23.4.2019 | 01:52
Aðalatriðið er aðhald varðandi myndbirtingu og mynddreifingu.
Síðuhafi hefur senn að baki hálfrar aldar reynslu af því að vera með myndavélar á vettvangi helstu stórslysa hér á landi, allt frá snjóflóðunum í Neskaupstað.
Auk þess á komið á vettvang margra tuga banaslysa og alvarlegra slysa.
Það kom fyrir að birtar voru myndir í fjölmiðlum af vettvangi slikra slysa, sem voru í raun brot á siðareglum blaðamanna.
Sú hefur líklega verið ástæða þess að öllum öðrum en björgunarsveitarmönnum bar bannað að taka myndir á vettvangi í Súðavík fyrr en búið var að finna alla, sem lentu í flóðinu.
Þá hafði ég í ljósi reynslunnar á öllum stórslysastöðunum komist á þá skoðun, að ekki ætti að einblína á myndatökurnar sjálfar, heldur hvort, hvenær og hvar myndir yrðu birtar.
Vel kæmi til greina að einstaka myndir væru þess eðlis að á þær væru lagt bann við birtingu í allt að 100 ár. En eftir þann tíma kynni að koma að því að þær yrðu að nauðsynlegum þætti í gögnum um sögu þjóðarinnar.
Eftir á kom í ljós að algert myndatökubann hafði slæmar afleiðingar fyrir nauðsynlega gagnaöflun vegna hamaranna á Súðavík, og að aðalatriðið ættti að vera hvort og hvernig ætti að birta myndir.
Þegar enn mannskæðara snjóflóð féll á Flateyri síðar á sama ári, var því þetta mál leyst farsællega á þann hátt, að tveir fjölmiðlamenn, einn ljósmyndari og einn kvikmyndatökumaður, voru valdir til að fara strax inn á svæðið og taka myndir fyrir alla fjölmiðlanna.
Reynsluboltarnir RAX og Friðþjófur Helgason urðu fyrir valinu.
Sem dæmi um æskilerg vinnubrögð við svona aðstæður get ég nefnt, að á einum eftirminilegasta vettvangi stórslyss, sem ég hef komið á, tók ég fjölda mynda af bílflaki og bar þær síðan undir fréttatjóra þegar komið var til Reykjavíkur.
Fyrst voru valdar 10 myndir, sem sýndu flakið úr mismunandi mikilli fjarlægð og þær númeraðar eftir fjarlægð og ágengni, ef nota má það orð.
Mynd númer sjö var valin.
Valið byggðist á því að aðstandendur hefðu það á tilfinningunni að það hefði verið hægt að birta nærgöngulli mynd, en það ekki gert.
Enda urðu engin eftirmál af þessari myndbirtingu.
Um truflanir almennings á vettvangi slysa eiga að sjálfsögðu að gilda strangar reglur.
En síðan eiga að gilda sérreglur um myndatökur, þar sem strangar takmarkanir og viðurlög varðandi myndbirtingu séu í gildi.
Sem dæmi um mynd, sem kalla má ljósmynd 20. aldarinnar er mynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af líkum skipverjanna á Pourqouis pas? þar sem þeim er raðað í fjöruna í Straumfirði.
Sagan af óblíðum náttúruöflum Íslands hefði orðið fátækari án þeirrar myndatöku.
Varðandi þá, sem sáu þessa mynd í Alþýðublaðinu, var hún ekki of nærgöngul vegna þess að þetta voru erlendir menn sem enga ættingja eða nákomna áttu meðal lesenda blaðsins.
Sjálfur guggnaði síðuhafi á því að taka ljósmynd í Neskaupsstað 1974 sem hefði orðið ómetanleg heimild öld síðar. Hafði þá enga reynslu af því koma á svona hrikalegan vettvang harmleiks, og ekki lagst í vandlega íhugun um það, hvernig bregðast ætti við svona aðstæðum.
Lögsótt fyrir slysamyndir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.