Misréttið kemur úr mörgum áttum.

Í nokkurra daga reynsluökuferð norrænna bílablaðamanna á Volvo 1978 um Kolaskaga til Murmansk gafst tækifæri til að skyggnast inn í þær fangabúðir sem Sovétríkin voru. Bílarnir voru faldir á bak við hótelið í Murmansk dagana sem stansað var þar svo að innfæddir sæu þá ekki. 

Samt dúkkuðu upp menn sem sögðust hafa fé á hverjum fingri og aðstöðu í kerfinu til að kaupa bíl á staðnum fyrir sig. Stoltir sýndu Rússar okkur verksmiðjuskip af stærstu gerð, sem voru að veiðum á úthafinu margar vikur í senn. 

Í skoðanaferð um borð blasti við slíkt misrétti og stéttaskiptin í aðbúaði, að norski bílablaðamaðurinn sagði að enginn Norðmaður né Íslendingur fengjust til að vinna á skipi við slíkar aðstæður. 

Rússarnir brugðust ókvæða við þessum ummælum sem svívirðilegum aðdróttunum: "Þið vitið ekkert hvað þið eru að tala um. Það eru 3000 menn á biðlista eftir að komast í vinnu á þessu glæsilega skipi." 

Meira þurftum við raunar ekki að vita. Þetta sýndi að það eitt að geta kúldrast úti á reginhafi án þess að sjá land, vikum saman þröngri kompu með öðrum, var talið þess virði að vera á stórum biðlista til þess. 

Á sama tíma voru yfirmennirnir í stórum svítum út af fyrir sig. 

Á okkar dögum æpa aðstæðurnar í Venesúela og Norður-Kóreu á alþjóðasamfélagið. 

Það er ákveðið afbrigði af auðræði eða auðvaldi sem birtist hjá kommúnistaþjóðunum, þar sem harðsnúin "ný stétt" forríkra valdamanna beitir kúgun til að sölsa undir sig öll völd og þar með gervallan þjóðarauðinn. 

Í kapítalismanum birtist þetta í því að æ færri, já örfáir einstaklingar eiga svo mikinn auð, að hann jafnast á við allar eigur milljarða fólks. 

Kommarnir réttlæta sína auðsöfnun og arðrán með því hve nauðsynlegt kerfið sé fyrir framgang kommúnismans og þar með völd þeirra manna sem stjórna því kerfi. 

Kapítalistarnir réttlæta sín gríðarvöld og auð með því hve mikilvægir þeir séu sem eins konar ofurmenni í nútíma misrétti hins sívaxandi og alltumlykjandi alþjóðlega auðræðis. 

Hugmyndir nasista um ofurmennin sem öllu skyldu ráða og "untermensch" og óæðri kynþátta sem skyldu þræla í þeirra þágu voru greinar af sama meiði, hugsuninni um aðskilnað kynþátta og stétta. 

Hér á Íslandi fáum við smjörþefinn af þessu í sjálftökuskipulagi hinna efst settu í þjóðfélag tveggja þjóða í sama landi, þar sem önnur þjóðin býr í erlendu gjaldeyrisumhverfi með eignir sínar í erlendum skattaskjólum, en hin þjóðin í krónuhagkerfinu og bælingu í kjaramálum. Auknum kaupmætti er veifað framan í fólk, en hvað stoðar aukinn kaupmáttur ef stærstu peningalegu atriðin í kjörum eins og þak yfir höfuðið vaxa langt umfram allar kaupmáttartölur?


mbl.is Vaxandi ójöfnuður áhyggjuefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband