Kerfi í 737 Max lagað með því að bæta við nýju kerfi. En hvað, ef það bilar?

Með því að bæta nýju viðvörunarkerfi við annað nýtt í Boeing 737 Max vélum er ekki ráðist að rótum vandans, sem liggur í því, að til þess að geta troðið stærri og aflmeiri hreyflum á vélarnar en þær voru hannaðar fyrir í upphafi og hafa hreyflana framar en áður, röskuðust þyngdar- og lyftihlutföll vélanna og sköpuðu hættu á ofrisi og óviðráðanlegum eiginleikum, sem ekki voru í fyrri gerðum 737 véla.

MCAS kerfið gat bilað og orðið hættulegt í samræmi við alræmt lögmál Murphys og það kostaði tvö mannskæð flugslys með stuttu millibili. 

Spurningin er hvort það að bæta nýju kerfi við það sem gat bilað eða valdið vandræðum geti ekki líka orðið lögmáli Murphys að bráð og bilað eða valdið vandræðum. 

Með því að endurhanna þessa stærð þotna allt að því frá grunni myndi verða ráðist beint að rót vandans og þá þyrfti ekki nein flókin viðbótar sjálfstýringar- og viðvörunarkerfi. 

En notkun 737 Max þotnanna strax núna er framleiðendunum lífsnauðsyn ef þeir ætla að vera fyllilega samkeppnishæfir við Airbus 320 Neo, sem ekki þarf kerfi á borð við MCAS, af því að hún var hönnuð aldarfjórðungi síðar en Boeing mjóþoturnar og höfð nægilega stærri en þær til þess að stærri og aflmeiri hreyflar yllu ekki tilkomu hinna tölvustýrðu kerfa, sem verður að setja í Max vélarnar. 

Vonandi leysir það málin í Boeing Max vélunum. Síðuhafi flaug með einni slíkri vél í síðustu ferð hennar áður en hún var kyrrsett, setti traust sitt á vel þjálfaða flugmenn og var ánægður með það hve hljóðlát hún var og þægilega innréttuð, þrátt fyrir mjóan skrokk.


mbl.is Kynna uppfærslu á MAX-8 vélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband