15.2.2019 | 18:35
Gamalkunnug gjá og draugur.
Gamalkunnug gjá og forn draugur birtust í tilboði SA upp á 2,5% kauphækkun á ári næstu þrjú árin, sem í raun þýðir launalækkun, vegna þess að verðbólgan þessi þrjú ár verður augljóslega mun meiri en þessu nemur.
20 þús krónur á ári er áreiðanlega eins og blaut tuska framan í fólkið, sem horfir á kauphækkanir til helstu forstjóra og bankastjóra, sem eru í kringum 500 sinnum meiri.
"Ég veit hvað þetta fólk hefur og hvað það þarf" sagði Gvendur jaki hér í eina tíð þegar hann lýsti kjörum skjólstæðinga sinna.
Gagntilboðið óaðgengilegt SA | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hið rétta er að tilboðið var upp á árlega 2,5% hækkun launa yfir 600.000 á mánuði og 20.000 á mánuði, ekki ári, á laun undir 600.000 á mánuði. Og ég hef hvergi séð það að helstu forstjórar og bankastjórar hafi hækkað um 10 milljónir á mánuði.
En það er rétt að viðbúið er að verðbólgan éti upp hækkanirnar, og gott betur, verði ekki samið af skynsemi. En skynsemi er bannorð í dag, og þess vegna höfum við Trump, Brexit og fáránlegar kröfur verkalýðsleiðtoga.
"Ég veit hvað þetta fólk hefur og hvað það þarf" sagði Gvendur jaki hér í eina tíð þegar hann lýsti kjörum skjólstæðinga sinna. Og gekk svo af hörku til samninga sem skiluðu tveggja stafa verðbólgu og kaupmáttarskerðingu hjá þeim skjólstæðingum.
En það er gleymt meðan hetjusögurnar lifa. Og nú eru ungir og ferskir verkalýðsleiðtogar tilbúnir til að láta sverfa til stáls, skapa sér nafn og pláss í sögunni og endurtaka afleiki fortíðarinnar og Gvendar Jaka.
Vagn (IP-tala skráð) 15.2.2019 kl. 22:47
Ekki brunnu allir ávinningar verkfalla upp í verðbólgu. Því miður þurfti verkföll eða brýningu verkfallsvopnsins til þess að fá fram jafn sjálfsagðar varanlegar kjarabætur til allrar framtíðar 1955, 1964 og 1965, og fólusst í stofnun sjoða vegna atvinnuleysis, lífeyris og umbóta í húsnæðismálum.
Ómar Ragnarsson, 16.2.2019 kl. 00:07
Ekki allir ávinningarnir. En hér var samt reglan launahækkanir umfram getu, verðbólga og lakari lífskjör. En þar sem lífskjör voru betri en hjá okkur var reglan skynsamlegar hækkanir, og stöðugt verðlag. Þá sjaldan við gerðum undantekningar á reglunni bötnuðu lífskjör umtalsvert. En þá komu ætíð einhverjir sem töldu að það sannaði að meira væri að sækja og að ekkert væri að marka varúðarorðin, verkafólk þyrfti verulegar launahækkanir til að geta lifað. Hljómar þetta ekki kunnuglega? Nýjar raddir en gamall söngur. Reglulegar kreppur, óðaverðbólga og tap ávinnings nokkurra ára baráttu voru afleiðingin.
Vagn (IP-tala skráð) 16.2.2019 kl. 04:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.