Er hægt að breyta vindinum á Stórhöfða?

Hann landsfrægi vindur á Stórhöfða er eitt af þremur óviðráðanlegum fyrirbærum, sem sjá mátti fyrir að myndu snerta Landeyjahöfn. Þessi mældi vindur er nefnilega hluti af stórum vindmassa, sem er mikill áhrifavaldur um öldugang og yfirborðshreyfingu sjávarins á þessu svæði. 

Hin tvö fyrirbærin eru framburður mestu jökulfljóta landsins á auri til sjávar á hinni um það bil 300 kílómetra löngu sandströnd sem liggur frá Hornafirði vestur að Þorlákshöfn og þriðja fyrirbærið er síðan sú grein sjálfs Golfstraumsins, sem ber þennan aur vestur með ströndinni. 

Austsuðaustan vindurinn á Stórhöfða er síðan snarpasti hlutinn af þeirri vindátt, sem er lang algengust við þessa sömu sandströnd frá hausti til vors á hverju ári. 

Spurningarnar, sem þingmenn Suðurkjördæmis vilja láta leita svara við, snúast í grunninn um það hvort hægt sé að breyta þessum þremur stórbrotnu fyrirbærum. 

Það verður augljólsega ekki hægt, þótt velta megi vöngum yfir útfærslunni á sandmokstrinum úr höfninni og frá innsiglingarmannvirkjum hennar og einnig spyrja spurninga um það, hvaða skip henti skást til þess að mynda þá líflínu milli lands og Eyja, sem þarf að vera sem lengst órofin á hverju ári. 

Líf Vestmannaeyinga og annarra landsmanna snýst um það að glíma við náttúruöfl af ýmsu tagi, sem ráða um afkomu og lífsgæði Íslendinga.  

Þess vegna er það bráðnauðsynlegt í málefnum samgangna við Vestmannaeyjar að rannsaka sem best þau öfl, sem þar er við að glíma og ber að fagna framtaki þingmanna sem annarra í þeim efnum. 

Eitthvað hefur skolast til í orðsins fyllstu merkingu varðandi gerð Landeyjahafnar, miðað við þær miklu væntingar um heilsárshöfn, sem voru gefnar og þarf að finna út, hvað það var.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband