Gamla sagan um ugluna og ostbitann. "Fallega ... flugið tók..."

Á æskuárum las maður ævintýrið um ugluna, sem tók að sér að skipta ostbita á milli tveggja dýra, sem rifust um hann, og hafði uglan þá aðferð að hefja skiptastarfið með því að skipta bitanum í tvo misstóra bita. 

Við þetta jókst ósættið, svo að uglan bauðst til að skipta bitanum aftur. 

Hún tók væna sneið af stærri bitanum til að minnka hann, en stakk jafnframt það sem hún sneyddi af og stakk upp í sig. 

Aftur varð ósætti um skiptinguna, svo að uglan gerði aðra tilraun og notaði á ný sömu aðferð og fyrr, að taka sneið af þeim bita sem nú var orðinn stærri og stinga afgangs bitanum upp í sig. 

Enn varð ósætti og aftur lék uglan sama leikinn nokkrum sinnum þangað til sáralítið var orðið eftir af upprunalega ostbitanum. 

Þá var dýrunum nóg boðið og kröfðust þess að fá bitann til sín. 

En því neitaði uglan; sagðist eiga kröfu á launum fyrir skiptastarfið og stakk því sem eftir var upp í sig. 

Fáir íslenskir skiptastjórar komast svona langt, en ef þeir eru iðnir við að fá skiptamál í hendurnar á löngum ferli, gætu þeir notað afbrigði af aðferð uglunnar. 

Um miðja síðustu öld kom sýslumaður nokkur sér upp stærsta bókasafni landsins í einkaeigu, og var pískrað um það og dylgjað hvernig hann hefði farið að við að safna bókunum, allt ósannað í því efni.

Þegar hann hvarf loks á vit feðgra sinna varð samt til visa, sem varð landsfleyg, svohljóðandi, nema að í stað nafns eru hér settir stafirnir Xx:  

 

Fallega Xx flugið tók; 

fór um himna kliður. 

Lykla-Pétur lífsins bók 

læsti í skyndi niður. 

 

Við fráfall þekkts vinar míns og flugstjóra um síðustu aldamót, sem hét sama eigin nafni og sýslumaðurinn, kom síðuhafa í hug svipuð vísa, af því að talað var um flug í skiptastjóravísunni. 

Flugstjórinn hafði skrifað metsölubók um ævintýralega ævi sína þar sem hann komst á ótrúlegan hátt lifandi í gegnum þátttöku í Orrustunni um Bretland jafnframt því að ganga hressilega um gleðinnar dyr, enda var þessi flugstjóri einhver mest heillandi persónuleiki sem ég hef kynnst.  Vísan er svona: 

 

Fallega Xx flugið jók

í faðm á eilífðinni. 

Lykla-Pétur ljóskur tók 

og læsti í skyndi inni. 

 

Mér fannst ekki hægt að lofa þessari vísu um flugmann að verða til nema láta vísuhöfundinn sjálfan fá svipaða umsögn í eftirmælavísu um veikleika hans sjálfs þegar hann sneri tánum upp: 

 

Fallega Ómar flugið tók; 

fór um himna kliður. 

Lykla-Pétur Prins og Kók

í panik læsti niður.  


mbl.is Ófremdarástand vegna eftirlitsleysis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð sagan af uglunni :)

Guðjón Sigurbjartsson (IP-tala skráð) 9.5.2019 kl. 15:18

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, enda hefur aðferð hennar verið innleidd hér á landi með því setja það sem takmark rammaáætlunar að skipta virkjanakostunum á milli virkjanasinna og náttúruverndarsinna nokkurn veginn jafnt. 

Það er ekki gert í fyrirmyndinni í Noregi og það hefur heldur ekki verið skilningur formanns rammaáætlunarnefndar.

Skiptingin byrjaði raunar með því hjá okkur í byrjun aldarinnar að þær 30 stóru virkjanir, sem þegar voru komnar, yrðu ekki taldar með, heldur yrði þeim virkjanakostir, sem eftir væru,  skipt.  

Líkt og hjá uglunni var því stór biti tekin frá. 

Réttara hefði verið, áður en kostunum var skipt, að gefa náttúrverndarsinnum færi á að velja sér 30 virkjanakosti sem yrðu í verndarflokki, og skipta síðan til helminga því sem þá væri eftir. 

Ómar Ragnarsson, 9.5.2019 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband