17.4.2019 | 18:05
Margslungið og merkilegt viðtal.
Fyrir nokkrum árum varð til hugtakið "Skagfirska efnahagssvæðið" sem lýsing á veldi Kaupfélags Skagfirðinga og kaupfélagsstjórans. Í löngu og margslungnu viðtali við Þórólf Gíslason kemur svo margt merkilegt fram, að það tekur smá tíma að melta það allt.
Stórmerkilegt er hvernig nýtingu framleiðslu landbúnaðarins er hagað og hver hugsunin er að baki því.
Einhvern tíma í gamla daga hefði maður látið segja sér það tvisvar að stærsta og öflugasta samvinnufélag landsins ætti 20 prósenta hlut í Morgunblaðinu, en svona breytast nú tímarnir og mennirnir með.
Þjóðarsjóðurinn, sem Þórólfur talar um, hefur verið byggður á svipaðri hugsun og olíusjóður Norðmanna.
Þó er þar einn stór munur á og því er það þess virði að athuga skoðanir Þórólfs á íslenskri hliðstæðu.
Þessi munur er sá, að olía er takmörkuð auðlind og um hana gildir að "eyðist það sem af er tekið". Þegar olían er gengin til þurrðar ætla Norðmenn að virkja sjóðinn til að minnka höggið af missinum.
Þeir vita sem sé sjálfir hvenær þörfin verður til að nota sjóðinn, en hér á landi á það að verða háð mati ráðamanna á hverjum tíma, hvenær okkar sjóður verður notaður og hvernig.
Þórólfur hefur eðlilega áhyggjur af lausung í þessu efni og þær áhyggjur eiga rétt á sér.
Enn athyglisverðari eru efasemdir hans og áhyggjur vegna hugmyndanna um sæstreng og hækkandi raforkuverð hér á landi, sem af honum myndi leiða.
Gagnrýnir þjóðarsjóðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.