Man nú nokkur Loftleiðir, Arnarflug, Íslandsflug og Iceland Express?

Fróðlegt er að rifja upp sögu nokkurra "lággjaldaflugfélaga" í íslenskri flugsögu þegar forstjóri WOW air hefur lýst því yfir að mistakist hafi að afla fjár til að halda rekstri félagsins áfram.  

Á sjðtta áratugnum bundust flugfélög heimsins samtökum um að koma á einokun á flugfargjöldum í gegnum Alþjóðasamband flugfélaga, IATA. 

En einokunin hélst ekki til lengdar, vegna þess að lítið íslenskt flugfélag, Loftleiðir, stóð utan samtakanna og bauð lægri fargjöld með því að kaupa hægfleygari og lágfleygari flugvélar sem buðust á góðum kjörum þegar einokunarflugfélögin seldu þessar vélar og tóku í notkun skrúfþotur og síðar hreinræktaðar þotur. 

Með þessu varð til fyrirbæri sem stundum var nefnt Loftleiðaævintýrið, og fékk framlengingu þegar Loftleiðir keyptu Canadair 44 skrúfuþotur og flugu þeim í samkeppni við hraðfleygari og háfleygari stórþotur einokunarflugfélaganna. 

Lága verðið hjá Loftleiðum hélst þar til utannaðkomandi áhrif í formi stórfelldrar hækkunar eldsneytisverðs gerði reksturinn erfiðan, en þá voru Loftleiðir búnir að taka í notkun DC-8 þotur, sem voru jafn hraðfleygar og vélar keppinautanna. 

Niðurstaðan varð að sameina Loftleiðir og Flugfélag Íslands í eitt flugfélag, icelandair. 

Margir Loftleiðamenn töldu að við sameininguna hefði hlutur Loftleiða verið stórlega vanmetinn. 

Stofnun flugfélagsins Arnarflugs var tilraun til að rjúfa einokunarástandið, en það félag var keyrt í þrot. 

Hvað um það, að mestu hélst einokun á fargjöldum og flugi bæði innanlands og í millilandaflugi Íslendinga, sem stóð til 1995. 

Þetta var dýrðartími Kolkrabbans svonefnda. 

En 1995 var innanlandsflugið gert frjálst eftir rúmlega 40 ára einokun Flugfélags Íslands. 

Nýtt flugfélag, Íslandsflug hóf þá samkeppni við Flugfélag Íslands og bauð helmingi lægri fargjöld. 

En hið nýja félag hafði ekki þann mikla bakstuðning sem Flugfélag Íslands hafði, og var notaður til að bjóða jafn lág fargjöld og Íslandsflug. 

Íslandsflug þoldi ekki þetta áhlaup og gafst upp. Við tók einokun í fluginu að nýju. 

Ein merkasta frétt ársins 2003 var stofnun flugfélagsins Iceland Express, sem bauð upp á samkeppni í flugi til og frá landinu. 

Með því var aflétt því heljartaki, sem verið hafði á þessu lífsnauðsynlega flugi fyrir eyþjóð, en ferðaþjónustusprengjan í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins 2010 aflétti að fullu því óhagræði sem fjarlægð landsins sem eylands frá öðrum löndum hafði valdið allar götur frá fyrsta millilandafluginu eftir Seinni heimsstyrjöldina.

Einokun í innanlandsflugi hefur að mestu verið haldið með þeim árangri, að dæmi eru um að það kosti 87 þúsund krónur að fljúga fram og til baka milli Egilsstaða og Reykjavíkur.

Uppgangur WOW air og Loftleiða byggðist á lágu eldsneytisverði þegar ákveðið var að fara út í flugreksturinn. 

Í báðum tilfellum breyttist þessi forsenda, - hjá Loftleiðum með stórhækkuðu verði í kjölfar óróa í Miðausturlöndum. 

Á internet Explorer hefur verið stundað að birta lista "álitsgjafa" þar sem ýmsum fyrirbærum í ferðaþjónustuinni er raðað eftir gæðum. 

Þar hefur meðal annars birst listi yfir "verstu flugfélög heims" og raða lággjaldaflugfélögin sér í efstu sætin á þeim lista, þannig að WOW air er dæmt sem "versta flugfélag heims." 

Þegar litið er á atriðin sem eiga að réttlæta þennan harða dóm, kemur í ljós að fargjöldin eru ekki tekin með í reikninginn! 

Atriðin sem talin eru styrkja þessa niðurstöðu eru ekki minna öryggi vélanna, heldur hið augljósa, minni þjónusta varðandi farangur og upplýsingagjöf,- þau atriði sem gera þessi félög kleyft að bjóða lág fjargjöld. 

Það eitt sýnir mikla ósanngirni að taka verðið ekki með í reikninginn, því að gengi þessara flugfélaga byggist á því, að lág fargjöld gefa fjölda fólks tækifæri á að nýta sér flugið sem annars hefði ekki efni á því.

Að bera saman söluvöru án þess að taka verðið með í reikninginn er vægast sagt sérkennileg aðferð.  

Þetta stingur til dæmis í stúf við ýmsan samanburð sem sjá má á öðrum sviðum. 

Sem dæmi má nefna í þýskum vélhjólabókum, að enda þótt BMW merkið sé algengst í Þýskalandi í krafti mikillar fjölbreytni, eru mest seldu einstöku gerðirnar Honda SH og Vespa í flokki vespuhjóla í Þýakalandi, en í flokki almennra hjóla er Yamaha MT-O7 mest selda hjólið. 

Það byggist á samspili gæða og lágs verðs hjóls sem eru af meðalstærð.

Nú er að sjá hver örlög annarra lággjaldaflugfélaga en WOW air verða. Félögin eru það mörg að einhver þeirra ættu að geta staðið storminn af sér, en samt kannski með því að hækka fargjöldin eitthvað.   

Þess má geta að flugöryggi var ekki atriði sem hafði áhrif í "úttektinni" á netinu á "verstu flugfélögum heins", heldur er það þvert á móti vandamál núna hjá "hefðbundnari" flugfélögum. 


mbl.is Þúsundir farþega bíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það var sláandi hversu fargjöldin hækkuðu fljótt hjá Flugfélagi Íslands eftir að þeir bitu af sér Íslandsflug.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.3.2019 kl. 10:56

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er til lögmáið: Eins dauði er annars brauð. 

Ómar Ragnarsson, 28.3.2019 kl. 13:48

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Varðandi samanburð á fargjöldum hjá WOW og Iceladair þó var hann ekki svo mikill, ekki þegar allt var tekið með í dæmið. Fyrir það fyrsta auglýsti WOW sína verðskrá án alls, þ.e. flugvallagjalda, farangurs og fleira, meðan Icelandair var með þessi gjöld inn í dæminu. Þarna er ég auðvitað' að tala um auglýstar verðskrár flugfélaganna, ekki einstakar ferðir sem var verið að bjóða á svo lágu verði að mesti kostnaður farþegans var milli Keflavíkur og Reykjavíkur.

Vissulega var hægt að komast ódýrara milli staða með WOW, ef enginn farangur var með. Sjálfur átti ég erindi vestur um haf á síðasta ári og skoðaði því vel hvað var í boði hjá þessum tveim aðilum. Niðurstaðan var að miðað við þann farangur sem ég þurfti, tvær töskur í lest, breytti engu hvort félagið ég verslaði við, kostnaðurinn var nánast sá sami, þó einhverjum krónum dýrara með WOW.

Hitt er ljóst að einokun er alltaf slæm og þau tímabil sem slíkt ástand hefur verið við lýði í fluginu, hafa ferðalög til og frá landinu verið dýr. Kannski hefði verið dýrara fyrir mig að fljúga með Icelandair ef WOW hefði ekki verið til staðar. Nú í dag hefur Icelandair hækkað hjá sér gjaldskrár til ýmissa staða og vekur það vissulega hjá manni hroll.

Hvort félagið geti staðið á þeim hækkunum til lengdar má vissulega efast um. Staðan nú er ólík því sem áður hefur verið, þegar keppinautar þess hafa lagt upp laupanna, í dag fljúga yfir 20 flugfélög til og frá landinu. Því er ekki víst að Icelandair geti nýtt fall WOW til mikilla hækkana, þó tilraun sé gerð til þess.

Verst er fall WOW fyrir starfsfólk fyrirtækisins. Hugur manns er fyrst og fremst hjá því.

Gunnar Heiðarsson, 28.3.2019 kl. 19:19

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð Grein Ómar. Það er talað um einokun hér þrátt fyrir að 20 önnur flugfélög selji ferðir til og frá Íslandi. Icelandair hefir ekki í mörg ár geta selt fargjöld á kostnaðarverði þessvegna þurftu þeir tíu milljarða lán.

Wow stal af sjálfum sér og því gátu þeir ekki byggt sig upp sem skildi og átt sjóði til að taka sveiflur á eldsneytisverði. Þessu þjófnaður kom auðvita niður á viðhaldinu í ýmsu formi. Viðgerðum var ýtt áfram þar til stórskoðanir voru og tryggingar almennt dýrari og flugtími á hreyflum styttri á milli skoðana hjá óreyndum fyrirtækjum.

Fyrirtækið Wow hafði enga reynslu á flugrekstri og það var ekki í fá skipti sem Icelandair hjálpuðu þeim varðandi viðhald.   

Icelandair urðu að selja ódýrara en þeir vitandi gátu.

Ég tel það hollast fyrir fyrirtæki að hafa flugfargjöld rétt í framtíðinni nema almenningur vilji að ríkið borgi með þeim. Ég segi aftur. Ef fólk hefir ekki efni á að fljúga fyrir rétt fargjöld þá verður það bara vera svoleiðis.

Ríki verða að sjá svo til að hleypa ekki öllum inn á markað okkar frekar en að láta þjóðir heims veiða í okkar landhelgi.   

Valdimar Samúelsson, 28.3.2019 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband