Vel haldið á spilum.

Nýtt og ferskt forystufólk í öflugustu stéttarfélögum landsins hafði uppi réttmætar kröfur um að ráðist yrði gegn bágum kjörum hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu. 

Kröfurnar voru enn réttmætari en ella vegna þess að elíta stjórnmálamanna og tekjuhæstu valdahópanna hafði stundað bíræfna sjálftöku varðandi launakjör sín. 

Í upphafi þótti mörgum hinar sósíalísku yfirlýsingar nýju verkalýðsforystunnar glannalegar í ljósi skipbrots kommúnismans á sinni tíð. 

En það var ekkert óeðlilegra að þetta forystufólk héldi fram sinni skoðun heldur en þegar yfirlýstir hægri menn hafa verið meðað forystufólks. 

Þegar lagt er af stað í átök um stefnur og gjörðir er mikilvægt að mótaðilar kanni vel aðstöðu hvors annars og styrk. 

Fyrir nýja verkalýðsforystu var nauðsynlegt að sýna fram á einurð og færni við að beita sínum beittustu vopnum, því að langvarandi deyfð í þeim málum hafði eðlilega skapað efa á því að í þeim efnum kynnu nýliðarnir til verka. 

Ef spilað var úr veikleika, var samningsaðstaðan verri. Þetta er alkunnugt fyrirbæri í íþróttum, þar sem mótherjar byrja oft á því að "lesa" andstæðinginn, sjá hvaða vopnum og færni hann býr yfir og finna rytma hans og aðlaga sig að honum. 

Nú virðist sem þetta hafi tekist í samningalotunni sem hefur staðið yfir. 

Báðir aðilar virðast sýna skilning á aðstöðu hvors annars. 

Verkalýðsfélögin hafa haldið vel á verkfallsvopninu og sýnt siðferðilegan og hugsjónalegan styrk, en atvinnurekendur hafa líka komið því til skila, að það árar ekki vel í atvinnulífinu og ástandið fer almennt jafnvel versnandi. 

Ef grundvallarsamningar nást nú sýnir það að vel hefur verið haldið á spilum í viðkvæmum og erfiðum málum. 


mbl.is Sólarhringsverkföllum aflýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ein hæstu verkamannalaun í heimi og bestu lífskjör þykja vera bág kjör. Og atvinnurekendur verða því að borga meira en þjóðarbúið og atvinnuvegirnir þola. Það er hægt að samþykkja og láta svo gengisföll og verðbólgu um leiðréttingu á því. Erfitt en á endanum tapa launþegar sjálfir mest á því.

Ríkið er ekki eins auðvelt. Á það eru kröfurnar þannig að ekki er möguleiki á að ráðamenn með snefil af ábyrgðartilfinningu geti fallist á þær. Það mætti eins heimta að ríkið skaffaði 80 sólardaga á sumri, snjóleysi í byggð allt árið og gæfi hverjum landsmanni nýjan Nissan Leaf annað hvert ár.

Kröfur sem leiða bara til verðbólgu og skuldsetningar ríkisins eru gamalkunnug stef frá síðustu öld. Enn er fjöldi fólks lifandi sem man þá tíma þó nýtt og ferskt forystufólk í öflugustu stéttarfélögum landsins muni þá ekki og hafi engan áhuga á að læra af sögunni.

Vagn (IP-tala skráð) 2.4.2019 kl. 12:21

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ævinlega er skautað fram hjá því hve ástandið í húsnæðismálum er mun verra hér en í nágrannalöndunum. En húsnæðismál og húsnæðiskostnaður eru stór hluti af því hvernig kaupmátturinn er rýrður. 

Ómar Ragnarsson, 2.4.2019 kl. 17:07

3 identicon

Er ástandið í húsnæðismálum mun verra hér en í nágrannalöndunum eða bara sagt vera verra? Á því er töluverður munur. Húsæðiskostnaður er t.d. hlutfallslega lægri miðað við lágmarkslaun en hann var tvo síðustu áratugi síðustu aldar og fram að hruni. Kaupmáttur lágmarkslauna, að teknu tilliti til húsnæðiskostnaðar og skatta, er samt hærri en hann hefur nokkurn tíman verið.

Skautað er listilega framhjá því að krafan um að húsnæðisverð verði eins og í hruninu sé ekki raunhæf, að launahækkanir verkamanna lækki ekki húsnæðisverð og að húsnæði sé að finna víðar en í miðbæ Reykjavíkur.

Vagn (IP-tala skráð) 2.4.2019 kl. 19:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband