrir sig af óupplýstum mæli á hjóli sínu tæpa stöðu rafhlöðunnar.
Við það missti hann sjónar og umferð á móti og - það sem verst var, missti sjónar á stöðu hjóls síns, enda merkingarnar á stígnum löngu útmáðar, og fór óafvitandi inn á öfugan vegarhelming beint í flasið á umferðinni á móti.
Hvor akrein um sig er aðeins 1,25 m breið.
Ómar Ragnarsson, 13.1.2019 kl. 07:53
Stígurinn til vinstri á myndinni er eingöngu ætlaður gangandi fólki og er 40 sm breiðari en hjólastígurinn þegar inn á hann er komið.
Ómar Ragnarsson, 13.1.2019 kl. 08:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.